Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Vilborgar Davíðsdóttur

Vilborg Davíðsdóttir hefur farið víða í tengslum við ritstörfin og hefur þurft að grípa til örþrifaráða til að láta ferðaplönin ganga upp. Hún sendi nýverið frá sér bókina Vígroða þar sem umfjöllunarefnið er Auður djúpúðga og sögusviðið Bretlandseyjar norðanverðar.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég var á fjórtánda árinu þegar ég fór fyrst til útlanda, í fylgd með foreldrum mínum. Við fórum til Miami Beach í Florida sem þá var vinsæll áfangastaður Íslendinga í leit að sólskini. Heimleiðin var eftirminnileg því þá höfðum við viðkomu í Freeport á Bahamas-eyjum. Lent var í miklu þrumuveðri og eldingarnar lýstu upp flugvélina. Þar dvöldum við einn dag en fórum svo heim í gegnum Luxemburg. Þvílíkt ævintýri!

Það sem ég geri til að láta tímann líða hraðar í flugvélinni:

Ég hef alltaf með mér góða bók og nýt þess að hafa frið til að lesa.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Þær hafa allar verið góðar, sérstaklega ferðir mínar um Skotland, Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltland og Írland í tengslum við skrifin um líf Auðar djúpúðgu. Sú eftirminnilegasta er þó líklega ferð mín til Grænlands aldamótaárið 2000, þegar ég var að undirbúa skrif á skáldsögunni Hrafninn. Þá ferðaðist ég um slóðir norrænna manna á vesturströndinni og skoðaði rústir og kirkjugarð frá miðöldum. Fáum árum seinna fór ég um norðurhluta landsins og gekk um óbyggðir við Diskóflóa. Það var ógleymanleg lífsreynsla.

Tek alltaf með í fríið:

Góða gormastílabók til að skrifa í ferðadagbók sem ég myndskreyti jafnóðum með póstkortum frá hverjum stað.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Þegar ég fór til Julianehab (Qaqortoq) á Grænlandi árið 2000 ætlaði ég að bóka bátsferð í Hvalseyjarfjörð til að skoða þar stærstu miðaldarúst landsins, steinkirkju sem byggð var í kringum árið 1400 og mig hafði lengi dreymt um að sjá. Sama dag kom þangað risastórt skemmtiferðaskip og á augabragði voru allar fleytur bæjarins bókaðar undir bandaríska ellilífeyrisþega sem vildu sjá kirkjuna. Mér tókst þá að ráða mig í hvelli sem leiðsögukonu á einn bátanna og hélt langa tölu yfir þeim amerísku um sögu Grænlands og norrænar byggð þar til forna. Þeir spurðu margs en ég varð kjaftstopp þegar einn þeirra vildi endilega vita hversu lengi ég hefði starfað sem leiðsögumaður á Grænlandi. Gat samt ekki logið og svaraði á endanum sannleikanum samkvæmt, rjóð í vöngum, eftir að hafa litið á klukkuna: ,,That would be … a couple of hours now, sir.“

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Get ekki gert upp á milli skelfiskveislu í Nice í Frakklandi og hreindýrasteikur á veitingahúsi Íslendingsins Eddu Lyberth í Qaqortoq, nú ferðamálastjóra þar.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Því er fljótsvarað: Edinborg í Skotlandi. Ég bjó þar með fjölskylduna frá 2005 til 2007 og þangað er alltaf jafn yndislegt að koma.

Það sem er mikilvægast á hótelherberginu:

Gott rúm og heitt vatn.

Draumafríið:

Einmitt á þessari stundu langar mig mest að eiga frí heima hjá mér, í faðmi fjölskyldunnar, með slökkt á öllum samskiptamiðlum og tækjum. En ef mér áskotnaðist óvænt flugmiði til útlanda þá myndi ég vilja fljúga til York á Norður-Englandi með mínum heittelskaða og dvelja þar á litlu gistiheimili í gamla bænum nálægt Micklegate, þar sem þúsund ára borgarveggir sjást út um glugga og aldagömul húsin halla sér í mót hvert öðru yfir þröngar, hellusteinslagðar göturnar.

Nýtt efni

Þegar blaðamaður gengur inn á Dill á Laugavegi 59 um miðjan dag í miðri viku er starfsfólkið að undirbúa kvöldið, útbúa ýmislegt fyrirfram sem fylgir 18 rétta matseðli kvöldsins. Það kostar vinnu og hæfileika að tryggja að gestir njóti þeirrar upplifunar sem þeir vænta með því að bóka borð löngu fyrirfram á þessum íslenska Michelin-stað.  …

„Íbúar þessa lands búa í ósamþykktu atvinnuhúsnæði á meðan ferðafólk gistir í íbúðarhúsnæði,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í gær. Þar gagnrýndi hún þær reglur sem settar voru í tíð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í ráðuneyti ferðamála árið 2018. Sagði Kristrún reglurnar gera fyrirtækjum, með fjölda íbúða í skammtímaleigu til …

Ég hitti dræverinn minn við terminalinn í Keflavík. Hann var að koma úr transferi  frá Selfossi. Ég spurði  hvort hann væri á Sprinternum, „Nei ég er á nýja Benzinum  hjá  Ice-eitthvað. En hvað eigum við að taka marga pax spurði hann og eru allir með vácera eða eiga þeir að borga kontant?“  Daman á deskinum …

Nú eru 10 þotur á vegum Play í háloftunum en þær voru sex fyrir ári síðan. Umsvifin hafa því aukist  um meira en helming og í nýliðnum nóvember flutti félagið 107 þúsund farþega. Það er viðbót um 42 prósent frá sama tíma í fyrra. Viðbótin er minni en sem nemur auknu framboði og sætanýtingin var …

Rebecca Yarros er sex barna móðir. Hún þjáist af sjaldgæfum sjúkdómi sem kallast Ehlers-Danlos og hún á erfitt með svefn. Í mörg ár hefur hún vaknað um miðjar nætur og legið andvaka tímunum saman. Á hinum svefnlausu nóttum vandi hún sig á að setjast upp og lesa svokallaðar ástarsögur eða romance á fræðimáli bókaútgefenda. Þegar …

Vefmiðillinn Túristi hóf sitt ferðalag fyrir 14 árum en í dag birtist hann lesendum undir nýju nafni og í breyttum búningi, sem ekki er þó fullskapaður heldur í mótun: FF7 - Frásagnir og fréttir alla daga. Áfram verða ferðamál í öndvegi en leitað fanga víðar, birtar áhugaverðar og skemmtilegar frásagnir af ýmsu tagi og fréttir …

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Aðlögunarhæfni er meðal helstu styrkleika ferðaþjónustunnar. Það sýndi hún vel í kórónaveirufaraldrinum og það á örugglega eftir að reyna á þennan eiginleika aftur. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, kom inn á þetta í ávarpi sínu á morgunfundi SAF og SA um skattspor ferðaþjónustunnar. Ekki er langt síðan Þórdís Kolbrún gegndi starfi utanríkisráðherra og …

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur, kynnti niðurstöður skýrslu sem Reykjavík Economics vann fyrir SAF um skattspor ferðaþjónustunnar - um það hvert raunverulegt framlag hennar er til samfélagsins. Byggt er á tölum frá 2022 og er meginniðurstaðan sú að skattspor ferðaþjónustunnar hafi verið rúmir 92 milljarðar króna en rúmir 155 milljarðar ef virðisaukaskattur er meðtalinn. Þetta eru …