Samfélagsmiðlar

Stjórnvöld ráða hraða uppbyggingar

„Það er stórpólitísk ákvörðun hvort ríkið eigi að niðurgreiða eldsneyti fyrir erlend flugfélög," segir Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. Stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri verður ekki lokið fyrr en haustið 2023. Sigrún boðar gjaldtöku á bílastæðum.

Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla

Stærsta fréttin í ferðaheiminum fyrir norðan og austan í síðustu viku var tilkynningin um að þriðja stærsta flugfélag Þýskalands, Condor, hæfi áætlunarflug næsta sumar til Akureyrar og Egilsstaða. Á báðum stöðum er fólk bjartsýnt á að þetta marki upphaf að nýrri sókn í ferðamálum. Fleiri flugfélög eigi eftir að koma í kjölfarið. Forsendan fyrir beinum flugtengingum þessara landshluta við útlönd er auðvitað vel búnir flugvellir – og rúmgóðar flugstöðvar. Þar vantar töluvert upp á – sérstaklega á Akureyri. En á Egilsstöðum er staðan miklu betri.

Egilsstaðaflugvöllur tilbúinn

„Við erum með frábæra flugstöð á Egilsstöðum sem byggð var undir lok framkvæmdanna við Kárahnjúka. Hún er rúmgóð og auðvelt er að skipta henni upp. Að vísu er engin fríhöfn en aðbúnaður er góður. Aðflug er mjög gott og flugbrautin í fínu lagi. Eftir er að setja upp aðflugsljós til norðurs. Það hefur verið kallað eftir því að brautin verði lengd vegna útflutnings á eldisfiski. Þá hefur líka verið í skoðun að leggja akbraut samsíða flugbrautinni til að styrkja hlutverk Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar. Með því móti væri hægt að taka á móti fleiri vélum á sama tíma. Um leið þarf að skoða stýringu loftrýmisins fyrir ofan völlinn, hvernig stytta mætti aðskilnað á milli véla. Þetta eru flókin risaverkefni og þarf að fjármagna sérstaklega af samgönguáætlun ef til þeirra kemur, “ segir Sigrún Björk.

Stríðið í Úkraínu tefur stækkun á Akureyri 

„Á Akureyrarflugvelli erum við hinsvegar í miðjum framkvæmdum og höfum lent í því að afhending á efni í burðarvirki hefur seinkað vegna ástandsins í heiminum. Vonandi verður byggingin þó tilbúin haustið 2023. Þetta verður 1.200 fermetra viðbygging og aðstaða mun batna til muna. Reyndar hefur verið sagt að byggingin verði þegar orðin of lítil þegar klippt verður á borðann. Ég segi að það væri óskastaða, því það sýndi að þörfin væri fyrir hendi. Nýja flughlaðið verður ekki hægt að malbika fyrr en næsta sumar. Þegar því verki er lokið verður hægt að taka á móti fleiri flugvélum. Allt þetta helst í hendur. Við verðum að klára þessi verk á Akureyri næsta sumar.”

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, vill að hraðað verði framkvæmdum við flughlaðið, enda blasi við að þröng verði á þingi á Akureyrarflugvelli næsta sumar. Sigrún viðurkennir að það geti gerst. 

„Við reynum auðvitað að stýra komum og brottförum flugvéla til að þetta gangi upp. Neðra burðarlagið á flugvellinum er tilbúið og lítur vel út. Síðan þarf að leggja efra burðarlag, koma lögnum fyrir og síðan malbika. Tilboð í þennan hluta verða opnuð þann 15. ágúst nk. En það á sem sagt enn eftir að gera mikið.” 

Þetta flughlað sem er á núverandi skipulagi Akureyrarflugvallar á að rúma tvær farþegaþotur. Ýmsir telja að það þyrfti að vera stærra. Og fleira þarf að gera fyrir norðan.

„Það þarf að halda áfram með uppfyllingu og útbúa lóðir fyrir ný flugskýli en flugfélögin hafa ítrekað kallað eftir betri aðstöðu. Hinsvegar eru ekki komnir fjármunir fyrir þessu á samgönguáætlun.” 

Uppbygging á landsbyggðinni háð vilja Alþingis

Sigrún nefnir samgönguáætlun. Hefur henni þótt stjórnmálamenn sýna því nægilegan áhuga og skilning að taka þurfi til hendinni í að byggja upp betri aðstöðu fyrir innalandsflugið?

„Að vissu leyti. Þessir þrír alþjóðaflugvellir, í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum, hafa verið í forgangi – að hafa flugbrautir í lagi og ljós. En byggingar á flugvöllum eru víða í slæmu og lélegu ástandi vegna skorts á viðhaldi. Akureyrarflugvöllur nýtur þess að búið er að setja upp ný aðflugsljós til suðurs og ILS lendingarbúnað. Eftir er að setja upp aðflugsljós til norðurs, sem er um 300 milljóna króna framkvæmd. Þannig að verkefnin eru næg. Fókusinn hefur verið á að hafa flugbrautir í lagi en húsnæði hefur setið á hakanum.”

Það er undir Alþingi og stjórnvöldum komið hvernig og hversu hratt er farið í endurbætur á flugvöllum á landsbyggðinni. Ekkert gerist nema að verkefnin komist á samgönguáætlun. Staðan á Keflavíkurflugvelli er önnur. Þar er reksturinn fjármagnaður af notendagjöldum. En hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni benda á hið sjálfsagða að tekjumöguleikar verði ekki til nema að fjárfest verði í innviðum þar. Sigrún tekur undir það en segir að merkin verði að sjást í samgönguáætlun. Alþingi fari með fjárveitingavaldið. Eldsneytisverð á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum er hærra en á Keflavíkurflugvelli og hefur hefur bent á að þar sé innbyggð hindrun frekari vaxtar. 

„Ég held að það þurfi klárlega vilja og aðkomu stjórnvalda til að flugeldsneyti verði bætt inn í Flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Auðvitað er munur á eldsneytisverði á Keflavíkurflugvelli annars vegar og á Akureyri og Egilsstöðum hins vegar út af kostnaði við flutninga. Það er stórpólitísk ákvörðun hvort ríkið eigi að niðurgreiða eldsneyti fyrir erlend flugfélög. Það kallar á hugrakka ákvörðun að breyta þessu.”

Rukkað fyrir bílastæði

Þegar ekið er upp að flugstöðvunum á Akureyri og Egilsstöðum blasa við stór bílastæði. Augljóst er að margir geyma þar bíla sína jafnvel í nokkurn tíma á meðan farið er í frí til útlanda. Er ekki leiðinlegur bragur á þessu og úrelt að opinberir aðilar eins og Isavia Innanlandsflugvellir veiti slíka þjónustu ókeypis?

„Jú, þetta eru takmörkuð gæði og næsta skref er að rukka fyrir afnotin. Við viljum líka stýra umferðinni. Sjálft starfsfólkið þarf bílastæði en fólk ætti líka að nýta sér almenningssamgöngur, ekki geyma bílinn við flugvöllinn í lengri eða skemmri tíma. Ég nefni enga dagsetningu en boða breytingar á þessu.”

Örugglega mun heyrast hljóð úr horni. Það getur verið vont að missa þau hlunnindi sem maður hefur haft ókeypis. Sigrún bendir á Akureyri sé nýtilkominn flugstrætó en á Héraði þurfi heimamenn að skoða tengingar við Egilsstaðaflugvöll. 

Fagnar því að Condor byrji Íslandsflug norður og austur

En aftur að fréttum síðustu viku, ákvörðun Condor-flugfélagsins að hefja áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða næsta sumar. Sigrún Björk var á sínum tíma bæjarstjóri á Akureyri og veit hversu mikla þýðingu þetta hefur. 

„Mér finnast þetta frábærar fréttir, sérstaklega vegna þess að Condor hefur ekki flogið til Íslands áður en ákveður að byrja á þessu. Þetta er afrakstur af 36 mánaða verkefni sem sett var af stað af Íslandsstofu, Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrú og Isavia Innanlandsflugvöllum. Markvisst var farið í að kynna þessa möguleika á Íslandi, bæta aðgengi ferðafólks og kynna nýja möguleika. Mjög margir þeirra sem komið hafa til Íslands vilja koma aftur og þá er auðvitað sjálfsagt að það fólk sjái meira af landinu. Þarna gefast tækifæri til þess. Allar rannsóknir benda til þess að ferðavilji sé fyrir hendi og við erum að veðja á hann. Auðvitað fara margir þeirra sem lenda á Keflavíkurflugvelli allan hringveginn, sem hefur verið aðalatriðið í markaðssetningu landsins, en nú gæti gefist tækifæri til að breyta þessu: Búa til hring á
Norður- og Austurlandi. Þá ferðu ekki bara stóra hringveginn heldur dvelur lengur á tilteknu svæði. Það er jafnt langt að Jökulsárlóni frá Akureyri og Reykjavík. Árangurinn af þessu verkefni verður mældur, ekki bara í fjölda fluga heldur verður gaman að sjá þróun í gistináttafjölda og dvalartíma ferðamanna á Norður og Austurlandi.”

Þarf að kynna betur kosti innanlandsflugsins

Ferðaþjónustufólk fyrir norðan og austan, m.a. Þráinn Lárusson á Héraði, telur að ofuráhersla hafi verið lögð á að kynna suðvesturhornið og Suðurland í tengslum við flugið til Keflavíkur. Sigrún Björk segir í tilefni af þessu að sáralítil áhersla hafi verið lögð á innanlandsflugvellina í markaðssetningu fyrir erlenda ferðamenn, t.d. að fljúga til Egilsstaða og aka suðurleiðina eða norður fyrir. 

„Það er kannski ný hugsun sem við ættum núna að fylgja eftir, að leita leiða til að markaðssetja innanlandsflugið fyrir erlenda ferðamenn. Ef árangur næðist myndi það breyta mjög ferðahegðuninni. Ferðafólk gæti skoðað betur ákveðna landshluta á skemmri tima ef minni tíma væri eytt í akstur.”

Þau eru mörg verkefnin á borði Sigrúnar Jakobsdóttir – og líklega enn fleiri sem hún vildi ráðast í ef fjárveitingar fengjust – og hún er bjartsýn á að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum fái stærra hlutverk í framtíðinni.

„Ég sé ekki annað en að áhugi á Akureyri, Egilsstöðum og Íslandi muni aukast, áhugi á kulda, myrkri, norðurljósum, miðnætursól og öllu öðru sem við höfum upp á að bjóða. Aukin umferð um Keflavíkurflugvöll skilar sér líka út á land. Framtíð ferðaþjónustu á Íslandi er björt. Mér finnst mikilvægast í ferðaþjónustunni að við vöndum hvert skref – því aukin ferðaþjónusta veldur álagi á land og þjóð.“

Nýtt efni

Margir sem eru að basla í ferðaþjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu horfa öfundaraugum til Suðurlands, sem nýtur nálægðar við Keflavíkurflugvöll og Reykjavík - og státar af áfangastöðum sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja og hafa verið mjög vel kynntir síðustu áratugi.   Það er stöðugur straumur ferðamanna um Suðurland, meðfram „gullströndinni,“ sem hótelhaldarinn fyrir austan nefndi svo - …

Löngu áður en hið svokallaða „Bulletproof“ kaffi leit dagsins ljós settu Tíbetar smjörklípu út í morgunteið sitt til að byrja daginn á rjúkandi og næringarríkan hátt. Í köldu háfjallalofti Himalaja-fjallanna hefur þessi salti, rjómakenndi og hitaeiningaríki drykkur orðið að daglegri hefð sem er ómissandi í matarmenningu þjóðarinnar.Á máli heimamanna nefnist drykkurinn „po cha,“ sem einfaldlega …

Í nærri fimmtán hafa Icelandair og bandaríska flugfélagið Jetblue átt í samstarfi sem gerir viðskiptavinum þeirra kleift að kaupa tengiflug með hinu félaginu á einum miða og innrita farangur alla leið. Þannig getur farþegi sem ætlar héðan til Orlando í sumar keypt farið alla leið hjá Icelandair þó flogið sé með Jetblue seinni legginn, frá …

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …