Nýtt snjallsímaforrit á að gera túristum með iPhone kleift að halda utan um ferðagögn og auðvelda leit að flugmiðum og gistingu. Samstarfsaðili Icelandair er fyrsta fyrirtækið sem Apple semur við.
Inn á nýjustu Apple símunum er að finna forrit sem kallast Passbook. Því er meðal annars ætlað að halda utan um fríðinda- og afsláttarkort, flugmiða og hótelbókanir. Leit að gistingu er einnig hluti að pakkanum og nú hefur Apple samið við hið þýska HRS um að sjá um þá hlið mála en fyrirtækið starfar einnig með Icelandair á þessu sviði.
Í frétt á vefsíðunni Tnooz segir að með samstarfinu við Apple hafi HRS náð sér í vænan bita því nú kemst snjallsímaforrit fyrirtækisins auðveldlega í hendurnar á öllum þeim milljónum manna sem hafa fest kaup á iPhone 5 eða uppfært stýrikerfin á eldri gerðum símtækjanna frá Apple.
Samkvæmt heimasíðu HRS þá eru um 250 þúsund hótel í 180 löndum í gagnagrunni fyrirtækisins.
NÝJAR GREINAR: Verslað í Washington – 5 ástæður til að heimsækja Berlín í vetur