Heildarfjöldi greiddra gistinátta í október síðastliðnum dróst saman um 91 prósent samanborið við október í fyrra. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 91 prósent, um 86 prósent á gistiheimilum og um 88 prósent á öðrum tegundum skráðra gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.). Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 69 þúsund í október en þær voru um 779 þúsund í sama mánuði árið áður. Um tvær af hverjum þremur gistinóttum voru skráðar á Íslendinga eða um fjörutíu og fimm þúsund en um þriðjungur á erlenda gesti eða um tuttugu og fjögur þúsund nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 52 þúsund og þar af 38.800 á hótelum.
Framboð hótelherbergja á landinu minnkaði um þriðjung frá október 2019. Þrátt fyrir samdráttin þá var nýting herbergja á hótelum aðeins ellefu prósent en var nærri sjötíu prósent á sama tíma í fyrra.
Mikill samdráttur var í hótelgistingu á milli ára í öllum landshlutum en mestur á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum fækkaði úr 225 þúsund í fjórtán þúsund á milli ára eða um 94 prósent. Á sama tíma dróst framboð hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu saman um 43 prósent á milli ára um leið og herbergjanýting féll um 67 prósentustig á milli ára.