Þrátt fyrir vinsældir Íslands sem áfangastaðar þá hefur Air France, stærsta flugfélag Frakklands, aldrei haft á boðstólum áætlunarflug til Keflavíkurflugvallar.
Hins vegar hafa þotur Transavia, systurfélags Air France, flogið hingað til lands yfir sumarmánuðina frá Orly flugvelli við París. Í fyrra bættust svo við vikulegar ferðir í júlí og ágúst frá frönsku borginni Nantes.
Sumaráætlun Transavia fyrir komandi vertíð gerði svo ráð fyrir áætlunarflugi til Íslands frá borgunum tveimur en svo er ekki lengur. Allar ferðir til Íslands í sumar hafa nefnilega verið teknar úr bókunarvél félagsins. Eftir standa þó brottfarir í september og október frá Orly í París til Keflavíkurflugvallar.
Með þessum breytingum á sumaráætlun Transavia þá mun áætlunarflug milli Íslands og Frakklands á ný takmarkast við ferðir til Parísar. Icelandair hefur nefnilega ekki horft til annarra franskra borga öfugt við það sem Wow gerði. Það félag flaug nefnilega alla sína tíð til Lyon og spreytti sig einnig á ferðum til Nice.
Stjórnendur Play horfa einnig aðeins til höfuðborgarinnar þegar kemur að áætlunarflugi félagsins til Frakklands. Þangað munu þotur félagsins fljúga fjórum sinnum í viku nú í sumar og í vetur.