Það söfnuðust sex milljarðar króna í lokuðu hlutafjárútboði Play nú í apríl og á hluthafalista félagsins má sjá hverjir eru eigendur níutíu prósent hlutafjár í þessu verðandi flugfélagi.
Minni hluthafar fara fyrir samtals 10,32 prósentum í félaginu og samkvæmt heimildum Túrista er Birgir Jónsson, forstjóri Play, einn þeirra sem tilheyrir þeim hópi.
Aðspurður þá staðfestir Birgir að hann hafi tekið þátt í útboðinu enda hafi hann mikla trú á félaginu. „Þetta er verkefni sem er vel þess virði að veðja á,” svarar hann.
Birgir en vill þó ekki segja hversu miklu fé hann fjárfesti í Play persónulega en segir upphæðina stóra miðað við sitt heimilisbókhald.
Birgir tók við sem forstjóri Play í kjölfar hlutafjárútboðsins í apríl en áður hafði hann verið forstjóri Íslandspósts í eitt og hálft ár. Birgir hefur líka sinnt fleiri stjórnunarstöðum um ævina og stundum í stuttan tíma í einu. Sér hann fyrir sér að stoppa lengi hjá Play?
„Ég er umbreytingastjórnandi og svoleiðis störf eru tímabundin í eðli sínu. Oft snúast þau um átök og breytingar í eitt til tvö ár og svo heldur fyrirtækið áfram á lygnum sjó ef allt hefur gengið upp. Play er þó öðru vísi og þar horfi ég til lengri tíma eins og fjárfesting mín í félaginu er til marks um.”
Play auglýsti nú um helgina eftir starfsmönnum, bæði á skrifstofur sínar í Hafnarfirði en líka í tenglsum við flugreksturinn sjálfan.