Forsvarsfólk Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, hafði gert ráð fyrir að næsta sumar yrðu tuttugu Boeing MAX þotur í flota félagsins. Það ríkir hins vegar óvissa um hvenær kyrrsetningu á þessum flugvélum verður aflétt. Af þeim sökum gaf Ryanair það út í dag að ný farþegaspá geir ráð fyrir 156 milljónum farþega á næsta reikningsári. Það er fækkun um eina milljón farþega.
Til viðbótar ætlar Ryanair að hætta að gera út frá Skavsta flugvelli við Stokkhólm í Svíþjóð og Nürnberg í Þýskalandi. Í dag er félagið með starfsemi á 86 mismunandi flugvöllum í Evrópu og Norður-Afríku.
Ryanair hefur pantað samtals 210 Boeing 737 MAX flugvélar en í dag notar félagið eingöngu eldri gerðir af Boeing 737 þotum.