Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Hallgríms Helgasonar

hallgrimur helgason

Hann tekst á loft um leið og hann lendir í New York, er á leiðinni til Porto og segir að allir staðir hafi eitthvað við sig. Hallgrímur Helgason gaf nýverið út ljóðabókina Lukka og nýja þýðingu á Óþello en hér deilir hér nokkrum sögum af ferðalögum sínum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda
Fyrstu endurminningarnar mínar eru frá Strandvejen, Skovshoved, í Kaupmannahöfn þar sem familían bjó í eitt ár, en fyrsta raunverulega utanlandsferðin var ekki farin fyrr en á þrettánda aldursári þegar ég dvaldi 3 vikur hjá frændfólki í New York sumarið 1972. Ég skrifaði aðeins um þessa dvöl í bókinni Sjóveikur í München, en þessir dagar í Ameríku höfðu varanleg áhrif á sálina. Heit rakalyktin sem mætti mér við lendingu er ennþá ein af mestu upplifunum lífsins.

Best heppnaða utanlandsferðin
Við Agla fórum til Kóreu 2010, þar sem mér var boðið á bókmenntahátíð. Asía er auðvitað annar heimur og þetta var stórkostlegt ævintýri, allt frá smáum veitingastöðum í Seoul til gistingar í miðaldaþorpi á landsbyggðinni þar sem sofið var á heitu gólfi, en hitinn er leiddur frá stónni í eldhúsinu með ævafornu lagnakerfi. Andstæðurnar voru miklar þar​​na. Einn daginn heimsóttum við aldagamalt Búddahof yfirfullt af fólki, og ​síðustu dagana vorum við á vikugömlu hóteli í tveggja mánaða gömlu hverfi þar sem allt var glænýtt og óraunverulegt en á einhvern hátt ótrúlega​ heillandi.

Tek alltaf með mér í ferðalagið
Bækur, og nú heyrnartól fyrir hljóðbækurnar í flugvélinni og lestunum. ​Maður er nánast hættur að horfa á bíómyndir auk þess sem úrvalið er sérlega slakt orðið hjá Icelandair.

Ég ætla aldrei aftur til
Allir staðir hafa eitthvað við sig og geta sagt og kennt manni eitthvað.

Eftirminnilegasta máltíðin í útlöndum
16 rétta lúxusmáltíð í boði borgarstjórans í Saint Etienne fyrir mig, Steinunni Sigurðardóttur​ og menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson, daginn fyrir leikinn gegn Portúgal á EM í sumar. Við Steinunn höfðum fyrr um daginn lesið upp í bókabúð á vegum ráðuneytisins og kvöldverðarboðið var haldið á einhverjum ægilegum „almost-Michelin“ stað – hver réttur var eins og skúlptúr og bragðið eftir því. Í miðjum tólfta rétti var maður þó farinn að leiða hugann að hnignun og úrkynjun Vesturlanda. Eg gat ekkert borðað í nokkra daga á eftir.

Það kjánalegasta sem ég hef gert sem ferðamaður
Að spyrja í Tromsö hvort róninn sem lá í götunni væri Sami​. Svarið kom frá gædinum mínum, ungum efnispilti: „Nei, ég er Sami.“

Minnistæðasta hótelið sem ég hef búið á
Andels hótel í Lodz, Póllandi sumarið 2015. Agla fann þetta á netinu, glæný hugsun í hótelrekstri. Uppgerð gömul textílverksmiðja. Lúxus á pólsku verði. Ef þið viljið fá mikið fyrir peninginn farið þá til Póllands.​

Uppáhalds áfangastaðurinn minn er
New York. Ég tekst á loft um leið og ég lendi.​

Með hverju mælir þú í New York?
Að keyra yfir Brooklyn Bridge í gulum leigubíl og horfa á Manhattan skyline​ með „Are You Going With Me?“ með Pat Metheny á fullu blasti í útvarpsþættinum The Quiet Storm á WBLS útvarpsstöðinni þegar hún var og hét.

Þangað er ferðinni heitið næst
Porto í Portúgal. Aldrei komið þangað.​

Minnistæðasta ferðalagið um Ísland
​Þegar ég fór tvítugur „gangandi“ til Ísafjarðar. Uppfullur af Þórbergs-aðdáun og landsbyggðarrómantík ákvað ég að taka rútuna í Bjarkalund og ganga þaðan á Ísafjörð þar sem ég átti að vera mættur í brúarvinnu viku síðar. Skæddur glænýjum hermannaskóm úr Vinnufatabúðinni lagði ég af stað í blíðskaparveðri og gekk fyrir Þorskafjörð, þáði kaffisopa hjá einbúa í Múla og yndislegan kvöldverð hjá góðri konu í Djúpadal í Djúpafirði og kvöldkaffi hjá aldraðri frú á Hofsstöðum í Gufufirði. Ég gekk 50 km fyrsta daginn og fékk að gista á teppalögðu stofugólfi á Skálanesi. Daginn eftir komst ég hinsvegar ekki nema 200 metra fyrir hælsærum í glænýjum skónum. Sem betur fer fékk ég far í Flókalund og þaðan yfir á Hrafnseyri þar sem ég dvaldi í góðu yfirlæti hjá nafna mínum Sveinssyni, sem ég hélt síðan góðu sambandi við. Gekk síðan yfir í Dýrafjörð og áfram til Ísafjarðar. Þekki því Vestfirði nokkuð vel.

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …