Þrasað hefur verið í áratugi um hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera eða fara, minnka eða stækka, aðra flugtengimöguleika landsbyggðar og höfuðborgar, og líka hvort til eigi að verða á suðvesturhorninu flugvöllur sem geti tekið við hlutverki Keflavíkurflugvallar ef hann lokast – ekki treysta bara á flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Oft verða menn ákaflega heitir í umræðum, kasta skít eða brigsla um lygar og svik, hver sakar annan um fyrirlitningu eða skilningsleysi — annað hvort gagnvart landsbyggðarfólkinu sem á erindi í höfuðborgina eða fólkinu sem býr við stöðugt yfirflug og gný flugvélanna kringum Reykjavíkurflugvöll. Fátt gerist og flestir dæsa sjálfsagt af leiðindum.
Flugvallarmálin eru mál þeirrar tegundar að afstaða ætti ekki að fylgja hörðum flokkslínum. Margir hafa hinsvegar reynt að setja málin í það samhengi. En ekki þarf að leita lengi til að sjá að myndin er flóknari. Það var t.d. haldinn fundur í landsmálafélaginu Verði, flokksfélags í sjálfstæðismanna, 22. október 1957, fyrir nærri 65 árum, þar sem framtíð Reykjavíkurflugvallar var rædd í þaula og skipulagsmálanefnd félagsins lagði fram tillögur. Sagt var frá fundinum í Morgunblaðinu dagana á eftir. Meðal helstu niðurstaðna nefndarinnar var þessi:
„Í skipulagi Reykjavíkur verði Miðbænum skapaðir eðlilegir möguleikar til útþenslu í framtíðinni, þar sem nú er flugvöllurinn.” (Morgunblaðið, 24.10.57)
Skipulagsmálanefnd Varðar taldi tíma til kominn að átta sig á því hvernig miðbær Reykjavíkur verði stækkaður:
„Slíkan miðbæ er auðvelt að skapa í Reykjavík, þvi að 307 hektara svæði frá Hringbraut að Skerjafirði, vestan frá háskólahverfi og austur að Fossvogskirkjugarði er enn óbyggt að heita má. Nefndinni virðist augljóst, að þarna eigi að byggja hinn nýja hluta miðbæjarins. Svæðið er 8 sinnum stærra en gamli miðbærinn, þó að tjörnin sé talin með. Þarna ættu að rísa upp nýtízku hverfi. Háreistar byggingar myndu sóma sér vel, og skrúðgarðar og vötn yrðu gerð til yndisauka. Í þessum nýja miðbæ myndu rísa ýmsar atvinnustofnanir, menningarstofnanir og opinberar byggingar. Baðstaður bæjarbúa yrði Nauthólsvíkin, en við ströndina í Skerjafirði mætti koma upp höfn fyrir skemmtibáta, kappróðrabáta og litla fiskibáta. Í þessum bæjarhluta ætti hins vegar ekki að reisa neinar verksmiðjur eða starfrækja iðnað, er óþrif geta orðið af.” (Morgunblaðið, 23.10.57)
Tíminn líður og fátt gerist.
Jú, árið 2001 samþykkti meirihluti þátttakenda í kosningum um framtíð Reykjavíkurflugvallar að hann yrði fluttur annað. Síðan eru liðnir rúmir tveir áratugir og völlurinn er á sínum stað en byggt hefur verið nær honum. Enn gildir samkomulag ríkis og borgar um að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað þar til annað hentugt stæði finnst. Forystumenn borgarstjórnarmeirihlutans telja of snemmt að slá Hvassahraunsvöll af, eins Túristi hafði eftir Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, fyrir helgi og Dagur B.Eggertsson, borgarstjóri, sagði í Morgunblaðinu á mánudag. Þeir benda á að hvað sem líður hlutverki Reykjavíkurflugvallar í þágu innanlandsflugs þá geti hann ekki sinnt alþjóðaflugi í stað Keflavíkurflugvallar. Vilja báðir bíða niðurstaðna rannsókna Veðurstofunnar sem liggja eiga fyrir í haust áður en Hvassahraunsvöllur verður sleginn af. Áður höfðu Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lýst því að líkur á því að flugvöllur verði gerður í Hvassahrauni færu minnkandi vegna eldgoshættu. En nú hefur innviðaráðherra áttað sig aðeins betur á stöðunni og segir eins og félagi hans Einar, og borgarstjórinn Dagur, að það sé best að fara rólega í sakirnar, ekkert liggi á að velja nýtt flugvallarstæði. Bíða eigi eftir niðurstöðum sérfræðinga Veðurstofunnar. Innviðaráðherra var gestur Spegilsins á RÚV og sagðist vilja fara hægt í leit að flugvallarstæði: „Ég held að á meðan við búum við svona óvissutíma með stríð í Evrópu og jarðhræringar og eldgos þá eigum við að anda með nefinu. Við eigum að skoða hvernig vinnan í Hvassahrauni þróast.”
Það er auðvitað sjálfsagt að bíða formlegra niðurstaðna sérfræðinga Veðurstofunnar varðandi mat á Hvassahrauni út frá hættu af eldgosum en væntanlega verður alveg jafn líklegt eftir nokkrar vikur eins og það er í dag að líkur á eldgosum á Reykjanesi hafa aukist. Niðurstöður Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR, sem Rögnunefndin studdist við, standast ekki lengur. Þar sagði m.a.: „Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst.” Í Vikulokunum á Rás 1 s.l. laugardag sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, að staðan væri önnur en ÍSOR lýsti í skýrslu Rögnunefndarinnar. Það væri alveg ljóst að gosið gæti í hvaða kerfi sem er á Reykjanesskaganum. Varðandi áhættu sem verið væri að taka með flugvöll í Hvassahrauni sagði eldfjallafræðingurinn að það væri alltaf spurningin hvaða áhættu þeir sem réðu málum vildu taka. Matthías Sveinbjörnsson, flugmaður hjá Icelandair, sem sæti átti í Rögnunefndinni, sagði einfaldlega í þættinum:
„Þeim fer fækkandi sem trúa því að það sé rétt að taka þessa áhættu.”
Í Vikulokunum fór Matthías ágætlega yfir þá kosti sem Rögnunefndin taldi koma til greina: Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun, Löngusker og Vatnsmýri í breyttri mynd. Vegna hæðar frá sjó og veðurlags nærri fjöllum er Hólmsheiði nánast útilokuð, Löngusker gætu komið til greina en það væri dýr kostur og litlir þróunarmöguleikar í kringum flugvallarstæði á uppfyllingu. Ef ráðamenn vilja ekki taka áhættuna af því að láta gera flugvöll í Hvassahrauni þá eru eftir tveir kostir: að stækka núverandi stæði Reykjavíkurflugvallar, sem telja verður ólíklegt að nokkurn tímann fáist fylgi við innan borgarstjórnar eða meðal íbúa, eða að gerður verði nýr flugvöllur á Bessastaðanesi. Aðrir möguleikar á varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll á suðvesturhorninu, sem jafnframt myndi taka við innanlandsflugi af Reykjavíkurflugvelli virðast enn fjarlægari.
Mynd: Hugsanlegt flugvallarstæði á Bessastaðanesi (Flugvallarkostir á höfuðborgarsvæðinu, 2015)
Túristi gerði sér ferð niður á Bessastaðanes á mánudagsmorgni við litla hrifningu veiðibjöllunnar, sílamáfsins og fleiri fugla. Þetta er þeirra land. Hinsvegar verður að segja að þarna á nesinu er víðlent og auðvelt að sjá fyrir sér að koma megi góðum flugvelli fyrir með vegtengingum yfir Skerjafjörð. Þá væri um leið leystur með hringtengingu hluti umferðarvandans á höfuðborgarsvæðinu. Miðborg Reykjavíkur komin í gott samband við Garðabæ og Hafnarfjörð.
Margir hafa nefnt þennan stað eða aðra nálæga á Álftanesi sem heppilegt flugvallarstæði. Í Vísi árið 1965 sagði í grein undirritaðri af GHÓ:
„Álftanes virðist frá landfræðilegu sjónarmiði vera bezt fallið til flugvallargerðar með engar hindranir fyrir aðflug og 3 kaupstaði með um helming landsmanna innan 10 km. fjarlægðar. Þróun flugsamgangna verður svo gífurleg á næstu 20- 30 árum, að við getum á engan hátt komizt hjá því að byggja flugvöll við höfuðborgina, viljum við ekki bíða milljóna tjón árlega í glötuðum ferðatíma og flutningskosnað til flugvallar 50 km. frá höfuðborginni, auk þeirrar stöðnunar, þróun flug- samgangnanna, sem myndi valda okkur óbætanlegu tjóni um alla framtíð.” (Vísir, 4.8.1965)
Með flugvelli á Bessastaðanesi væri hinsvegar gengið gegn sjónarmiðum náttúruverndar. Unnið hefur verið að friðlýsingu svæðisins samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Þar segir m.a.:
„Umhverfisstofnun, í samstarfi við embætti forseta Íslands, Garðabæ, forsætisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Minjastofnun Íslands, hefur unnið að undirbúningi friðlýsingar Bessastaðaness sem friðlands, í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Bessastaðanes er hluti af því svæði sem skráð var sem Álftanes – Skerjafjörður á náttúruverndaráætlun 2004 – 2008 vegna gildis þess fyrir verndun búsvæða fugla. … Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda.“
Á móti myndu aðrir segja að það sem ynnist með flugvelli á Bessastaðanesi væri að skapa mætti stærri og þéttari miðborg í Reykjavík, draga úr umhverfisáhrifum bílaumferðar, nýta tíma fólks betur en gerist í umhverfisstíflum nútímans – skapa heildstæðara höfuðborgarsvæði. Lesendur geta velt þessu fyrir sér.
Flugvallarmálin verða alveg örugglega lengi enn meðal þess sem Íslendingar rífast um. Einhver sagði að deilurnar um flugvallarmálin líktust helst trúarbragðadeilum. Þetta sem ætti þó í raun aðeins að vera praktískt úrlausnarefni, þar sem reynt væri að vega og meta hagsmuni og taka síðan ákvörðun til framtíðar sem allir yrðu að una við.