Samfélagsmiðlar

Lamandi spilling og úreltur túrismi í borginni eilífu

Ferðaþjónusta í hinni fornu Róm er að mörgu leyti vanþróuð. Hún byggist á því að beina gestum á fáa og afmarkaða staði og láta þá borga hátt verð fyrir slaka þjónustu og lítil gæði. Ferðamaðurinn verður samt ekki svikinn af heimsókn til Rómar, þessarar stórkostlegu borgar með alla sína sögu og fegurð.

Júlíus Caesar myndaður

Róm er meðal vinsælustu ferðamannaborga Evrópu en aðeins hálfdrættingur á við París og London. Á sama tíma og Róm fær 9-10 milljónir gesta á venjulegu ári mega þau í París og London vænta þess að fá 19-20 milljónir gesta. En þrátt fyrir þennan mun á fjölda er engu líkara en kransæðastífla sé yfirvofandi þegar ferðamaðurinn olnbogar sig í gegnum hjarta Rómar að Trevi-brunninum, Pantheon, Spönsku tröppunum, Péturstorginu – og í áttina að Forum Romanum.

Þessa tilfinningu fær ferðamaður miklu síður í París og London. Meginástæðan er sú að ferðaþjónustan er vanþróuð í Róm, illa skipulögð og hugmyndasnauð. Hún er eiginlega fordekruð af því að varðveita einstakar heimsminjar – eitthvað sem allir vilja sjá einu sinni á lífsleiðinni.

Mannþröng við Trevi-brunninn – Mynd: ÓJ

En Rómverjum tekst ekki að dreifa ferðafólki nægilega vel um borgina, vekja athygli þess á áhugaverðum stöðum og byggingum utan sögulegu miðjunnar í bugðunni á Tíber að Palatínhæð og innan Páfagarðs. Af hverju að gera það? Er ekki best að halda engisprettunum aflokuðum, hleypa þeim ekki inn í hverfin okkar? Ferðafólkinu er hvort eð er skítsama um Róm nútímans, hvað nútímafólkið er að sýsla. Er það ekki? 

Sölubás á Péturstorgi – Mynd: ÓJ

Urbs aeterna, Roma invicta. Borgin eilífa og ósigrandi. Hvort tveggja auðvitað vafasamt eða jafnvel rangt. Róm féll og borgin er að deyja undan þunga sínum, mikilli bílaumferð, átroðningi og mengun. Gagnrýnir blaðamenn, rithöfundar og hugsuðir, eins og Rómverjinn Marco d’ Aramo hafa ritað greinar og bækur um hvernig Róm er að molna niður – ekki bara vegna oftroðnings túrista heldur miklu frekar vegna hrikalegrar óstjórnar og djúpstæðrar og yfirgripsmikillar spillingar. Rómverjum tekst ekki að snúa við blaðinu og hafa nú kosið yfir sig ríkisstjórn með rætur í fasisma.

Áður er einhverjum vinstrimönnum dettur í hug að berja sér á brjóst er rétt að benda á að þeir brugðust Róm líka, útvistuðu þjónustu í hendur einkaframtaksins og mafíunnar. Ekki tók mikið skárra við með Virginiu Raggi og kerfisbönum Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar. Hún var borgarstjóri Rómar 2016 til 2021 og vandamálin hrönnuðust upp í bókstaflegri merkingu – því það flæddi upp úr ruslatunnunum.

Ruslatunna í Róm – Mynd: ÓJ

Afköst í borgarkerfinu eru með fádæmum lítil. Ótrúlega mörgum þykir bara í lagi að mæta ekki í vinnuna eða að þeir mæta en koma sér ekki að verki – að stýra umferð, hreinsa rusl og þrífa. Nú er miðjumaðurinn Roberto Gualtieri orðinn borgarstjóri og eftir er að sjá hvort ástandið skáni eitthvað. Rómverjar og Ítalir allir eiga við risavaxin vandamál að eiga í orkukreppu og efnahagslægð.

Gúmmíendur í borginni eilífu – Mynd: ÓJ

Nú er sest í stól forsætisráðherra Rómverjinn Georgia Meloni, sem á ættir að rekja til Sardiniu og Sikileyjar. Hún gekk ung til liðs við nýfasista og hefur nú leitt til valda að nýju einn spilltasta stjórnmálamann síðari tíma sögu Ítalíu, Silvio Berlusconi, og annan lýðskrumara til: Matteo Salvini, sem dregur Evrópusamstarfið stórlega í efa og vill herða til muna innflytjendalöggjöf landsins. Samt verður að hafa í huga að Meloni hefði ekki komist til valda nema af því að hún þokaði sér inn á miðjuna, talaði af meira jafnvægi en áður um verkefnin framundan. Eftir á að koma í ljós hvort það verður öfgakonan eða miðjukonan sem stýrir ríkisstjórninni og hvort einhverjar umbætur verði gerðar á ítölsku stjórnkerfi.

Hermenn og vopnuð lögregla eru algeng sjón í Róm – Mynd: ÓJ

Líklegast er að spilling verði áfram lamandi í Róm. Spillingin rænir borgina tekjum og möguleikunum á að bregðast við vandamálum. Það hefur dregið úr framleiðni og lífslíkur í borginni fara nú minnkandi í fyrsta skipti frá seinna stríði. Framkvæmdir taka óratíma eða er aldrei lokið, Og ofan á allri þessari borgaralegu vangetu liggur katólska kirkjan eins og mara.

Péturskirkjan – Mynd: ÓJ

Þó Páfagarður með Péturskirkjuna, söfnin og Sistínsku kapelluna dragi til sín milljónir gesta árlega þá verður samt að segja að þetta örsmáa fríríki mergsýgur Róm. Páfagarður nýtur þjónustu Rómar en greiðir ekki skatta, fær gríðarlegar tekjur af ferðafólki með aðgangseyri og sölu gistinátta í húsum í þess eigu en greiðir ekki sitt til samfélagsins sem þarf að kljást við kostnaðinn af túristunum.

Páfagarður býr jafnframt til vinnukúltúr sem eitrar út frá sér. Hann felur í sér að hver eigi að hugsa um sitt en snúa blinda auganu við því sem aðrir sýsla. Marco d´Aramo orðar það einhvern veginn svo að víðast annars staðar felist spillingin í athöfnum en á Ítalíu í athafnaleysi – að tryggja að ekki sé brugðist við. Eitt skýrasta merki um þetta er spillingin á húsnæðismálunum. Hús og jafnvel heilu hverfin eru reist án tilskilinna byggingaleyfa. Það fyrirkomulag kallast abusivismo

Ferðahópur í Pantheon – Mynd: ÓJ

Róm verður bráðum 2.800 ára gömul. Eins og svo oft áður í sögunni líður þessi glæsilega borg fyrir óstjórn og vangetu, örgustu spillingu um allt borgarkerfið. Þetta er samt einstök borg og íbúarnir vilja hvergi annars staðar vera. Og þrátt fyrir umferðarvandann, ruslið, lélegt almenningssamgöngukerfi, okurverð, vondan mat alltof víða í miðborginni, skort á nútímalegri nálgun í ferðaþjónustu, þá ættu allir að heimsækja Róm. Þetta er stórkostleg borg með mikilfenglega sögu, mikinn þokka og fegurð. 

Colosseum að kvöldi – Mynd: ÓJ

Sjálfur fór greinarhöfundur fyrst til Rómar fyrir 18 árum, svo aftur nú á dögunum, og naut þess í bæði skiptin að skoða eitthvað af því markverðasta sem borgin hefur upp á að bjóða. Um leið var hryggilegt að sjá hversu illa hefur tekist að mæta áskorunum fjöldatúrismans í þessari miklu borg. Breytingin frá 2004 er gífurleg. Nokkrir staðir eru bókstaflega troðnir. Eina fólkið sem túristinn sér eru túristar – og svo þjónarnir sem reyna að lokka þá til sætis. Íbúum í miðborginni fækkar ár frá ári. Árið 1971 bjuggu um 170 þúsund manns í miðborginni en nú aðeins um 80 þúsund. Þetta hefur áhrif á gestinn sem töltir um Róm. Með undirbúningi og útsjónarsemi er hægt að forðast mesta troðninginn, mæta snemma á frægustu staðina – eða bara fara annað. Það verður hver og einn að finna sína Róm. 

Friðsæl morgunstund á Piazza del Popolo – Mynd: ÓJ

Auðvitað vill fólk sjá Trevi-brunninn jafnvel þó að það hafi aldrei séð La Dolce Vita. Það bara veit að staðurinn er frægur á Instagram. Óskandi væri að sem flestir fengju a.m.k. einu sinni á ævinni tækifæri til að tölta í gegnum Forum Romanum og upp á Palatínhæð, skoða Colosseum, fara inn í Péturskirkjuna og dást að listrænu afreksverki Michelangelos í Sistínsku kapellunni og sjá allt góssið á listasafni Páfagarðs, að ógleymdri líklega merkustu uppistandandi byggingu borgarinnar, Pantheon.

Röðin er löng við innganginn að Pantheon – Mynd: ÓJ

Þau sem koma í annað sinn eða þriðja leita lengra út á jaðrana, gista kannski í Trastevere eða annars staðar. Eftir stendur að sjálf borgin, Róm, og ferðamálayfirvöld þar gætu gert miklu betur í að vísa ferðafólki á staði sem sannarlega eru þess virði að skoða. Um leið þarf að stórbæta samgöngukerfið. Troðnar lestir eru fráhrindandi og duga bara ekki. 

Vel heppnað Carciofi alla Guidea – Mynd: ÓJ

Svo er það maturinn. Eitt helsta aðdráttarafl Ítalíu felst í matarmenningunni, frábærum mat og góðu víni. Í Róm eru miklar líkur á að ferðamanninum finnist hann svikinn – hann hafi borgað alltof mikið fyrir óspennandi mat. Góðviljaðir Rómverjar vara við þessu, benda manni á staði sem meiri líkur en minni eru á því að maturinn sé góður – eins og íbúarnir sjálfir vilja hafa hann. Þeir skammast sín fyrir ruslið sem selt er við fjölförnustu túristagöturnar, mat sem á ekki rætur í rómversku eldhúsi. Þetta er auðvitað vandamál víðar. Það kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra að byggja upp ferðaþjónustu sem lýsa mætti með því sem stundum er kallað hit-and-run-túrismi, þegar að baki er fullvissa um að hver túristi komi aðeins einu sinni. Þá sé eins gott að plokka hann vel. 

Fjölmenni í Forum – Mynd: ÓJ

Ekki hvarflar að greinarhöfundi að hræða fólk frá Rómarferðum þó að bent sé á vandann sem þessi stórkostlega borg á við að glíma – og hefur átt lengi. Róm er söguríkasta borg heimsins, státar af fleiri áhugaverðum stöðum en nokkur önnur – og hún er grænni en flestar. 

Kvöld við Tíber – Mynd: ÓJ

Það eru ekki margir ferðamenn í Róm miðað við París og London en vandinn er sá að þeir dreifast miklu síður. Meðal dvalartími ferðamanns í Róm er aðeins 2-3 dagar en í París og London 6-7 dagar. Það segir sína sögu.

Ferðamenn við minnismerki Victors Emmanuel II – Mynd: ÓJ

Sannarlega er verk að vinna í Róm. Þar verður íbúarnir að sjá til þess að stjórnmálamenn og stofnanir skili sínu – líka katólska kirkjan og páfinn. Áfram verða fornminjar og minnisvarðar um glæsilega menningu og fortíð helsta aðdráttaraflið en það þarf líka að sýna nýju Róm, ávexti grósku dagsins og fjölmenningarinnar. Það ætlar greinarhöfndur bara að skoða í þriðju Rómarferðinni. 

Allar leiðir liggja til Rómar.

Aðdáandi Sex Pistols í Forum Romanum Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …

Gott símasamband í höfuðborg Bretlands byggði lengi á hinum 177 metra háa BT Tower sem kenndur var við eigandann, British Telecom. Turninn varð hæsta mannvirkið í London þegar hann var reistur af símafyrirtækinu árið 1964. Það var ekki fyrr en 16 árum síðar að annað mannvirki í London fór upp fyrir þetta símamastur sem einnig …

Velta í ferðaþjónustu í nóvember og desember í fyrra var nærri óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Ef veltan hefði verið í takt við verðbólgu og fjölgun gistinátta ferðamanna þá hefði hún verið um 13 milljörðum kr. hærri. Af undirgreinum ferðaþjónustunnar þá var veitingareksturinn sá eini sem hélt í …

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital Credit varð langstærsti hluthafinn í Icelandair í júní 2021 og á nú 17,2 prósenta hlut. Sjóðurinn hefur fjárfest fyrir 10,4 milljarða króna í flugfélaginu en fengi rétt 7,5 milljarða fyrir hlutinn í dag. Mismunurinn nemur nærri 3 milljörðum króna en gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 18 prósent frá því …

Tölur sem Kóperníkus, lofthjúpsvöktunaþjónusta Evrópusambandsins, og ítölsku umhverfisverndarsamtökin Legambiente kynntu nýlega sýna að í Mílanó mælist svifryk og önnur loftmengun áfram hvað mest í allri Evrópu. Nú er loks rætt um það af yfirvöldum í Mílanó og nærliggjandi borgum og bæjum á Langabarðalandi að grípa einhverra aðgerða - eins og að takmarka notkun á mest …

Þátttaka hins opinbera í rafbílakaupum landsmanna er nú með breyttu sniði. Í stað skattaafsláttar upp á 1,3 milljónir króna, sem dreginn var frá söluverði nýrra rafbíla, þá verða kaupendur bílanna að greiða fullt verð í umboðinu og sækja svo um 900 þúsund króna styrk hjá Orkustofnun í framhaldinu. Þessi breyting var gerð um síðustu áramóti …

Sá sem kaupir ódýrasta fargjaldið hjá Icelandair, Economy Light, þarf að borga aukalega fyrir innritaðan farangur. Áður var töskugjaldið 5.280 krónur en nú þarf að borga allt að 6.600 krónur undir farangurinn aðra leið. Hækkunin nemur 25 prósentum og svo mikil eru hún líka ef innrita á skíði. Flutningur á þeim kostar núna allt að …