Samfélagsmiðlar

Vegasjoppurnar mestu vonbrigðin

Gísla Einarssyni þykir gaman að ferðast enda er hann eiginlega alltaf á ferðinni, bæði í vinnu og fríum. Túristi vildi fá sjónarhorn hans á ferðaþjónustuna.

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson á heimavelli í Borgarnesi

Óhætt er að fullyrða að Gísli Einarsson í Borgarnesi sé í hópi þeirra Íslendinga sem mest hafa ferðast um landið vítt og breitt – síðustu áratugina sem fréttamaður Ríkisútvarpsins og ritstjóri Landans. Hann hefur líka tekið að sér leiðsögn, bæði hér heima en líka um önnur lönd. Svo þegar Gísli lætur sig hafa það að taka frí þá leggst hann í ferðalög með konu sinni, Guðrúnu Huldu Pálmadóttur. 

„Maður uppgötvar einhvern stað í vinnuferðum og fer svo aftur þangað í fríi og nýtur hans öðruvísi.  Ferðamennskan er ákveðin fíkn. Það er gaman að ferðast og fylgjast með því hvernig ferðaþjónustan breytist og aðlagast hverjum tíma.”

Komið við í öllum sjoppum landsins

Maður eins og Gísli sem ferðast mikið hefur auðvitað séð landið í alls konar búningi, hitt fólk af ólíkum toga og sem býr við alls konar aðstæður – fengið viðurgjörning af ýmsu tagi. Hvað ætli hann hafi komið við í mörgum sjoppum við þjóðveginn og fengið sér hamborgara, kók og prins?

„Ég hef komið við í öllum sjoppum landsins. Ég veit ekki um neina sjoppu sem ég hef aldrei komið í – og þær eru misgóðar,” segir Gísli og hlær.

„Eftir að hafa lifað á sjoppufæði við þjóðveginn er maður kominn með hálfgert ógeð á hamborgurum og pylsum. Svoleiðis borða ég núorðið eiginlega bara á sérvöldum stöðum. Pylsur borða ég bara á tveimur stöðum á landinu.”

Hann segir ekki á hvaða stöðum. 

Ferðum Gísla um landið fjölgaði við tilkomu Landans árið 2010. Oftast hefur hann verið í för með Karli Sigtryggssyni, myndatökumanni. Það kom sér stundum vel að hafa stungið sviðasultu eða hangikjötsbréfi ofan í ferðapokann áður en lagt var í hann. Við það fækkaði sjoppuferðunum. 

„Þegar maður var að byrja voru bara sjoppur við þjóðveginn, kannski var hægt að fá kótilettur eða fisk í raspi ef maður vildi ekki hamborgarann. En nú í seinni tíð hefur almennilegum veitingastöðum fjölgað mjög úti á landi.”

Sjoppurnar versnað þrátt fyrir aukinn ferðamannastraum

Við ræðum betur sjoppur landsins, hvernig þær hafa staðnað, lítt fylgt vaxandi ferðamannastraumi. Gísli er einmitt ekki sáttur við hversu lítið þær hafa þróast þrátt fyrir stóraukna umferð ferðafólks.

„Ég verð að segja alveg eins og er að vegasjoppurnar eru stærstu vonbrigðin. Einu sinni var skýringin sú að umferðin væri ekki nógu mikil til að réttlæta úrval og gæði – og þess vegna þyrfti verðið að vera hátt. 

En þó umferð hafi aukist finnst mér sjoppurnar hafa versnað – þjónustan orðið lakari og verðið hækkað. Það meikar ekki sens fyrir mér.

Ég er með í huganum lista yfir fimm verstu vegasjoppur landsins – en ætla ekki að upplýsa um hann.

Menn geta afsakað sig við fáfarnari vegi en ekki þar sem umferðin er mest – við hringveginn. Við bætist síðan að í mörgum sjoppanna, t.d á Suðurlandi, er opnunartími stuttur. Þó að þú rekir bara sjoppu ættirðu að sýna metnað, eins og nokkur dæmi sanna. Það eru fínar vegasjoppur inni á milli. Persónulega leiðast mér keðjurnar, en skil þó þá sem vilja vita að hverju þeir ganga. Sjoppur eiga að vera hreinar og maður á að hafa val um nokkra rétti.  Ég er ekki að biðja um gourmet og tauservíettur.”

Geymum að birta lista yfir verstu vegasjoppurnar. Líklega væri réttar að byrja á því að birta lista yfir þær bestu – og sjá svo til. 

Gísli hefur á síðustu mánuðum ferðast um Þýskaland, Noregi og Danmörku og í öllum löndunum komið við í vegasjoppum. 

„Það er bara allt annað.”

Miklu meira úrval en áður – en sumstaðar er verðlag út í hött

Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefur orðið gríðarlegur á starfstíma Landans, sem fór fyrst í loftið á sunnudagskvöldi haustið 2010. Hótel hafa sprottið upp, fjölbreytt afþreying er í boði í öllum landshlutum – og svo hefur maturinn batnað á veitingahúsum um allt land. Það er sannarlega meira í boði en sjoppufæði. Gísli fagnar því sérstaklega. 

„Framboð af almennilegum mat hefur aukist verulega. Menn nýta betur hráefni úr næsta nágrenni og fylgja matarhefðum viðkomandi héraðs. Auðvitað er þetta misjafnt og sumstaðar er verðlagið útí hött, en margir eru að gera mjög vel. Mér þykir skemmtilegast að sjá þegar fólk er í þessu af ástríðu, fær eitthvað út úr því að þjónusta fólk. Það er fullt af svoleiðis stöðum úti um allt land.” Gísli segist tilbúinn að borga vel fyrir matinn ef hann fái eitthvað meira fyrir peninginn en magafylli. 

„Stundum verðleggja menn sig í hæsta klassa þó þeir séu á sjoppustandard.”

Ekki má ýta sveitinni í burtu

Gististöðum á Íslandi hefur stórfjölgað á síðustu árum en vegna þess hversu mikið umferðin hefur aukist segir Gísli oft vera vandræði með að fá gistingu. 

„Þetta er náttúrulega allt orðið dálítið mikið eins, of mikið staðlað. Mér sýnist fjölskyldureksturinn á undanhaldi, bændagisting og gistihús, en kannski er aukningin bara svo mikil hjá hótelkeðjunum að hitt fellur í skuggann. 

Það er gaman að gista hjá bændum og sjá hænur á vappi í kringum bæinn. Auðvitað er grundvallaratriði að hreint sé á rúmum en svo verður upplifun að fylgja. Gæta verður þess í sveitagistingu að ýta sveitinni ekki í burtu. Maður heyrir einmitt sögur af auðjöfrum sem hafa sóst eftir því að fá að kynnast einhverju öðru en fimm stjörnu hótelum sem þeir þekkja svo vel. 

Mér þykir rosalega gaman að ferðast t.d um England, Skotland og Þýskaland og fara á gistihús úti í sveitum og fá persónulega þjónustu, heyra af sögu staðanna og kynnast menningunni. Allt verður það eftirminnilegt. Maður man ekkert eftir staðlaðri hótelgistingu. 

Það eru annars að spretta upp flott hótel víða um land, þar sem menn hafa dálítið kapítal og geta gert vel.”

Ekkert leiðinlegra en geðvondur vert

Gísli er sem sagt í hópi þeirra sem vilja sjá eitthvað sérstakt, upplifa eitthvað eftirminnilegt og einstakt við hvern stað – á meðan aðrir kunna því best að vita að hverju þeir ganga, að þeir séu öruggir um að aðstaða, matur og þjónusta séu með ákveðinn standard. 

Rekstur sem er lítill að umfangi reynir mjög á eigendur, oftast fjölskyldu, og er þá eina ráðið að stækka við sig og skapa þá forsendur fyrir því að hafa fleira starfsfólk. Þessari sögu má kynnast víða um land og Gísli þekki hana. 

„Þetta er auðvitað lífsstíll. Fólk endist ef það hefur gaman af þessu – og ef eigendur eru glaðir þá koma gestirnir. Auðvitað hefur fólk ekki alltaf valið rétt, farið í ferðaþjónustu vegna búskaparbreytinga en síðan áttað sig á að þetta hentaði því ekki. Þú þarft náttúrulega að hafa þjónustulund,” segir Gísli og glottir. „Þú þarft að hafa gaman af að vera með fólki og hafa tilfinningu fyrir umhverfinu, vera snyrtilegur.

Það er ekkert leiðinlegra en geðvondur vert!”  

Ísland er framarlega

„Við erum ótrúlega framarlega. Þetta er oftast í góðu lagi hér en maður verður var við þreytu hjá starfsfólki eftir mestu tarnirnar. Svo finn ég til með krökkum sem hafa ekki fengið nægilegar leiðbeiningar áður en þeir hefja þjónustustörf. 

Íslensk ferðaþjónusta er að mörgu leyti mjög samkeppnisfær – að frátöldum vegasjoppunum. Hér mætti líka koma á betra skipulagi varðandi gjaldtöku ýmiskonar. Ef ekið er meðfram Loch Ness í Skotlandi veistu t.d. að hverju þú gengur. Þú þarft að borga smávægilega upphæð fyrir að stöðva á útsýnisstað en í færð í staðinn bílastæði og aðgang að salerni. 

Malarvegir fúnkera ekki lengur

Svo er það vegakerfið. Ég hef aldrei gúterað að ekki megi leggja bundið slitlag á veg nema búið sé hækka hann fyrst upp úr öllu valdi með undirbyggingu. Þú ekur um skosku eyjarnar á níðþröngum vegum, sem hafa útskot fyrir rúturnar, en allir eru með bundnu slitlagi. 

Sjálfur er ég alinn upp í Lundareykjadal með Uxahryggjarleið fyrir ofan, leið sem tengir saman landshluta. Þetta er mest „frestaðivegur á landinu en það skiptir gríðarlega miklu máli bæði fyrir Suðurland og Vesturland – að hafa þessa tengingu. 

Bílarnir og bílstjórarnir eru þannig í dag að malarvegir fúnkera ekki lengur. Ég blæs á það að bundið slitlag auki endilega umferðarhraðann. Þó ég sjálfur hafi gaman af því að aka malarvegi þá eru bara alltaf einhverjir, sem ekki kunna að keyra á þeim, að þvælast fyrir mér. Ef menn hefði ekki verið svona stífir á gæðakröfunum væri fyrir löngu búið að leggja bundið slitlag á þessar helstu ferðamannaleiðir.”

Þarf að bæta stórlega umgengni og aðstöðu

Enn er dísilrútum ekið hringinn í kringum landið og þannig er þetta líka í nágrannalöndunum, sýnist Gísla. Við bíðum ákveðnari skrefa í orkuskiptunum. 

Svo er það almenn umgengni. 

„Það þarf að stórbæta umgengni. Ef ruslatunna er á staðnum eru meiri líkur en minni á því að ruslið hafni í henni en ekki úti í náttúrunni. Á mörgum fjölsóttum ferðamannastöðum sér maður drasl flóa upp úr tunnum. 

Það þarf ekki meira til að drepa stemmninguna. 

Það skiptir líka auðvitað máli fyrir hverja sveit, ekki bara býlið þar sem stunduð er ferðaþjónusta, að það sé snyrtilegt heima við bæi. Enginn hefur skaðast af því að taka til hjá sér.”

Sagan af Jóni bónda

Tími er kominn til að kveðja atvinnuferðamanninn í Borgarnesi. 

Væntingum sínum til ferðaþjónustu lýsir hann svona í fáum orðum: 

„Ég vil persónulega þjónustu en auðvitað er ekki auðvelt að fara fram á það eftir því sem ferðamönnum fjölgar. 

Það sem mér finnst skemmtilegast á ferðalögum hér á landi og annars staðar er ef ég get látið mig halda að ég sé að upplifa eitthvað sem enginn annar er að gera. 

Það er frábært t.d að gista á bóndabæ á Íslandi eða á Bretlandi, spjalla í 10 mínútur við bændur og fá inside information

Svo er það sagan: Ef hægt er að benda mér á einhvern stein þar sem einhver var hálshöggvinn eða eitthvað annað gerðist. Sögurnar þurfa ekki alltaf að vera merkilegar, eins og ég hef skynjað á fólki sem ég farið með sem leiðsögumaður. Það er ekkert endilega Egill Skallagrímsson sem hrífur mest heldur alveg eins klandrið sem Jón bóndi lenti í um árið. 

Og það eru ekki víst að flottustu veitingastaðirnir heilli mest. Það getur verið veitingastaður í gömlu sjávarpakkhúsi, þar sem maður upplifir eitthvað sérstakt.

Ég er bjartsýnn á framtíð ferðaþjónustunnar. Vona bara að menn sinni þessu af metnaði. Stundum skemma einhverjir gullgrafarar fyrir hinum. En flestir eru að gera vel. Mér þykir aðdáunarvert hversu hratt ferðaþjónusta á Íslandi hefur byggst upp og hún orðið að alvöru atvinnugrein.”

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.

Nýtt efni

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …

Almennu hlutafjárútboði Play lauk í gær og bárust tilboð upp á 105 milljónir króna en lagt var upp með að selja nýtt hlutafé fyrir allt að 500 milljónir króna. Þátttaka almennings í hlutafjáraukningu Play í nóvember 2022 var heldur ekki í takt við framboð. Þá lögðu stærstu hluthafar félagsins því til 2,3 milljarða króna. Það …

Bandarísk flugfélög hvetja Biden-stjórnina í Bandaríkjunum til að gefa ekki út fleiri flugleyfi fyrir kínverska keppinauta þeirra í flugi milli Kína og Bandaríkjanna. Vísað er til samkeppnishindrana sem flugmálayfirvöld í Kína beita erlend flugfélög. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna gaf það út í febrúar að kínversk flugfélög gætu boðið allt að 50 flugferðir á …

Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Dive.is. Fyrir áttu Kynnisferðir 51% hlut í félaginu á móti Tobias Klose. Dive.is sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun. Félagið leggur mikið uppúr upplifun viðskiptavina enda er það í efsta …

„Ég myndi halda að við værum stærsta flugfélagið fyrir þá sem eru að fljúga frá Íslandi," sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, á kynningarfundi hlutafjárútboðs félagsins, á þriðjudaginn. Máli sínu til stuðnings sýndi hinn nýi forstjóri og fyrrum stjórnarformaður flugfélagsins glæru þar sem sjá mátti hvernig hlutdeild Play á heimamarkaði hefur aukist og farið upp …

Árið 2018 kynnti netverslunin Amazon nýjung á bandarískum smásölumarkaði: Amazon Just Walk Out-Stores. Verslunin var kynnt sem mikil bylting og í rauninni væri lausn Amazon framtíðarlausn fyrir aðrar smásöluverslanir. Maður skannaði símann sinn þegar gengið var inn í Just Walk Out-verslun Amazon, valdi þær vörur sem maður girntist, setti þær í innkaupakörfu og síðan gat …

MYND: ÓJ

Fyrir heimsfaraldur voru flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu litlar, takmörkuðust lengst af við sumarferðir til Mílanó. Á þessu hefur orðið mikil breyting því nú er hægt að fljúga héðan allt árið til Rómar og Mílanó og á sumrin eykst úrvalið enn frekar.  Ítölsku ferðafólki hefur fjölgað verulega í takt við þessar auknu samgöngur og var …

Sala á hreinum rafbílum frá þýska bílaframleiðandanum BMW jókst um 41 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Með söluaukningunni er vægi rafbíla hjá BMW, sem einnig framleiðir Mini, komið upp í 20 prósent hjá þýska framleiðandnum en hlufallið var 15 prósent fyrir ári síðan samkvæmt frétt Bloomberg. Á sama tíma hefur orðið samdráttur í sölu á …