Takmarkað framboð og gríðarleg eftirspurn hafa einkennt sumarvertíðina í evrópskum fluggeira. Til viðbótar hafa flugfélögin aflýst fleiri ferðum en áður með stuttum fyrirvara og sum hafa notið góðs af verkföllum keppinauta.
Af þeim sökum hafa þoturnar verið þéttsetnari en oft áður og nú í júlí náði Icelandair til að mynda að selja að jafnaði níu af hverjum tíu sætum. Svo há hefur nýtingin ekki áður verið hjá félaginu samkvæmt því sem segir í tilkynningu.
Tvö önnur norræn flugfélög náðu hins vegar að koma út ennþá meira af sínum sætum.
Sætanýtingin hjá Norwegian í síðasta mánuði fór nefnilega upp í 95 prósent og hjá Flyr, sem er jafngamalt Play, var nýtingin 92 prósent. Bæði félög eru í harðri samkeppni við SAS og nutu, líkt og Icelandair, góðs af tveggja vikna verkfalli flugmanna SAS í júlí. Þar á bæ kom mánuðurinn hins vegar mun verr út en hjá hinum norrænu flugfélögunum eins og sjá má á töflunni.
Þar sést líka hversu miklu betri nýtingin var hjá flugfélögunum í júlí í samanburði við júní ef SAS er tekið út fyrir sviga.
Sem fyrr segir var nýtingin hjá Icelandair í júlí sú hæsta sem félagið hefur náð í júlímánuði. Ef árangurinn er settur í samhengi við árið 2017, árið sem Icelandair skilaði síðast hagnaði, þá var nýtingin í júlí það ár 88 prósent en þá nýttu 540 þúsund farþegar sér ferðir félagsins til og frá Keflavíkurflugvelli.
Í nýliðnum mánuði voru farþegarnnir aðeins tvö prósent færri en framboðið þó 9 prósent minna. Sætanýtingin var því hærri.