Samfélagsmiðlar

Farangursgjald í pípunum en enginn fríðindaklúbbur

Iceland Express er ekki sama fyrirtækið í dag og það var fyrir ári síðan segir Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri þess. Langtíma áætlanir gera ráð fyrir stækkun leiðakerfisins og flugrekstrarleyfi.

Forstjórinn segir fríðindaklúbb ekki vera á dagskrá en farangursgjald verður lagt á nú í haust. Hann segir leiðakerfi félagsins hafa verið tekið til gagngerrar endurskoðunar og nú verði flogið til fjölmennra staða þar sem Ísland er vel kynnt. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir Skarphéðinn Berg.

Þið fluguð til New York, Chicago og Boston í Bandaríkjunum áður en gert var hlé á Ameríkufluginu. Á næsta ári verður sú síðastnefnda eini áfangastaðurinn vestan hafs. Af hverju varð sú borg fyrir valinu?

Flug okkar til Bandaríkjanna og Kanada gekk illa vegna þess að félagið var óundirbúið að halda úti svo miklu flugi þangað. Í fyrra flugum við til New York, Chicago, Boston og Winnipeg og nítján áfangastaða í Evrópu. Þetta reyndist allt of stór biti fyrir ekki stærra félag en við erum og í ofanálag urðum við óheppin með tíðar bilanir á flugvélum Astraeus sem sá um að fljúga fyrir okkur.

Iceland Express er ekki sama fyrirtækið nú og það var fyrir rúmu ári. Nú höfum við í raun endurskapað félagið og treyst innviði þess og skipulag og gert langtíma áætlanir um framtíð þess. Eftir vandlega yfirlegu ákváðum við að hefja flug til Boston en þaðan eru góðar tengingar til annarra staða í Bandaríkjunum og til Kanada, auk þess sem Boston er vinsæl borg hjá Íslendingum. Þá er Ísland vel kynnt á þessu svæði í Bandaríkjunum.
Með þessu hógværa skrefi teljum við okkur vera að styrkja leiðarkerfi fyrirtækisins. Bandaríkin eru mikilvægur áfangastaður enda koma flestir erlendir ferðamenn til Íslands þaðan. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að geta boðið Bandaríkjamönnum áframhaldandi flug til helstu áfangastaða okkar í Evrópu.

Næsta sumar ætlið þið að fjölga ferðum en fækka áfangastöðum. Afhverju?

Skýringin á þessu er að við erum að taka leiðarkerfið til gagngerrar endurskoðunar. Við munum í framtíðinni leggja meira upp úr tíðni á okkar áfangastaði og staði sem bjóða upp á góðar tengingar til framhaldsflugs. Með því teljum við okkur veita betri þjónustu. Eins og við valið á Boston þá leggjum við áherslu á að fljúga til fjölmennra staða þar sem Ísland er vel kynnt og þekkt sem ferðamannastaður.
Það er mun erfiðara að halda uppi flugi einu sinni í viku en þrisvar eða alla daga. Það er hagkvæmara fyrir félagið að hafa góða tíðni og það kemur einnig mun betur út fyrir farþegana þegar þeir eru að skipuleggja ferðalög sín.

Kemur til greina hjá Iceland Express að rukka fyrir allan innritaðan farangur?

Já við munum byrja að innheimta gjald fyrir farangur síðar í haust. Við viljum að viðskiptavinir okkar fái það sem þeir greiða fyrir. Flest þeirra flugfélaga sem við erum í samkeppni við innheimta gjald fyrir farangur og það mun því auðvelda verðsamanburð á milli okkar og þeirra að hafa sambærilega samsett verð.
Farþegi sem flýgur með engan farangur eða bara handfarangur á ekki að þurfa að borga fyrir farangur annarra farþega. Viðskiptavinir okkar eiga að fá það sem þeir borga fyrir, hvort sem það er sæti eða farangur. Við munum að sama skapi ganga ákveðnar eftir því að farið sé eftir þeim reglum sem gilda og heimila tíu kíló í handfarangur.

Ferðir Iceland Express í sumar voru nokkru færri en þær voru síðasta sumar (m.a. vegna niðurfellingar á flugi til N-Ameríku). Hver er þróunin varðandi sætanýtingu hjá félaginu á milli sumarins í ár og í fyrra?

Þetta er ekki alveg sambærilegt þar sem við erum að jafnaði að fljúga með stærri flugvélum í ár en í fyrra. Hins vegar hefur sætanýtingin hjá okkur verið með ágætum í sumar og svipuð og hún var í fyrra, með þeim fyrirvara að við erum að jafnaði að flytja fleiri farþega í hverri ferð vegna stærðar flugvélanna.
Það munar auðvitað um Norður Ameríkuflugið. Þegar við flugum til fjögurra staða þar náðum við að flytja ríflega fjórðung af öllum tengifarþegum um Leifsstöð. Við vorum með sextán áfangastaði í Evrópu í sumar og fækkum þeim niður í tíu næsta sumar en erum með áætlanir um stækkun leiðarkerfisins á næstu þremur árum eða svo. Það er mjög mikilvægt og reynslan hefur kennt okkur, að taka ekki of stór skref í einu. Sú endurskipulagning sem átt hefur sér stað á fyrirtækinu undanfarið ár mun renna sterkari stoðum undir rekstur þess og gera Iceland Express mögulegt að þjóna farþegum sínum betur en áður.

Stundvísi ykkar hefur batnað mjög eftir að þið hófuð samstarf við tékkneska flugfélagið Holidays Czech Airlines. Samningurinn við félagið rennur út í vor. Hafið þið hug á að halda samstarfinu áfram?

Já enda hefur samstarfið gengið mjög vel. Við erum í viðræðum við Tékkana um langtíma samstarf og eru þær viðræður á lokastigi. Við reiknum með að skrifa undir nýjan samning á næstu vikum. Það er rétt að stundvísin var ekki alltaf góð sumarið og haustið 2011 sem skýrist af ástæðum sem ég lýsti hér að framan.
Stundvísi er hins vegar eitt það mikilvægasta í rekstri félags í flugstarfsemi. Farþeginn á að geta treyst því að komast til síns áfangastaðar á réttum tíma. Það er líka mjög mikilvægt fyrir fyrirtækið sjálft að áætlanir þess gangi upp. Því seinkanir bitna ekki bara á farþegum, þær geta haft keðjuverkandi áhrif á leiðarkerfið sem getur verið erfitt og kostnaðarsamt að vinda ofan af.
Holidays Czech Airlines eru með mjög nýlegar Airbus A320 flugvélar með lága bilanatíðni og það er mjög innbyggt í þeirra menningu að vera á tíma. Við höfum meira að segja þurft að biðja flugmennina að breyta flugi sínu heim til Íslands því þeir hafa mjög oft verið langt á undan áætlun, sem er lúxusvandamál, en hefur áhrif á starfsemi okkar þjónustuaðila á Keflavíkurflugvelli.

Verður Iceland Express orðið flugrekandi innan fimm ára?

Það er í langtímaáætlunum okkar að fá eigið flugrekstrarleyfi en við höfum ekki sett okkur nein tímamörk í þeim efnum. Þannig að ég vil ekki fullyrða hvort það verði komið innan tveggja, þriggja eða fimm ára. En vonandi gerist það sem fyrst.

Mun Iceland Express opna fríðindaklúbb á næsta ári þar sem farþegar geta safnað punktum sem nota má sem greiðslu upp í flugmiða?

Svarið við þessu er einfalt nei. Punktakerfið dregur úr gagnsæi í verðlagningu og flækir allan samanburð. Eftir á greiddur afsláttur eins og þetta kerfi er í raun og veru, er neytendum í raun ekki til neinna hagsbóta.

Við höfum séð það á framkvæmd rammasamnings ríkisins við okkur og keppinautinn Icelandair um flug fyrir hið opinbera, að punktakerfi Icelandair þvælist þar fyrir. Við mótmæltum því þegar rammsamningurinn var gerður að punktakerfi Icelandair fengi að vera inni í samningum. Enda hefur það sýnt sig að ríkið er að kaupa dýrari flugmiða með Icelandair en við bjóðum á þá staði sem rammaáætlunin nær til og þar skiptir örugglega töluverðu máli að ríkisstarfsmenn fá flugpunktana til eigin afnota.
Þetta er kerfi sem býður upp á misnotkun og hindrar í raun heilbrigða samkeppni á þessum markaði. Nú hafa Ríkiskaup ákveðið að endurtaka útboð á þessu flugi og þá er vonandi að flugpunktakerfinu verði haldið utan við nýjan samning. Það er öllum fyrir bestu að auðvelt sé að bera saman þau kjör sem í boði eru og að fólk þurfi ekki að leggjast í meiriháttar útreikninga til að finna út hvar lægsta verðið er að finna.

Nýtt efni

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …