Bandarísk flugfélög vantar átta þúsund flugmenn til starfa og kemur það niður á þjónustu þeirra um allt land, samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi flugfélaga innanlands (RAA). Flugmannaskorturinn hefur leitt til þess að flugferðir hafa lagst af eða áætlanir verið skertar frá 76 prósentum flugvalla landsins frá því í október 2019. „Nú liggja meira en 500 innanlandsflugvélar óhreyfðar án flugmanna og 324 bæir og borgir búa við skerta þjónustu.” Segir Fay Malarkey Black, framkvæmdastjóri RAA. „Engar áætlunarflugsamgöngur eru nú við 14 flugvelli og sú tala fer hækkandi. Flugsamgöngur við fámennari pláss eru á hverfanda hveli.”
Flightglobal rekur vandræði þriggja dótturfélaga American Airlines. Þau horfa fram á vandræði það sem eftir lifir árs vegna skorts á flugmönnum en reyna nú að bregðast við með gylliboðum til flugmanna. Þetta eru Envoy Air, Piedmont Airlines og PSA Airlines. Öll bjóða félögin 100 þúsund dollara bónusa til að laða til sín reynda flugmenn til að sinna verkefnum til áramóta.
Flugfélagið Envoy í Texas er tilbúið að greiða reyndum flugmönnum með meira en 950 flugstunda reynslu 100 þúsund dollara en reynsluminni flugmönnum með 500 til 950 flugstundir 75 þúsund dollara. Ric Wilson, aðstoðarforstjóri Envoy, leggur mikla áherslu á að ráða flugmenn á markaðnum: „Þetta þýðir að það hefur aldrei gefið meira í aðra hönd að vera flugmaður.”
Piedmont-flugfélagið í Maryland býður þeim flugmönnum sem eru hæfir til að setjast í flugstjórastólinn 100 þúsund dollara kaupauka og 75 þúsund dollara þeim sem vantar ekki mikið upp á stöðuhækkun.
„Farþegarnir eru komnir aftur og ferðavilji er mikill en flugfélögin hafa ekki náð jafnvægi enn,” segir Eric Morgan, forstjóri Piedmont. „Við eigum mikla möguleika á að vaxa á sama tíma og önnur félög eru að skreppa saman. Þess vegna erum við með þá sérstöðu að geta sagt við flugmenn: Komið til Piedmont og hjálpið okkur við að stækka flotann og fjölga flugleiðum. Og hér er peningaupphæð sem þið getið eytt á meðan.”
Sama gildir um þriðja félagið, PSA í Ohio, Það býður reyndum flugmönnum 100 þúsund dollara kaupauka.
Öll félögin þrjú segja að auk kaupauka geti þau greitt leið flugmanna að störfum hjá sjálfu móðurfélaginu – American Airlines.