Samfélagsmiðlar

Condor nýtur enn um sinn tenginets Lufthansa

Þýska orlofsferðaflugfélagið Condor hefur enn heimild til að bjóða farþegum sínum tengiflug með Lufthansa, sem vill hverfa frá því fyrirkomulagi. Þýsk samkeppnisyfirvöld fyrirskipuðu Lufthansa í síðasta mánuði að viðhalda samstarfinu við Condor. Þeim úrskurði hefur verið áfrýjað. Næsta vor ætlar Condor að hefja áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða.

Lufthansa hafði tilkynnt fyrir nokkru að það myndi slíta bókunarsamstarfi við Condor, sem byggist á sögulegum grunni. Þýsk samkeppnisyfirvöld komu í veg fyrir þessi áform 1. september eftir að miklar kvartanir höfðu borist um það frá Condor að Lufthansa væri að misnota markaðsráðandi stöðu sína með því að segja upp samstarfssamningi. Lufthansa hafði margsinnis reynt að ljúka samstarfinu en ákvað eftir inngrip samkeppnisyfirvalda að fresta samningsslitum til loka októbermánaðar. En það gæti dregist að fá endanlega niðurstöðu.

Talsmaður Lufthansa sagði í tilkynningu sem send var út þegar samkeppnisúrskurðurinn lá fyrir að félagið teldi sér ekki lagalega skylt að veita farþegum Condor rétt til að bóka framhaldsflug með Lufthansa en ákveðið hefði verið að gefa frest til loka október þegar háönn lyki. Úrskurðinum var síðan áfrýjað til dómstóls í Düsseldorf. Lufthansa sættir sig augljóslega illa við að þurfa að styðja við uppgang Condor, sem næsta vor bætir Akureyri og Egilsstöðum í leiðakerfi sitt. Þegar má bóka ferðir milli Frankfurt og þessara tveggja bæja á norðanverðu Íslandi.

Í úrskurði sínum höfðu samkeppnisyfirvöld bent á að enginn vafi léki á því að Lufthansa væri eina flugfélag Þýskalands með víðtækt tenginet við stærstu flugvelli landsins – í Frankfurt, München og Düsseldorf – og í ljósi þessarar yfirburðastöðu þyrfti að gæta sérstaklega að því að félagið misnotaði ekki stöðu sína. Það hefði ríkar skyldur gagnvart keppinautum sínum. Bent var á að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Condor og farþega félagsins að missa möguleikann á að tengjast bókunarkerfi Lufthansa.

Þýska þjóðarflugfélagið Lufthansa var meðal stofnenda Condor, sem sérhæfir sig í að flytja orlofsfarþega víða um heim. Thomas Cook-samsteypan eignaðist meirihluta í Condor um aldamótin. Árið 2006 átti Lufthansa þó enn tæpan fjórðung í Condor. Á meðan Condor var í meirihlutaeigu Thomas Cook-samsteypunnar var ákveðið að farkostir félagsins yrðu Airbus A320. Við fall Thomas Cook árið 2019 ákvað þýska ríkið að verja Condor falli og eignaðist félagið. Í maí 2021 keypti fjárfestingafélagið Attestor Capital meirihluta í Condor og hófst þá endurnýjun á flota langdrægra flugvéla félagsins. Fyrir rúmu ári var tilkynnt um kaup á 16 Airbus A330-900 sem skyldu leysa af hólmi Boeing 767-300ER-vélar í flota félagsins. Condor flytja um níu milljónir farþega með yfir 50 flugvélum vítt og breitt um heiminn á ári hverju

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …