Vesturferðir (West Tours) hafa aðsetur í Edinborgarhúsinu, Aðalstræti 7, á Ísafirði. Þessi vestfirska ferðaskrifstofa verður 30 ára á næsta ári. Starfsfólk Vesturferða tekur á móti stórum hluta þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til Ísafjarðar, selur ferðafólki báts- og gönguferðir um Hornstrandir, í Jökulfirði og víðar – og klæðskerasniðnar sérferðir og afþreyingu fyrir þá sem til þeirra leita um aðstoð við að njóta góðra daga á Vestfjörðum.
Guðmundur tók við starfi framkvæmdastjóra Vesturferða í janúar. Hann stýrði fyrirtækinu raunar árið 2005 en þá var reksturinn mun umfangsminni. Áður en Guðmundur snéri aftur vestur hafði hann aflað sér reynslu í ferðaþjónustu víða, starfaði m.a. hjá Heklu Travel í Kaupmannahöfn. Síðast var hann fjármálastjóri við Háskólann á Hólum. Næsta verkefni er að auka hlut Vesturferða í almennri ferðasölu – og viðhalda auðvitað því mikilvægasta: þjónustunni við erlendu skemmtiferðaskipin, en ferðum þeirra um hina fögru Vestfirði fjölgar stöðugt.
Umsvif hjá Vesturferðum hafa vaxið mjög á síðasta áratug, ef undanskilin eru Covid-árin. Í sumar voru þrír heilsársstarfsmenn og tveir sumarstarfsmenn við störf. Mesti vöxturinn hefur verið í þjónustu við skemmtiferðaskipin og er hún orðin stór hluti af rekstri ferðaskrifstofunnar. Vænst er 117 skipakoma til Ísafjarðar á tímabilinu frá apríl til októberbyrjunar. Með þessum skipum koma um 177 þúsund manns, farþegar og áhafnir. Þetta er svipað og árið 2019. Met hefði verið slegið ef ekki hefði brostið á leiðindaveður á dögum þegar vænst var skipa sem urðu frá að hverfa.
Ein sérstaða Vesturferða liggur í því góða aðgengi sem farþegar af skemmtiferðaskipum, og aðrir ferðamenn, hafa að starfsfólkinu þarna í virðulegu Edinborgarhúsinu í hjarta Ísafjarðar. Þar situr Túristi með Guðmundi og glaðlegum hundi hans á meðan rignir hressilega í Ísafjarðarlogninu.
„Vesturferðir hafa þjónustað skemmtiferðaskipin í samstarfi við Mugga, Guðmund M.Kristjánsson hafnarstjóra, í hartnær aldarfjórðung, eða frá því að þau byrjuðu að koma við á Ísafirði. Þetta er nú orðinn sá hluti starfseminnar sem skilar okkur mestu. Líklega þurfum við að bæta við starfsmanni. Þá er líka mikil aukning í almennri sölu. Herferð sem við fórum í á samfélagsmiðlum skilaði árangri.”
Guðmundur tekur dæmi af fjórum dögum í fyrstu viku ágústmánaðar. Þá hafi starfsfólk Vesturferða þjónustað sjö skemmtiferðaskip, sem skiluðu miklu inn í samfélagið á Ísafirði, og á sama tíma hafi verið farnar sérferðir með farþega á vegum ferðaþjóna að Dynjanda, á Bolafjall og víðar. Góðar sölutekjur urðu til, eða milljón til þrettánhundruð þúsund krónur á dag.
„Þarna gætu verið að skapast nýir möguleikar. Við finnum fyrir því að farþegar skemmtiferðaskipanna eru búnir að uppgötva netið og leita þar uppi möguleika,” segir Guðmundur og brosir út í annað.
„Ég tek sem dæmi af farþega sem hafði samband nýlega og vildi fá sérstaka ferð á meðan skipið væri hér í höfn 24. ágúst 2023! En auðvitað er gott að farþegarnir kaupi þær hópferðir sem þeim bjóðast um borð. Við viljum ekki missa þann markað.”
Búist er við að komum skemmtiskipa eigi enn eftir að fjölga. Það hlýtur að vekja spurningar um það hversu mikið Ísfirðingar ráða við – ekki má kaffæra bæinn.
„Já, svo er það. Þó við séum kölluð borg í áætlun skipanna þá búa hér aðeins um 2.800 manns. Hinsvegar var staðan þann 20. ágúst að um sexþúsund manns voru hérna í bænum af skipunum – til viðbótar við aðra ferðamenn. Svona var þetta nokkrum sinnum í sumar. Auðvitað ræddum við hver þolmörkin væru. Einhvern tímann gætum við þurft að segja: Halló! Það er uppselt. Það hefur stundum komið fyrir hér á skrifstofunni að við segjum: Því miður þá höfum við ekkert að bjóða ykkur. Það vantar bara mannskap. Við erum ekki í sömu stöðu og þau í Reykjavík og á Akureyri.”
Þó vill Guðmundur ekki meina að líklegt sé að skipum verði beinlínis vísað frá vegna þess að uppselt sé á Ísafirði. Hinsvegar hafi stór skip þurft að fresta eða aflýsa komum sínum vegna þess að ekki var pláss fyrir þau. Þegar lokið er stækkun á viðleguplássi ætti að að greiðast úr þessu.
„Auðvitað getur Ísafjarðarkaupstaður ekki sagt nei við skemmtiferðaskipum sem vilja koma. En einhvern tímann nær fjölgun skemmtiskipanna í heiminum hámarki og það getur líka komið að því að þegar mjög mörg skip eru á sömu leið hætti fólki að finnast það gaman.”
Vesturferðir eru ferðaskrifstofa, miðlari á milli ferðamannsins og ferðaþjónsins – oft einyrkja í ferðaþjónustu. Fyrirtækið er ekki með eigin tækjabúnað eða fararstjóra, heldur leitar að slíku fyrir ferðamanninn. En eru svona milliliðir nauðsynlegir? Túristi spyr í stríðnislegum tóni.
„Já, við erum afar mikilvægur milliliður,” segir Guðmundur og lætur ekki bera á því ef honum þykir spurningin móðgandi. „Skipadeildin skýrir sig sjálf. Hún er í tengslum við fyrirtæki í Reykjavík sem á í viðskiptum við erlendu skipafélögin. En varðandi almennu söluna, þá erum við að vinna með einyrkjum sem hafa áttað sig á því að það er miklu betra að láta starfsfólk Vesturferða um að selja fyrir sig, skipuleggja, prenta út miða og taka við greiðslum, á meðan þeir annast sín mál, t.d. að aka eða sigla ferðafólki milli staða. Þetta fólk hefur komið til okkar og lýst því hversu mikill munur það sé að þurfa ekki að vera niðri við höfn með posann, taka við greiðslum og halda utan um hlutina – fá í staðinn bara afhentan lista með viðskiptavinum og geta lagt af stað. Viðkomandi einyrki þarf ekki að hugsa um hversu marga hann fær í næstu ferð. Vesturferðir sjá um það.
En fólk áttar sig ekki á hversu mikil vinna er á bak við þetta. Þetta er ekki bara einn tölvupóstur og eitt símtal.
Ferðaþjónar koma til okkar og lýsa ferðamöguleikum, nýjum möguleikum, og spyrja hvort þeir megi selja þessa vöru eða hina á síðunni okkar. Við skoðum þetta, förum yfir leyfi og tryggingar, og semjum um þóknun. Fólk veit að nafnið West Tours, sem er bráðum 30 ára, er orðið þekkt á mörkuðum.
Nafnið er mjög sterkt á íslenskan mælikvarða.”
Sumarið var gott í ferðaþjónustunni á Vestfjörðum. Almenn sala ferða er giska 20 prósent meiri en hún var 2019. Miklar gestakomur þetta fyrsta sumar eftir heimsfaraldur. Tímabilið hófst snemma, um miðjan apríl með fyrsta skemmtiferðaskipinu, og Ísfirðingar taka á móti því síðasta 1.október. Þetta þýðir að ferðatímabilið fyrir vestan er orðið hátt í sex mánuðir. En er það nóg?
„Veturinn er bara svo erfiður. Veðráttan á Íslandi er þannig. Jú, fólk getur lent í Keflavík í eiginlega hvaða veðri sem er og tekið rútu til Reykjavíkur. Þetta er ekki svona einfalt hér á Vestfjörðum. En samgöngur eiga eftir að batna mjög mikið. Árið 2025 verður alveg nýtt landslag hjá okkur. Það verður jafn langt frá höfuðborgarsvæðinu hingað vestur á Ísafjörð og til Akureyrar. Umferðin á eftir að aukast svo mikið að nauðsynlegt verður að breikka vegi víða á leiðinni, eins og um Bröttubrekku, og leggja þarf malbik á Laxárdalsheiði.”
Nú er haustið að læðast að okkur, Hvað er framundan?
„Nú 10. september verður hlaupaferð upp á Straumnesfjall, niður á Látra og Hesteyri. Það er þriðja ferðin í sumar til kynningar. Svo hefst undirbúningur fyrir næsta ferðaár. Þetta er gríðarleg vinna, bæði að búa okkur undir skipakomur næsta árs og sölu almennra ferða. Ákveða þarf verð og svara fyrirspurnum.
En eitt hefur breyst, sem ég get nefnt. Árið 2009 voru prentaðir 15 þúsund bæklingar. Nú íhuga ég að láta prenta þrjú þúsund stykki. Kostnaðurinn við þennan hluta kynninga hefur lækkað um 90 prósent. Netið hefur tekið við, ekki síst Facebook. Maður sér bara hversu hröð og mikil svörunin er á netinu. Mest eru viðbrögðin, læk og komment, líka frá þeim sem eru 65 ára og eldri!
Varðandi næsta sumar, þá verð ég að vera bjartsýnn. Þá kemur í ljós hvaða áhrif markaðsefni sem við sjálf létum gera í sumar hefur haft.”