Samfélagsmiðlar

Óvissan um íslensku flugfélögin

Hlutabréfaverð Icelandair Group féll um fjórðung í gær og ennþá er ekki ljóst hver afkoma WOW air var í fyrra eða hvernig gangurinn er í ár. Flugfélögin tvö standa undir um 8 af hverjum 10 flugferðum til og frá landinu.

Icelandair og WOW air bera uppi millilandaflugið héðan.

Virði Icelandair lækkaði úr rúmum 61 milljarði niður í tæpa 46 milljarða í gærdag. Þessi mikla lækkun kemur í kjölfar afkomuviðvörunar sem fyrirtækið sendi frá sér á sunnudagskvöld þar sem fram kom að rekstrarhagnaður félagsins gæti orðið um 30 prósent lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í úttekt sem greiningardeild Arion banka sendi frá sér í gær segir að þetta gæti þýtt að Icelandair Group verði rekið með tapi í ár.

Hinn versnandi gangur hjá Icelandair virðist, samkvæmt tilkynningunni, helst skrifast á þá staðreynd að fargjöld hafa ekki hækkað í takt við áætlanir og á sama tíma hefur olíuverð snarhækkað. Þannig kostar þotueldsneyti í dag um helmingi meira en fyrir ári síðan og þrátt fyrir að þessi kostnaður vegi þungt í rekstri flugfélaga þá endurspeglast það ekki í farmiðaverðinu. Það hefur haldist lágt. Ekki bara í flugi til og frá Íslandi heldur líka í N-Ameríku og Evrópu.

Samgöngustofa komin með ársreikning WOW

Á sama tíma og forsvarsmenn Icelandair vara við versnandi afkomu þá er ekki vitað hvernig rekstur WOW air gengur en samanlagt standa íslensku flugfélögin tvö undir um 8 af hverjum 10 áætlunarferðum héðan til útlanda. WOW air er að öllu leyti í eigu Skúla Mogensen og þarf því ekki að birta upplýsingar úr rekstri sínum opinberlega. Félagið sendir engu að síður mánaðarlega frá sér upplýsingar um fjölda farþega og sætanýtingu en þær tölur segja ekkert um hver afkoman er. Og öfugt við síðustu ár þá hefur WOW air ennþá ekki tilkynnt hvort félagið var rekið með hagnaði eða tapi í fyrra. Samgöngustofa hefur þó fengið ársreikning WOW air fyrir árið 2017 því samkvæmt svari frá stofnuninni þá var honum skilað áður en frestur til þess rann út þann 30. júní sl.

Það eru engu að síður vísbendingar um að tekjur WOW air af hverjum farþega hafi lækkað umtalsvert í fyrra. Í viðtali við Morgunblaðið í vor lét Skúli Mogensen hafa það eftir sér að velta WOW air hafi verið um 50 milljarðar í fyrra. Og líkt og Túristi greindi frá í kjölfarið gefur það til kynna að meðaltekjur flugfélagsins, á hvern farþega, hafi lækkað um fimmtung milli áranna 2016 og 2017. Hins vegar fékk Túristi það staðfest hjá upplýsingafulltrúa félagsins að fargjöld þess hefðu hækkað á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Afkoman í fyrra gefur ekki skýra mynd af stöðunni

Hver staða WOW air er í raun og veru liggur þó ekki fyrir og þegar afkoma síðasta árs verður loks opinber þá mun sú niðurstaða ekki gefa fullkomna mynd af stöðunni. Því það er árið í ár sem er að reynast flugfélögunum erfiðara. Þannig fullyrti forstjóri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, að þau flugfélög sem rekin voru með tapi í fyrra eigi sér enga framtíð nú þegar olíuverðið er orðið miklu hærra. Stjórnendur Norwegian hafa einnig sagt að hinn hækkandi kostnaður muni skila sér út í verðlagið en Norwegian á í miklum rekstrarvanda og þurfti nýverið að biðja hlutahafa sína um aukið hlutafé. Afkomuviðvörun Icelandair er svo nýjasta vísbendingin um að rekstur evrópskra flugfélaga sé að þyngjast verulega.

Séríslenskur skortur á upplýsingum

Það sem gerir greiningu á íslenska flugmarkaðnum erfiðan er hveru mikill skortur er á upplýsingum miðað við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Þannig birta forsvarsmenn norrænu flugfélaganna SAS og Norwegian mánaðarlega upplýsingar um fargjaldaþróun en það gerir Icelandair ekki í tilkynningum sínum til kauphallar. Hið opinbera stendur sig líka mun verr í upplýsingagjöf því víða um heim birta flugmálayfirvöld mánaðarlega upplýsingar um fjölda farþega á öllum flugleiðum og jafnvel fjölda farþega eftir flugfélögum. Hvorki Isavia né Samgöngustofa vilja fylgja þessu fordæmi og hefur Túristi kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Beðið er eftir niðurstöðu nefndarinnar.

Nýtt efni

Biðinni er brátt lokið og eftirvæntingarfullir aðdáendur írska rithöfundarins Sally Rooney getað andað léttar því að í liðinni viku var tilkynnt af The Wylie Agency, umboðsskrifstofu rithöfundarins, að ný bók væri væntanleg frá henni þriðjudaginn 24. september 2024.  Alex Bowler, talsmaður Faber & Faber, enska forlags rithöfundarins, sendi líka frá sér tilkynningu í tilefni af væntanlegri  …

Farþegar á Keflavíkurflugvelli gátu að jafnaði valið á milli nærri 10 brottfara á dag til höfuðborgar Bretlands í síðasta mánuði. Þetta er viðbót um eina ferð frá sama tíma í fyrra ef tillit er tekið til þess að nú er hlaupaár. London var sú borg sem oftast var flogið til frá Keflavíkurflugvelli í febrúar samkvæmt …

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …