Segja má að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafi í Morgunblaðinu á miðvikudag kæft hugmyndina um flugvöll í Hvassahrauni: „Svæðið í Hvassahrauni hefur verið til skoðunar, en það er nokkuð ljóst að líkurnar á þeirri staðsetningu fara minnkandi með tilliti til þessarar eldgoshættu,” er haft eftir Sigurði Inga í Morgunblaðinu. Ráðamenn hafa farið í kringum þetta eins og heitan graut (eða heitt hraun) síðustu misseri, ekki viljað gefa út opinbert dánarvottorð á Hvassahraunsvöll en notað hugmyndina í þessu langa og slítandi þrátafli sem staðið hefur og stendur enn um framtíð Reykjavíkurflugvallar. En nú hefur innviðaráðherrann sagt það sem öllum mátti vera orðið ljóst:
Það verður ekki lagður nýr flugvöllur með tugmilljarða kostnaði á virku og raunar glaðvakandi eldgosasvæði.
Síðar þennan sama miðvikudag í ágústbyrjun tók Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri-grænna, undir orð innviðaráðherra í Ríkisútvarpinu. Fréttamaður benti á að stórt eldgos á Reykjanesi gæti lokað leiðum að Keflavíkurflugvelli. Forsætisráðherra sagði að í ljósi þess að hræringar á Reykjanesi gætu staðið lengi yrðu varaflugvellir að vera utan þess.
Það virðist því ekki lengur á dagskrá að leggja flugvöll í Hvassahrauni sjö árum eftir að Rögnunefndin svonefnda, stýrihópur ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair undir forystu Rögnu Árnadóttur, skilaði skýrslu sinni um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu. Þar var ein megintillagan að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni yrðu fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum, auk þess sem rekstrarskilyrði yrðu metin. Í kafla skýrslunnar um náttúruvá er vitnað í niðurstöður ÍSOR og sagt:
„Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst. Búast má við að næsta gosskeið hefjist í Brennisteinsfjöllum. Það gæti orðið eftir um eina öld. Hraun þaðan er ekki líklegt til að ógna flugvallarstæðinu í Hvassahrauni. Mjög litlar líkur eru á að sprungur og misgengi verði til vandræða á flugvallarstæðinu næstu aldir. Miðað við tímabil gosskeiða í þeim er langt í það næsta, jafnvel yfir 300 ár.”
Svo mörg voru þau orð árið 2015. Nú árið 2022 horfir myndin öðruvísi við. Óvissan er mikil varðandi þróun eldvirkninnar og ráðamenn þurfa að meta áhættu og bregðast við henni þegar metnir eru allir kostir varðandi mikilvægustu innviði: vegi, flutningslínur rafmagns og auðvitað flugsamgöngur.
Reykjavíkurborg vill fá flugvallarsvæðið í Vatnsmýri undir nýja og dýrmæta byggð fast við miðborgina, hemja útþensluna og útblásturinn – hemja mikinn bílasamgönguvanda. Um þetta eru auðvitað deilur í borgarstjórn en þetta er stefna meirihlutans. Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem nú er upp komin um flugvöll í Hvassahrauni – að jafnvel megi segja að hann hafi verið sleginn af – er spurningin hver áhrifin verða á Reykjavíkurflugvöll. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík, er formaður borgarráðs og tekur við embætti borgarstjóra síðar á kjörtímabilinu:
„Í gildi er samkomulag á milli stjórnvalda og borgarinnar um að Reykjavíkurflugvöllur fari úr Vatnsmýri þegar nýr flugvöllur hefur verið byggður. Hvassahraun var á sínum tíma talinn álitlegasti kosturinn fyrir nýjan flugvöll og Veðurstofan skilar skýrslu sinni um þann kost í haust. Ég tel rétt að bíða eftir þeim niðurstöðum áður en við gefum út miklar yfirlýsingar. Ef niðurstaðan verður sú að Hvassahraun sé ekki lengur álitlegur kostur þá myndi ég vilja að strax hæfist vinna við að kanna aðra kosti sem nefndir voru í skýrslu Rögnunefndarinnar. Sérfræðingar hafa gefið út afgerandi svör um það að Reykjavíkurflugvöllur geti af tæknilegum ástæðum ekki sinnt því hlutverki að vera alþjóðlegur varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Jarðhræringarnar eru svo að draga upp alveg nýja mynd af stöðu flugmála í landinu, jafnvel er óvissa um rekstraröryggi á Keflavíkurflugvelli m.t.t. þess að við séum komin í óróatímabil á Reykjanesskaga sem spannað gæti áratugi. Þótt flugvellir séu dýr framkvæmd er tap af langvarandi stöðvun flugsamgangna enn kostnaðarsamara. Þessa stöðu þarf að skoða í hinu stóra samhengi.”
Muntu beita þér fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri?
„Í samstarfssáttmála nýs meirihluta í borginni segir að Reykjavíkurflugvöllur gegni mikilvægu hlutverki fyrir farþegaflutninga innanlands og sjúkraflug. Meirihlutinn í borginni og stjórnvöld hafa sameiginlega sýn á framtíð flugvallarins sem grundvallast í samkomulaginu frá árinu 2019. Þar er stefnt að flutningi flugvallarins úr Vatnsmýri þegar annar flugvöllur hefur verið byggður.”
Þarf ekki að gera úrbætur á flugstöð og reisa hratt nýja samgöngumiðstöð?
„Lengi hefur verið kallað eftir bættri þjónustu fyrir farþega og starfsfólk á Reykjavíkurflugvelli. Ég held að það sé tímabært að bæta aðstöðuna þar hvort sem það eru úrbætur á þeirri aðstöðu sem fyrir er eða að ný samgöngumiðstöð verði reist. Slík mannvirki munu alltaf nýtast með einhverjum hætti til framtíðar auk þess sem hægt er að byggja með þeim hætti að hægt sé að flytja mannvirki síðar ef þörf krefur.“
Á Alþingi og á vettvangi ríkisstjórna eru auðvitað ólíkar meiningar um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í megindráttum má segja að landsbyggðarþingmenn hafa flestir viljað verja flugvöllinn. Áhrifamestur þeirra nú um stundir er áðurnefndur Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, flokksbróðir tilvonandi borgarstjóra, Einars Þorteinssonar.
Í Flugstefnu Íslands, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gaf út 2019, segir að „Keflavíkurflugvöllur verði áfram megin alþjóðaflugvöllur landsins. Innviðir þar greiði fyrir öflugu millilandaflugi, þar með talið alþjóðlegu tengiflugi.”
Einnig er talað um að samþætta skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi og hafa það á einni hendi og að „byggja upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli. Egilsstaðaflugvöllur verði í forgangi að því leyti.”
Undir lok þings í júní 2020 var síðan samþykkt samgönuáætlun til 15 ára, eða til 2034. Þar segir m.a.: „Stuðlað verði að reglubundnu millilandaflugi um fleiri alþjóðaflugvelli en Keflavíkurflugvöll með hvatakerfi og öðrum aðgerðum sem til þess henta.” Það blasir ekki við hvað átt er við hvatakerfi og „öðrum aðgerðum” en þetta gæti þýtt að ríkisvaldið sé reiðubúið að niðurgreiða kostnað af millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða, þar sem eldsneytiskostaður er t.d. meiri en á Keflavíkurflugvelli.
Síðastliðið haust gaf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyitð út grænbók um samgöngur, þar sem farið er yfir sviðið og t.d. áréttuð þörfin á uppbyggingu á flugvöllum utan suðvesturhornsins. „Í um áratug hafa framlög til til viðhalds og uppbyggingar flugvalla, annarra en Keflavíkurflugvallar, verið lág, sem hefur valdið því að safnast hefur upp framkvæmda- og viðhaldsþörf sem metin hefur verið um 10,6 milljarðar króna. Þar við bætast áform sem sérstaklega tengjast því að styrkja aðra millilandaflugvelli í sessi sem varaflugvelli Keflavíkurflugvallar.” Bent er á að kostnaður við gerð akbrautar flugvéla samsíða núverandi flugbraut kosti sex til átta milljarða króna.
Þau eru því næg verkefnin – ef stjórnvöld meina það sem þau segja um mikilvægi uppbyggingar flugvalla á landsbyggðinni. Það kom fram í viðtali Túrista við Sigrúnu Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia Innanlandsflugvalla, að þó ýmsar framkvæmdir væru komnar á samgönguáætlun þá ætti fjárveitingavaldið eftir að ráðstafa nauðsynlegum fjármunum til nauðsynlegra endurbóta og uppbyggingar á innanlandsflugvöllum. Staðan á Keflavíkurflugvelli er önnur. Þar er reksturinn fjármagnaður af notendagjöldum. En meðal þess sem nefnt hefur verið á síðustu árum er að innkoman af rekstri Keflavíkurflugvelli verði að einhverju leyti látin fjármagna uppbyggingu úti á landi. Slíkar hugmyndir fá ekki góðar viðtökur hjá forráðamönnum Isavia, sem starfrækir Keflavíkurflugvöll. Ekki megi draga úr getu Keflavíkurflugvallar til að standa undir eigin rekstri og uppbyggingu. En auk rekstrarteknanna þá hefur hlutafé ríkisins verið aukið til að mæta erfiðleikum vegna heimsfaraldursins og til að gera félaginu mögulegt að hefja nauðsynlega uppbyggingu mannvirkja við flugvöllinn.
Úti á landi vilja talsmenn ferðaþjónustunnar, eins og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hjá Niceair, sjá að stjórnvöld sýni viljann í verki og hraði uppbyggingu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Það sé forsenda nýs vaxtarskeiðs í ferðaþjónustu að hægt verði að fjölga millilandaflugferðum til og frá Akureyri og Egilsstöðum. Norðlendingar fengu síðan öflugan liðsmann þegar Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Suðurlandi, sagði við Túrista að það væri alvarlegasti vandi ferðaþjónustunnar hversu lítið ferðamenn dreifðust út á land. „Væri íslensk ferðaþjónusta eitt fyrirtæki þá væri enginn vafi í mínum huga að hún myndi leggja í verulegar fjárfestingar úti á landi og um leið markaðssetningu.“
Eftir er að sjá hvort hvatningarorð ferðamálafrömuða um úrbætur í flugmálum á landsbyggðinni hafa áhrif á stjórnmálamenn og hvort það sjáist í fjárlögum næstu ára að verulegar úrbætur verði gerðar í flugvallamálum. Meðal þess sem þarf síðan að ákveða er hvar varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar á suðvesturhorninu verður settur niður. Þangað til verður Reykjavíkurflugvöllur á sínum stað.