Samfélagsmiðlar

Norwegian sýnir Icelandair klærnar

Það stefnir í merkilega mikið framboð á flugsætum til Kanaríeyja í vetur. Icelandair hefur ekki enn svipt hulunni af boðaðri sókn sinni inn á sólarlandamarkaðinn.

Í viku hverri verður pláss þrettán hundruð farþega í þotum Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til Las Palmas og Tenerife.

Nú eru rúmir tveir mánuðir síðan Icelandair tilkynnti um aukið flug til Suður-Evrópu en ennþá liggur ekki fyrir til hvaða áfangastaða verður flogið eða hvernig staðið verði að sölu á farmiðum líkt og Túristi hefur fjallað um. Í ljósi skorts á þessum mikilvægu upplýsingum má gera ráð fyrir að með tilkynningunni, sem send var út hálfum mánuði eftir fall WOW air, hafi stjórnendur Icelandair ætlað að fæla aðra frá því að reyna að fylla það skarð sem WOW air skildi eftir sig í flugi til suðurhluta álfunnar. Jafnvel þó þeir hafi sjálfir ekki verið tilbúnir með áætlun. WOW air var nefnilega stórtækt flugi til Tenerife og Kanarí og bauð auk þess upp á ferðir til Alicante og Barcelona.

Stjórnendur Norwegian eru þó ekki hikandi við að sækja á þann markað sem WOW air var leiðandi á. Í gær hóf norska flugfélagið nefnilega sölu á flugmiðum til Kanaríeyja frá Keflavíkurflugvelli. Í boði verða fimm ferðir í viku til Tenerife í vetur og tvær til Las Palmas. Þetta eru tíðari ferðir en WOW air hafði á boðstólum og vart hægt að túlka innkomu Norwegian á annan hátt en að Norðmennirnir ætli sér að gera Icelandair það erfitt að hefja boðaða sókn inn á markaðinn. Ein af ástæðum þess er sú að Norwegian mun notast við flugvélar og áhafnir sem eru gerðar út frá Spáni og þar með er kostnaðurinn lægri en hjá íslenskri útgerð. Icelandair getur þá ólíklega keppt við fargjöld Norwegian nema það hafi neikvæð áhrif á afkomuna.

Ein af forsendunum fyrir að áætlunarflugi á sólarstaði er að ferðaskrifstofur, sem selja klassískar sólarlandaferðir, taki umtalsverðan hluta af sætunum. Og samkvæmt heimildum Túrista þá ríkir óánægja meðal annarra ferðaskrifstofa með hvernig Icelandair hefur staðið að sölu flugsæta í sólina síðustu misseri. Salan hefur nefnilega farið í gegnum ferðaskrifstofuna Vita, dótturfélag Icelandair Group, sem þar með fær mikilvægar upplýsingar um sölumál og viðskiptavini helstu keppinauta sinna. Það er engu að síður Vita sem leigir þoturnar af Icelandair og ber alfarið ábyrgð á þeim.

Vita hefur um árabil heyrt undir Iceland Travel og Hörður Gunnarsson verið framkvæmdastjóri beggja fyrirtækja. Hann lét hins vegar af störfum hjá Iceland Travel í byrjun þessa mánaðar en mun stýra Vita næstu „vikur eða mánuði“ samkvæmt svari frá Icelandair Group.

Þess má geta að nokkrum dögum fyrir fall WOW tilkynntu Heimsferðir að ferðaskrifstofan hefði náð samkomulagi við Norwegian um flug  til Kanarí og Tenerife í vetur. Þá var aðeins um að ræða eina ferð í viku á hvorn áfangastað. Á því hefur nú orðið stórbreyting og eru viðmælendur Túrista, sem vel þekkja til, sammála um að útspil Norwegian gæti farið nærri því að gera út um boðaða landvinninga Icelandair í Suður-Evrópu. Án þess að sitja nær eitt að fluginu til Kanarí og Tenerife þá gæti botninn hafa dottið úr þessum áformum.

Hvort það verður raunin á tíminn eftir að leiða í ljós. En ætla má að stjórnendur Icelandair geti ekki mikið lengur botnað tilkynninguna sem þeir sendu í apríl til kauphallarinnar og þar með svipt hulunni af áætlun sinni um hvernig hið nýja Suður-Evrópuflug mun „skapa tækifæri til frekari vaxtar.“ Sérstaklega núna þegar etja þarf kappi við flug Norwegian til Tenerife, Las Palmas, Barcelona, Alicante, Barcelona og Madríd frá Keflavíkurflugvelli.


Uppfært: Í upphaflegum texta kom ekki fram að Vita er í raun leigutaki á flugvélum Icelandair og ber á þeim ábyrgð. Þeirri staðreynd hefur verið bætt við greinina. Í kauphallartilkynningu Icelandair 10. apríl er þó talað um samstarf Icelandair og Vita í flugi til Alicante. Túristi lagði þann skilning í þau orð að um sameiginlegt verkefni dótturfélaganna tveggja væri um að ræða. Sá miskilningur er hér með leiðréttur.

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …