Samfélagsmiðlar

Einhverjir strákar að leika sér á jeppum

Þau sem standa fyrir ferðum á sérútbúnum bílum í Öskju eru ósátt við hversu seint vegurinn þangað er opnaður. Ekki sé tekið tillit til sérþekkingar, reynslu og hagsmuna ferðaþjónustunnar. Túristi ræddi við Anton Frey Birgisson, eiganda Geo Travel í Mývatnssveit.

Anton Freyr Birgisson

Anton Freyr Birgisson í Mývatnssveit

Geo Travel er ferðaskrifstofa sem stofnuð var 2009 af landvörðum í Öskju. Sýnin var skýr frá upphafi: Áhersla á sjálfbærni og náttúrutúlkun. Anton Freyr Birgisson var leiðsögumaður hjá fyrirtækinu og eignaðist það 2016. Hann á hlut í Iceland Horizon, en undir regnhlif þess eru líka Saga Travel á Akureyri og Geo Iceland í Reykjavík. Anton Freyr segir að það geti vel verið að samkvæmt rekstrarfræðunum ætti að sameina þetta allt saman og ná fram meiri hagræðingu en því segist hann ósammála. 

„Við erum í þjónustu, ekki að gera að silungi. Stór partur af þjónustu er teymið sem stendur þarna að baki.” 

Með samstarfinu undir regnhlíf Iceland Horizon er tryggt að sérhæfing haldist og að rétti bragurinn sé á þjónustunni, hvort sem það er lúxusferð á Teslu úr Reykjavík, ferð með farþega úr lystiskipi í Akureyrarhöfn eða snjósleðaferð um Mývatnsöræfi. 

Anton Freyr er Mývetningur í húð og hár og hefur í 13 ár verið leiðsögumaður á svæðinu.

„Ég er svona ævintýrakarlinn, með jeppaferðirnar og útivistina. Ein af frumþörfum ferðamannsins er að skyggnast á bak við, fara undir yfirborðið. Þess vegna fer ég með ferðamenn í kaffi í fjárhúsin hjá pabba. Ef stelpu vantar snjóbuxur þá rennum við heim og fáum þær lánaðar hjá dóttur minni. Mér þykir gaman að vera með fólki, gaman að leiðsegja.

Þetta er skemmtilegt!”

Leiðin að Öskju lokuð of lengi fyrir ferðaþjónustuna

Daginn sem Túristi settist niður með þessum unga athafnamanni á Icelandair-hótelinu í Reynihlíð var súld í sveitinni og fremur kuldalegt, ekki sá til fjalla. Fjallamaðurinn hafði þess vegna tíma til að sinna aðvífandi blaðamanni að sunnan. Við vorum reyndar truflaðir með fyrirspurn um hvort hægt væri að bóka útlensk hjón í Öskjuferð daginn eftir. Anton sagðist geta reddað því. 

Öskjuferðirnar eru þessa dagana farnar hver af annarri og einmitt þennan dag var um tugur bíla þar með ferðafólk auk rútanna. 

Vinsælasti tíminn fyrir snjósleðaferðir og aðra afþreyingu tengda vetrarútivist er í febrúar og mars. Þegar svo snjóa leysir þurfa ferðaþjónustyfyrirtækin sjálf að gæta sín á því að loka leiðum nógu snemma til að valda ekki skemmdum á landi sem er koma undan snjó. Geo Travel hættir öllum ferðum í maí. En það sama ætti ekki að gilda um veg F88 upp í Ösku í maí og júní, segir Anton Freyr. Að hans sögn gengur illa að fá Vegagerðina til að skilja og viðurkenna að engin aurbleyta er á veginum. Vegagerðin haldi sínu striki og leyfi ekki umferð á Öskjuleið fyrr en 20. júní. Anton Freyr segir að á leiðinni frá þjóðvegi upp að Herðubreiðarlindum séu litlir pollar á nokkrum stöðum og þar fyrir ofan taki við hraun sem hafi verið á kafi í vikri frá Öskjugosinu 1875. Það sé því ómögulegt að skemma sjálfan veginn. En þessi eina leið sem ferðamaðurinn vilji fara snemmsumars sé lokuð.

„Vandamál Vegagerðarinnar er að allir vilja meira.

Það sem ég hef út á aðgengi að Öskju að setja snýr nær eingöngu að þeirri aðferðafræði sem notast er við varðandi opnun vegarins. Það væri réttast að taka Öskjuleið eins og margar aðrar út fyrir sviga. Vandinn er sá að opinber stofnun eins og Vegagerðin þarf ekki að bera of mikla virðingu fyrir ferðaþjónustunni. Sögulega séð er Öskjuleið mest selda afþreyingin úr Mývatnssveit. Ferðamenn gera eiginlega núorðið allt annað á eigin vegum. Á Öskjuleið þarf ferðafólkið hinsvegar leiðsögn.”

Ekki tekið tillit til ferðaþjónustunnar

Anton Freyr segir ekki sanngjarnt að kenna starfsfólki Vegagerðarinnar eða Vatnajökulsþjóðgarðs um lokun Öskjuleiðar á vorin og fram eftir júnímánuði. „Vandinn er sá að menn vilja ekki nota lög og reglur til að heimila sumum en ekki öðrum að aka þessa leið. Við sem erum með rekstrarleyfi fyrir sérútbúin tæki, auk leyfis til hópferðaflutninga, erum í alveg sömu stöðu og ferðamaður á Dacia Duster.

Sömu reglur gilda fyrir alla. 

Aðstæður eru þannig að greiðfært er fyrstu þrjá fjórðu hluta leiðarinnar, en samt er lokað, og á 30 km leið þar fyrir ofan eru skaflar sem einfalt er að keyra í gegnum á breyttum jeppum. Að sjálfsögðu viltu ekki fá bílaleigubíl inn í miðjan þjóðgarð sem keyrir framhjá sköflunum. Það kemur ekki til greina. Eina verkfærið sem þjóðgarðurinn hefur til að verja svæðið skemmdum er akstursbann Vegagerðarinnar, en hún hefur heimild samkvæmt vegalögum að veita undanþágu frá banni.” 

Anton Freyr rekur ítarlegar þær reglur og undanþágur sem komið hafa til tals í samskiptum ferðaþjónustunnar og Vegagerðarinnar. 

Ferðaþjónustan ekki metin eins og aðrar greinar

Daglegar ferðir að Öskju um sumarið eru farnar frá 20. júní og til loka september. Mikið er í húfi hvern einasta dag. Ferðaþjónustufólkinu fyrir norðan þykir alveg grábölvað að missa úr stóran hluta júnímánaðar. „Þetta er 100 daga tímabil og að klippa 20 daga af að óþörfu er mikill tekjumissir.

Þetta er atvinnan okkar.”

Anton Freyr segist sannfærður um að aka megi leiðina fyrr en nú er leyft á sérútbúnum bílum. 

„Við viljum að okkar sérfræðiþekking og kunnátta sé viðurkennd – að viðurkennt sé að við erum rekstraraðilar á svæðinu.” 

Anton Frey ber saman þá þjónustu og stuðning sem opinberir aðilar veita fyrirtækjum í landbúnaði og sjávarútvegi annars vegar og í ferðaþjónustunni hinsvegar. Þessar greinar sitji ekki við sama borð. 

„Langt frá því. Það er svo langt á milli að það er erfitt að færa það í orð. Blákaldur veruleikinn er sá að ferðaþjónustan er hvergi í regluverkinu. 

Það tók að gjósa í Holuhrauni og þá var Jón sem á Subaru jafn rétthár og ferðaþjónustufyrirtæki með daglegan rekstur á svæðinu og sérfræðiþekkingu í fjallabjörgun og með tugmilljóna króna tæki. Það er enginn munur.”

En hvernig er að vera sérmenntaður í ferðaþjónustufræðum og upplifa þetta?

„Í besta falli er það særandi. Ég er haldinn þeirri barnslegu einfeldni að telja að fólk sé alltaf að reyna að gera sitt besta en ég er búinn að eyða 13 árum í þetta rifrildi en það er alltaf bent á eitthvað nýtt óleyst mál – eitthvert ljón sem enn sé í veginum.

Í grunninn þá virðumst við bara ekki skipta máli. Þetta eru bara einhverjir strákar að leika sér á jeppum. En sjálfur hef ég ekki unnið við neitt annað í Mývatnssveit í 13 ár.” 

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …