Síðasta ferð Icelandair til Rússlands í ár var farin í síðustu viku og forsvarsmenn félagsins ætla ekki að taka upp þráðinn í vor. Rússneskum ferðamönnum fjölgar ekki eins hratt milli ára þrátt fyrir beint flug milli landanna. MEIRA
Síðasta ferð Icelandair til Rússlands í ár var farin í síðustu viku og forsvarsmenn félagsins ætla ekki að taka upp þráðinn í vor. Rússneskum ferðamönnum fjölgar ekki eins hratt milli ára þrátt fyrir beint flug milli landanna.
Í fyrra fjölgaði rússneskum ferðamönnum á Íslandi um nærri helming en þá hóf Icelandair að fljúga til Sankti Pétursborgar. Það var jafnframt í fyrsta skipti sem í boði er áætlunarflug milli Íslands og Rússlands. Það sem af er þessu ári nemur aukningin í komum Rússa rúmum fjórtán prósentum en í heildina hefur ferðamönnum hér á landi fjölgað um 23,5 prósent í ár samkvæmt talningu Ferðamálastofu.
Ástandið í Úkraínu hafði áhrif
Forsvarsmenn Icelandair gáfu það út í vikunni að fluginu til Rússlands yrði ekki haldið áfram á næsta ári. „Hætt var við St. Pétursborgarflugið eftir að hafa flogið tvö flug í viku undanfarin tvö sumur vegna þess að við vorum ekki ánægð með þróunina og teljum betra að nálgast markaðinn með öðrum hætti, m.a. með samstarfi við Aeroflot. Jafnframt erum við að auka flug frá Helsinki, sem hefur miklar tengingar við Rússland. Það er líka rétt að eftirspurn dvínaði vegna ástandsins í stjórnmálum Rússa og Úkraínu, en líka vegna veikingar á rúblunni sem gerði Íslandsferðir, sem og aðrar utanlandsferðir, miklu dýrari en áður fyrir Rússa,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður um hvort minnkandi vöxtur í komum Rússa sé ástæðan fyrir því að flugleiðin hafi verið felld niður.
Kjósa frekar borgir sem eru nær
Sankti Pétursborg var eini áfangastaður Icelandair í austurhluta Evrópu en Guðjón er þeirrar skoðunar að Rússland sé ennþá álitlegur og heppilegur markaður fyrir félagið. Hann segir hins vegar að fjarlægðin til margra borga í Austur-Evrópu geri það að verkum að Icelandair bjóði frekar upp á flug frá þeim stórborgum í álfunni sem liggja nær.
Líkt og kom fram í grein Túrista í ágúst þá var flugið til Sankti Pétursborgar eitt þeirra sem líklegt var til að falla niður nú í lok sumarvertíðar.
TENGDAR GREINAR: Ekkert verður úr flugi til Moskvu – Skyldustoppin í Sankti Pétursborg
NÝJAR GREINAR: Boðar hærri fargjöld – Góður julefrokost í Kaupmannahöfn
Sérvalin hótel í ódýrari kantinum og í milliverðflokki á vegum Tablet Hotels:
París: Mayet – The Five – Hotel Thérése London: The Rockwell – The Mandeville
Kaupmannahöfn: TwentySeven – Alexandra New York: Ace – Smyth
Barcelona: Market – Granados83 Berlín: KuDamm101 – Sir F.K. Savigny