Líkt og í fyrra þá liggur leið flestra farþega á Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar. London er í öðru sæti en vestanhafs er New York orðin vinsælli en Boston.
Nærri 380 þúsund farþegar flugu milli Keflavíkur og Kastrup í Kaupmannahöfn í fyrra. Engin önnur flugleið nýtur meiri vinsælda meðal farþega á hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Til og frá Lundúnum fóru rúmlega 360 þúsund. Þessar tvær borgir eru í algjörum sérflokki þegar litið er til fjölda farþega enda er flogið þangað nokkrum sinnum á dag allt árið um kring.
New York hefur vinninginn
Þrjú félög halda uppi áætlunarferðum til Oslóar og er borgin þriðji vinsælasti áfangastaðurinn eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan. Á honum er aðeins að finna flugleiðir þar sem samkeppni ríkir. Árið 2011 var Boston sú borg í N-Ameríku sem flestir farþegar í Keflavík fóru til en í fyrra skaust New York fram úr með um 190 þúsund farþega. Boston vermir því fimmta sætið með með nærri fjórðungi færri en stóra eplið.
Vinsælustu flugleiðirnar frá Keflavíkurflugvelli árið 2012
- Kaupmannahöfn
- London
- Osló
- New York
- Boston
TENGDAR GREINAR: Hverjir flúga hvert? – Þrír af hverjum fjórum með Icelandair
Mynd: Copenhagen Media Center