Flugfélagið Play hefur hafið sölu á áætlunarferðum til borgarinnar Porto í Portúgal. Fyrsta flugið er á dagskrá á skírdag, fimmtudaginn 6. apríl nk. Flogið verður tvisvar í viku fram í lok október á næsta ári.
Porto er annar áfangastaður Play í Portúgal en þotur félagsins hafa flogið tvisvar í viku til höfuðborgarinnar Lissabon í ár. Þeim ferðum verður haldið áfram á næsta ári og aðspurður segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, að til greina komi að fjölga brottförunum á næsta ári.
Play verður fyrsta flugfélagið sem býður upp á áætlunarflug milli Porto og Íslands en íslenskar ferðaskrifstofur hafa lengi með stakar ferðir til portúgölsku borgarinnar. Það eru því margir Íslendingar sem hafa heimsótt þennan vinsæla áfangastað.
„Við höfum boðað að við viljum vera leiðandi flugfélag á milli Íslands og Íberíuskagans og sýnum það í verki með því að bjóða nú upp á Porto á næsta ári. Fyrir erum við með Lissabon, sem var einn af vinsælustu áfangastöðum Play í ár, og þar að auki verðum við með sjö áfangastaði á Spáni, þar af fjóra á Spáni allt árið um kring. Nú eiga Íslendingar meiri möguleika á að komast í sólina í hagkvæman hátt og sömuleiðis er áhugi Portúgala og Spánverja mikill á Íslandi enda hafa þeir tekið afar vel í þjónustu Play,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu.
Tengdar greinar: Ný hraðlestartenging milli Lissabon og Porto – Hraður bati í Portúgal