Unnið hefur verið að fjárhagslegri endurskipulagningu hópferðafyrirtækisins Allrahanda GL síðustu misseri og samkvæmt heimildum Túrista þá eiga sér í stað viðræður um kaup Reykjavík Sightseeing á að minnsta kosti helmingi hlutafjár í Allrahanda GL. Hluturinn gæti þó orðið stærri samkvæmt því sem Túristi kemst næst.
Samruni þessara tveggja stóru hópferðafyrirtækja var í vinnslu áður en heimsfaraldurinn skall á og hafði Samkeppniseftirlitið veitt samþykki sitt fyrir þeim viðskiptum. Niðurstaða eftirlitsins var sú að sameining félaganna raski ekki samkeppni með alvarlegum hætti.
„Það er því niðurstaða eftirlitsins að viðkomandi samruni leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,“ sagð í úrskurðinum.
Reykjavik Sightseeing er í eigu PAC1501 ehf. en það félag er í eigu framtakssjóðsins Horn III sem rekinn er af Landsbréfum. Hagvagnar, sem eiga Hópbíla, heyra einnig undir PAC1501 ehf. og því ljóst að ef kaupin í Allrahanda GL ganga í gegn þá aukast umsvif eignarhaldsfélagsins og þá framtaksstjóðsins Horn III á hópbifreiðamarkaðnum og í ferðaþjónustunni. Horn III á til að mynda einnig 40 prósent hlut í Bílaleigu Flugleiða sem er með umboð fyrir Hertz hér á landi.
Eigendur Allrahanda í dag eru stofnendurnir fyrirtækisins þeir Þórir Garðarsson og Steindór Sigurðsson sem fara með 51 prósent hlut á móti framtakssjóðnum Akri, sem er í rekstri Íslandssjóða. Spurður út í stöðuna þá segir Þórir, í skriflegu svari til Túrista, að hann sé bundinn trúnaði og geti ekki tjáð sig um málið.