Samfélagsmiðlar

Í borg þeirra hugmyndaríku

Hið skrautlega safnahús EMP í Seattle stendur við hlið hins 184 metra háa Space Needle turns. Það er því lítið mál að gera tveimur af skyldustoppum borgarinnar skil í einu.

Það hefur lengi verið nóg af skapandi og drífandi fólki í Seattle og þeir sem gera sér ferð til borgarinnar geta notið góðs af því

Það hefur lengi verið nóg af skapandi og drífandi fólki í Seattle og þeir sem gera sér ferð til borgarinnar geta notið góðs af því.

Fyrir nærri aldarfjórðungi síðan margfaldaðist notkun á borgarheitinu Seattle í heimspressunni. Ástæðan var gífurlegar vinsældir hljómsveitanna Nirvana og Pearl Jam sem báðar eru kenndar við þessa fjölmennustu borg norðvesturhluta Bandaríkjanna. Stuttu eftir að rokkið kom Seattle á kortið hófu eigendur Starbucks og Amazon kaffi- og bóksölubyltingu sem enn sér ekki fyrir endann á. Microsoft hafði á sama tíma tekið yfir tölvuheiminn og flugfloti heimsins kemur að miklu leyti úr verksmiðju Boeing í Seattle. Allt þetta hefur sprottið upp úr þeim frjóa jarðvegi sem stemningin í borginni hefur myndað.

Dægradvöl á vegum þeirra auðugustu

Velgegni þessara aðila hefur sett svip á byggðina og til að mynda eru meðaltekjur Seattlebúa þær fimmtu hæstu í Bandaríkjunum. Það eru því margir sem hafa nóg milli handanna og það útskýrir að hluta til þá miklu grósku sem er í íþrótta- og menningarlífi borgarinnar. Auðjöfrarnir hafa líka verið stórtækir á þessu sviði og styrkt alls kyns viðburði í borginni. Til að mynda hefur Paul Allen, einn stofnanda Microsoft, reist risastórt tónlistar- og afþreyingasafn við hlið Space Needle turnins, helsta kennileitis borgarinnar. Það var stjörnuarkitekinn Frank Gehry sem teiknaði safnahúsið sem upphaflega stóð til að kenna við Jimi Hendrix, einn frægasta son borgarinnar. Ekki fékkst hins vegar meirihluti fyrir nafngiftinni meðal erfingja gítarleikarans og safnið því bara kallað EMP í dag. Paul Allen er líka maður að baki meistaraliði Seattle Seahawks í NFL deildinni og fyrirtæki hans, Microsoft, er helsti stuðningsaðili nýlistasafns borgarinnar, SAM, þar sem reglulega eru sýnd verk þeirra þekktustu.

Maturinn sóttur í nágrennið

Það hafa þó ekki allir hinir hugmyndaríku Seattlebúar verið með hugann við heimsyfirráð og í staðinn einbeitt sér að heimabyggðinni. Það sést vel á veitingahúsalífi borgarinnar. Í Capitol Hill hverfinu er til að mynda sjaldan langt á milli matsölustaða sem gera það besta úr því sem nærsveitirnar og miðin hafa upp á að bjóða. Gott dæmi um það er örstuttur kafli á Melrose Avenue þar sem hægt er að velja á milli þess að seðja hungrið með lífrænum Homegrown samlokum, borða það sem árstíðirnar í Washington fylki skammta kokkunum á Sitka&Spruce eða sökkva sér í ostrurnar hjá Taylor Shellfish. Þeir sem vilja gera sjávarréttunum enn betri skil geta reynt að sitja um borðin á Walrus and the Carpenter, við Ballard Avenue, sem stundum er sagður einn fremsti ostrubar Bandaríkjanna. Matarmenningu Seattle verða hins vegar ekki gerð góð skil nema að kíkja inn í búr borgarinnar en í rúma öld hafa íbúarnir getað sótt sér ferskt hráefni á Pike Place markaðinn í miðborginni.

Icelandair flýgur daglega til Seattle og af landakortinu að dæma er óralangt að fljúga þangað en flugtíminn er þó aðeins einum og hálfum tíma lengri en ef ferðinni er heitið til New York. Seattle liggur því vel við höggi fyrir þá sem vilja verja nokkrum dögum á nýjum stað.

Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …