Samfélagsmiðlar

„Af hverju eigum við að dreifa ferðafólki?“

„Þegar við segjumst vilja dreifa ferðafólki erum við alltaf að hugsa um hagrænu hliðina. Frá sjónarhóli náttúruverndar ættum við kannski að fókusera á færri staði," segir Páll Ásgeir Ásgeirsson. Túristi settist niður með honum og Rósu Sigrúnu Jónsdóttur og ræddi um ferðamennsku, náttúruvernd og viðhorf í umhverfismálum.

Rósa Sigrún og Páll Ásgeir

Rósa Sigrún og Páll Ásgeir á gönguför.

Óhætt er að segja að Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir séu samhent í leik og starfi. Þau hafa lengi unnið saman að bókaskrifum, listsköpun og leiðsögn, gengið um fjöll og firnindi, ein og með öðrum. Bæði eru þau úr sveit og þekkja landið vel eftir ótal ferðir með ólíkum hópum, nú síðast á vegum Ferðafélags Íslands, og hafa skoðanir á því hvernig ferðaþjónusta  getur verið í sátt við umhverfið. Túristi hitti leiðsögumennina, listakonuna og rithöfundinn – fjallageiturnar, á heimili þeirra eina morgunstund á dögunum. Þau voru fyrst beðin að lýsa ólíkri nálgun og upplifun á landinu eftir því með hvaða hóp þau væru að ferðast.

Rósa Sigrún: „Með útlendingunum ertu meira að tala um hluti sem okkur þykja sjálfsagðir, t.d. um mataræði og sögu þjóðarinnar, en leggur minni áherslu á örnefni og sögur af fólki. Ef maður er með Íslendinga þýðir ekkert að fúska með örnefnin. Við erum mest í gönguferðum með Íslendinga. Farið er hægt yfir. Fólk veit hvert það er að fara og kann að búa sig. Þegar farið er með útlendinga þarf að undirbúa þá vel.”

Útsýnis notið á fjöllum

Er þetta allt sama starfið?

Páll Ásgeir: „Ef þú ert með Íslendinga á ferð og ætlar að fara segja sögur af fólki og landi, þá máttu alltaf gera ráð fyrir að einhver í hópnum viti betur – og sá mun leiðrétta þig. Það er þess vegna meiri pressa að vera með Íslendinga, þá verður maður að vera nákvæmari og vera duglegur að grafa upp hluti sem ekki eru á allra vitorði. Enginn Íslendingur hefur gaman af því að fara Gullna hringinn undir leiðsögn sem útlendingar fá.”

Meðal þeirra sem njóta leiðsagnar ykkar eru litlir hópar, fólk sem getur gert vel við sig, vill gera óvenjulega hluti og er tilbúið að kosta nokkru til.

Rósa Sigrún: „Þetta fólk er almennt opið fyrir nýrri reynslu. Ísland heillar alltaf. Með umræðunni um hlýnun jarðar fagnar fólk hinni harðneskjulegu veðráttu Íslands. Ég verð oft vör við sterka upplifun fólks þegar maður er að böðla því út við Gullfoss í fjórtán metrum af norðaustri og 10 stiga frosti. Mér finnst mjög gaman að sjá þessa upplifun.”

Með ferðahópi á fjöllum

Þú lendir aldrei í því að skammast þín fyrir veðrið og landið.

Rósa Sigrún: „Nei, en í margra daga ferð þegar ekki sér úr augum þarf maður að passa sig á að verða ekki meðvirkur.”

Páll Ásgeir: „Kuldinn selur landið meira heldur en við gerum okkur grein fyrir. Eftir því sem hitnar í veröldinni þykir fólki léttir af því að vera einhvers staðar í 10 -15 gráðu hita. Svo þegar ekkert skyggni er og veðrið brjálað breytist ferðin í ævintýri.”

Rósa Sigrún: „Það er líka grundvallarmunur á því hvort þú lendir í vondu veðri í gönguferð eða ert í rútuferð og blotnar við að hlaupa niður í Reynisfjöru. Þá er alltaf hægt að skipta um föt. Á gönguferð geta skapast alvarlegar aðstæður.”

Páll Ásgeir: „Við höfum oft verið með fólki sem taldi sig hafa reynslu af útivist en Ísland fór langt út fyrir það sem það bjóst við – var miklu kaldara og blautara en það hafði nokkru sinni gert sér hugmyndir um.”

Rósa Sigrún: „Jafnvel Íslendingar sem telja sig vita hvernig eigi að búa sig fyrir ferð um hálendið vanmetur þær aðstæður sem skapast geta á Laugaveginum, á vinsælustu gönguleið landsins. Af því að það eru svo margir á Laugaveginum – allir fara Laugaveginn – þá get ég örugglega líka gengið Laugaveginn! Fólk áttar sig ekki á því að upp við Hrafntinnusker ertu kominn í um 1.100 metra hæð og þar sér ekki stundum ekki út úr augum vegna slyddu í júlí. Nánast allur nútíma útivistarfatnaður gefur sig á endanum í slagviðri. Þó við klæðum okkur í þrjú lög og yst í ægilega fína Gore-Tex-úlpu þá verðum við blaut á endanum ef við höfum gengið Laugaveginn með slyddu og rigningu í fangið. Það eina sem þá heldur á manni hita er ullin.”

Páll Ásgeir: „Það ætti að vera skilti við Laugaveginn sem segði: Wool Only!”

Léttklædd í fjallgöngu

Þið hafið þvælst um landið í þrjá áratugi, safnað efni í ferðabækur og leiðsagt fólki. Á þessum tíma hafa orðið gríðarlegar breytingar á ferðaþjónustu með mikilli fjölgun ferðafólks og meiri umferð um landið. 

Páll Ásgeir: „Mín upplifun er sú að frá 2010 hafi Íslendingar verið á hlaupum á undan bylgjunni, reynt að koma upp innviðum til að geta tekið á móti öllu þessu fólki. Við sáum þolmörkin í sumar. Ísland var uppselt. Það var erfitt að manna starfsgreinina. Ekki var hægt að fá bíl eða hús til að sofa í. Spurningunni um það hversu mörgum ferðamönnum Ísland getur tekið á móti var svarað í sumar. Þarna eru þolmörkin.”

Rósa Sigrún: „Þetta hefur breytt því hvernig ég hugsa um ferðamennsku. Jafn þverstæðukennt og það er, þá kemur öll þessi ferðamennska niður á náttúrunni en er samt mikilvæg leið í náttúruvernd. Land er eins og manneskja. Þú þarft að kynnast henni til að láta þér þykja vænt um hana. Mér þykir það svo mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu að fá fólk til að dvelja aðeins lengur, það láti ekki bara duga að snappa í sömu pósunni og Justin Bieber og fara svo rakleitt á næsta stað. Þetta er orðinn einskonar tékklisti. Mér finnst þetta svolítið skuggalegt. Á hinum endanum er að fara hægar um og dvelja lengur. Ég myndi vilja sjá meira af því.”

Þessari tékklista-ferðamennsku hefur fylgt að landshlutar sem ekki hafa þessa grammísku eða snappísku staði eins og flugvélarflakið og Reynisfjöru fá miklu færra fólk. Er það ekki dálítið sorglegt?

Páll Ásgeir: „Okkur hættir til að líta á ferðamannastrauminn til Íslands sem auðlind – einhvern búhnykk – en á sama tíma megum við vera fegin því að straumurinn helst alltaf á sömu stöðunum. Þetta veldur gríðarlegu álagi, við byggjum upp innviði, og þá hafa þessir staðir tilhneigingu í að breytast og verða ekki lengur eins og við munum eftir þeim. Þetta sást þegar Íslendingar ferðuðust um eigið land í heimsfaraldrinum – af því að engir útlendingar voru þar. Við stigum inn i tómarúmið og fórum í stórum hópum um Laugaveginn – af því að það var hægt. Við hittum margt fólk þessi sumur sem stóð í þeirri trú að nú væri friður á Laugaveginum, sem annars væri fullur af útlendingum.”

Rósa Sigrún: „Maður heyrði fólk oft segja að það hefði endurheimt landið.”

Eru þið að segja að við eigum ekki að dreifa ferðafólki um landið?

Páll Ásgeir: „Af hverju eigum við að dreifa ferðafólki?”

Til að minnka álag á ofsetnum stöðum og efla atvinnulíf annars staðar með ferðaþjónustu.

Páll Ásgeir: „Þegar við segjumst vilja dreifa ferðafólki erum við alltaf að hugsa um hagrænu hliðina, að færa búhnykkinn af ferðamönnum heim í hérað. En frá sjónarhóli náttúruverndar ættum við kannski að fókusera á færri staði, byggja þá vel upp, halda vel utan um umferðina sem þar er, og vernda þannig náttúruna, gera ferðaþjónustunni þannig lífið léttara. Fólk lítur ólíkum augum á það hvað er þéttsetinn ferðamannastaður. Það fer eftir því hvaðan þú kemur. Fólk kemur til landsins vitandi um að vinsælustu staðirnir eru þéttsetnir. Mörgum útlendingum finnst ekki margt fólk við Geysi. Okkur finnst margt á Markúsartorginu í Feneyjum eða við Eiffelturninn í París en við förum á þessa staði.”

Rósa Sigrún: „Ég skil vel þessa hagrænu hlið, að þarna felist atvinnutækifæri sem fólk annars staðar á landinu vill geta nýtt sér. Það á að byggja ferðaþjónustu upp hringinn í kringum landið en það er ekki sama hvernig við gerum það. Lykillinn er að fá fólk til að fara hægar, dvelja lengur á landinu, skoða það betur. Fólki velji staði eftir sínu áhugasviði.”

En Páll Ásgeir, þú vilt nánast að ákveðnir hlutar landsins séu lokaðir – að við höldum þeim svæðum fyrir okkur sjálf.

Páll Ásgeir: „Ég held að við ættum að ihuga það vandlega hvaða staði við opnum fyrir ferðamönnum og hvernig við gerum það. Ágætt dæmi er Stuðlagil, sem nú er vinsælasti áfangastaðurinn á Austurlandi. Við vitum, og margir Íslendingar vita, að það eru mörg Stuðlagil á Íslandi. Í stað þess að láta samfélagsmiðlana búa þessa áfangastaði til þurfum við að gera það með markvissum hætti, velja þá staði sem við viljum opna fyrir ferðamönnum og beina þeim þangað. Ekki hrökkva upp allt í einu af því að allt er orðið morandi af ferðamönnum þar sem engin aðstaða er til að taka á móti þeim, þeir fastir í girðingum eins og búfé og fara sér að voða frammi á gilbörmum. Auðvitað er það rétt að byggja upp úti á landi en við skulum ekki láta samfélagsmiðlana ráða ferðinni heldur fylgja okkar áætlun.” 

Rósa Sigrún: „Mest áhersla hefur verið lögð á að selja stuttar ferðir til Íslands. Frá sjónarmiði umhverfisverndar og gagnvart dreifingu ferðamanna er það röng stefna. Það væri hægt að stýra þessu að einhverju marki, segjum t.d. ef flugmiðar væru ódýrari því lengri tími sem liði milli ferðadaga. Þá fengjum við fólk til að dvelja lengur, fara víðar um – og hugsanlega með umhverfisvænni hætti. Og auðvitað ætti þetta að vera þannig að því fleiri ferðir sem þú færir á hverju ári því dýrari yrðu þær. Það er hægt að stjórna hegðun okkar.”

Þið gerðust útvistarfólk og hófuð leiðsögn af því að þið voruð náttúruverndarfólk. Þið kunnuð að meta náttúruna, vilduð verja náttúruna, en líka opna augu fólks fyrir henni. Síðan hefur orðið mikil vitundarvakning meðal almennings um gildi náttúruverndar og um áhrif okkar á umhverfið.

Páll Ásgeir:„Fólk verður stöðugt meðvitaðra um það hvernig það ferðast, horfir öðruvísi í kringum sig. Erlendir ferðamenn horfa til þess hvernig við göngum um landið, hvernig flokkað er á gististöðum, hvaða ferðamátar eru í boði. Ísland er eyja og það veldur því að flestir koma fljúgandi og flugvélar vega þyngst í matinu á því hvað sé umhverfisvæn ferðamennska. En við getum gert margt innanlands.”

Rósa Sigrún: „Ég finn þessa breytingu hjá sjálfri mér og öðrum sem ég geng með. Hér áður fyrr velti maður því ekkert mikið fyrir sér þó mosinn rifnaði upp þar sem gengið var eða að drulluslóði lægi eftir mann þegar frost var að fara úr jörðu. Nú þegar hópurinn nálgast mosabreiðu þarf að ræða hvernig fara eigi yfir hana til að skilja sem minnst merki eftir.”

Hvað segið þið um að gerður verði kolefnisreikningur fyrir hvern og einn ferðamann – hann þurfi að bæta fyrir umhverfisskaðann sem ferðalag hans veldur?

Páll Ásgeir: „Það er verið að byggja einskonar kerfi aflátsbréfa. Mér sýnist að Íslendingar ætli sér stóran hlut í því. Með sínu framlagi geti ferðamaðurinn keypt þig frá ferðaskömminni. Þetta gengur allt út á að neyslustigið í heiminum eigi ekki að breytast. Þú átt bara að borga þig frá þessu. En við ætlum ekki að fækka flugferðum. Í þessu er ákveðin þversögn. Starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar sögðu okkur þegar þeir lýstu þessari niðurdælingu koltvísýrings niður í basaltið, þar sem hann verður að steini, að allur berggrunnur Íslands gæti tekið við allri mengun heimsins og bundið hana – en bara í 50 ár! En 50 ár er enginn tími. Þetta er því ekki varanleg lausn. Staðreyndin sem við horfum framhjá og neitum að horfast í augu við er sú að neyslan verður að breytast.”

Rósa Sigrún: „Það verður að stýra því hvernig við eigum að bæta fyrir það sem við gerum. Það er gott að planta trjám en það er alls ekki sama hvar skógar verða til, hvaða plöntutegundir við notum, eins og hefur komið í ljós varðandi lúpínuna og núna með stafafurunni. Þessu þarf að stýra. Þarna vantar stefnu.”

Páll Ásgeir: „Það hefur verið litið á skógrækt sem heilaga iðju á Íslandi. Nú með hlýnandi loftslagi kemur í ljós að stafafuran breiðist hratt út á eigin vegum eins og lúpínan gerði. Við erum að sleppa lausum einhverjum öflum í lífríki Íslands. Við höfum ekki hugsað málin til enda. Og ef ég vil kolefnisjafna fyrir utanferð með því að planta trjám þá næst það jafnvægi eftir hálfa öld. Við erum að ýta á undan okkur snjóbolta sem við vitum ekki hvað er stór. Alltaf komum við að því sama: Það sem við erum að gera er knúið áfram af hagrænum hvötum en ekki af því að það gagnist endilega náttúrunni.”

Erum við tilbúin að breyta einhverju?

Rósa Sigrún: „Það er nauðsynlegt en ég er hrædd um að við séum ekki tilbúin til þess. Hugsunin hjá mörgum okkar er að vakna. Við hjónin þurfum að gangast við því að fara þrisvar til útlanda á þessu ári og ég skal viðurkenna að ég er með dálítið samviskubit. Ég tími samt ekki að neita mér um að fara á Feneyjatvíæringinn.”

Gildir ekki bara sú afsökun að við búum á eyju? Við þurfum að ferðast eins og aðrar þjóðir.

Rósa Sigrún: „Jú. Það sem við getum reynt að gera er að lengja ferðir okkar, getum notað lestir á meginlandinu. Í myndlistarbransanum getur þú fengið hærri ferðastyrki ef þú ferðast landveg en ekki með flugi. Það eru margir hvatar í gangi. Kannski endum við á því að ferðast aftur með seglskipum.”

Páll Ásgeir: „Það má halda því fram að eitt af því sem er að – en ferðaþjónustan vill ekki heyra – er að flugið er alltof ódýrt.”

Það er ekki fjarlægt að bugast hreinlega af áhyggjum af framtíð jarðarinnar og mannkyns.

Rósa Sigrún: „Jörðin mun lifa hvað sem um okkur verður. Mér þykir magnað að hugsa til þess að okkar kynslóð sé að lifa mesta blómaskeið mannkyns á jörðinni. Við getum allt, leyfum okkur allt.”

Páll Ásgeir: „Um leið erum við síðasta kynslóðin sem lifði í þeirri blekkingu að þetta væri í lagi – sem það er ekki. Þau sem á eftir koma þurfa að leysa þetta. Þær breytingar sem þurfa að verða gerast ekki á okkar líftíma. Þær verða samt.”

Á Valahnúk

Þið tvö eruð afkomendur sveitafólks sem fór á milli bæja eða á eftir búsmala í roðskóm eða sauðskinnsskóm, klætt í skjóllitla leppa, en þið sprangið sjálf um í vatnsheldum heimsklassa búnaði og leiðsegið ferðafólki um landið – því til skemmtunar. Er ekki stundum absúrd að hugsa til þess hversu miklar breytingar hafa orðið?

Páll Ásgeir: „Við bræður ákváðum að taka á þessu í vísu með erfiðum rímorðum. Vísan er ort í orðastað beitarhúsamanns fyrir 200 árum:

Hér húki ég einn með minn heymeis.

Þetta er helvítis, djöfulsins nápleis.

Þá finn ég mig dreyma

um framtíðarheima

þar sem fólk gengur almennt í North Face. 

Sambandið við náttúruna er samt með þeim hætti á þessu landi að það er alveg sama hversu vel þú ert búinn þá ertu reglulega minntur á að náttúran hefur síðasta orðið. Við erum fyrsta fólkið sem fer á fjöll án þess að eiga þangað erindi, erum að leita að upprunanum – að tengslunum við náttúruna.” 

Rósa Sigrún: „Ég held að það sé eitthvað frumstætt í okkur öllum. Við þörfnumst þessarar tengingar, einhverrar nálægðar við náttúruna. Við vorum í Norðurfirði á Ströndum í nokkra daga í haust, tókum þátt í smalamennsku, og gengum svo á hverjum degi alltaf sömu leiðina, upp á sama fjall, og hugsuðum bara um að kynnast einum stað frá sem flestum sjónarhornum. Mér finnst að við ættum öll að læra vistfræði. Við þurfum að skilja hringrás náttúrunnar til þess að geta orðið hluti af henni – og mannkynið lifi áfram sem hluti af náttúrunni.” 

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …