Það má kalla það kraftaverk að norður á Akureyri starfi tónleikastaður sem laðar til sín flytjendur og gesti árið um kring – ár eftir ár. Þetta er auðvitað Græni hatturinn í kjallara húss við Hafnarstræti 96 sem dregur nafn af verslun sem var í húsinu og hét París. Húsið skartar tveimur turnum og er eitt helsta staðartákn Akureyrar. Það má eiginlega segja það sama um Græna hattinn – hann er fyrir löngu orðið eitt helsta menningarskartið í bænum.
Haukur Tryggvason á heiðurinn af þessum farsæla rekstri. Haukur er lærður þjónn, byrjaði í Naustinu en fluttist svo heim til Akureyrar og vann á Hótel KEA og Pollinum. Í febrúar næstkomandi eru 20 ár síðan hann tók við Græna hattinum af eigendum hússins Sigmundi Einarssyni og Guðbjörgu Ingu Jósefsdóttur. Þarna í kjallaranum, sem tekur um 180 manns í sæti, hafa verið haldnir tónleikar sem dregið hafa til sín gesti hvaðanæva að. Það var fyrst og fremst ódrepandi tónlistaráhugi Hauks sem knúði hann til þess að hefja þennan klúbbrekstur. En lítur Haukur á Græna hattinn sem ferðaþjónustufyrirtæki?
„Jú, algjörlega. Meira en helmingur af kúnnunum er utanbæjarfólk, bæði fólk annars staðar að af landinu og útlendingar.”
Þú myndir ekki lifa á Akureyringum einum?
„Nei, enda eru þeir allir á Tenerife!
Utanaðkomandi gestum fjölgar stöðugt. Fyrst voru hér bara Akureyringar en síðan barst orðsporið út. Nú kemur hingað fólk gagngert hverja einustu helgi úr Reykjavík eða annars staðar að til að sjá og hlusta á hljómsveitir og tónlistarfólk á Græna hattinum. Ein kom meira að segja alla leiðina frá Japan til að hlusta á Mezzoforte spila hérna.
Haukur hefur flutt inn þekkta tónlistarmenn til að spila á Græna hattinum. Hollenska hljómsveitin Focus er líklega sú þekktasta sem stigið hefur þar á sviðið. Þeir Thijs van Leer og félagar hafa komið í tvígang og nú er vonast eftir þeim í þriðja sinn á næsta ári. En fylgir Haukur einhverri línu í vali á flytjendum?
„Nei. Ég var meira að segja að bóka Geirmund. Hann verður með harmonikku. Þetta verður sing-along. Geirmundur, píanóleikari, bassaleikari og trommari á sviðinu og fólkinu leyft að syngja með. Fólk, 67 ára og eldra, mætir. Það er ekki bara hægt að vera með unglinga.”
Nei. Túrista er létt – enn undir áðurnefndum aldursmörkum. Rifjar upp með Hauki þegar rokksveitin Rifsberja kom og spilaði í Gagganum á Akureyri fyrir hálfri öld. Þetta var mikill spuni og æði löng sóló hjá Þórði Árnasyni og félögum. Ekki var mikið vangað það kvöldið. Haukur stóð einmitt fyrir því að fá Rifsberja norður. Og svo vill til að einmitt sami Þórður spilar á Græna hattinum með Guitar Islancio að kvöldi þessa dags sem við spjöllum saman. Ætli Haukur sjái fyrir sér að endast lengi enn í þessum klúbbrekstri?
„Þetta er viðkvæm spurning. Ég geri ráð fyrir að endast einhver ár í viðbót. Veit ekkert hvað verður um þetta þegar ég hætti.”
Líklega er óhætt að segja að það sé mikið úthald að reka svona stað.
„Ég er hérna um hverja einustu helgi sem opið er allan ársins hring. Þrennir tónleikar í hverri tónleikaviku, um 140 tónleikar á ári. Við tökum frí tvær eða þrjár helgar, hálfan mánuð í janúar.”
Þessi tónleikastaður nýtur ekki opinbers stuðnings.
„Nei. Ég var t.d. nú í vikunni að borga 60 þúsund króna heilbrigðisgjald. Þeir komu hérna og litu á aðstöðuna þegar ég opnaði fyrir nærri 20 árum. Ekki sést síðan. Þetta gjald þurfti líka að greiða á Covid-tímanum þegar allt var lokað. Reksturinn gengur upp með endalausri vinnu. Ég er mörg kvöld í mínus. Ekki borgar sig að fastráða hingað fólk og þess vegna er ég svona mikið hér sjálfur. Við konan mín erum einu föstu starfsmennirnir. Aðrir á tímakaupi.”
Hefur reksturinn þó borið sig?
„Já, að undanskildum Covid-árunum. Ein lokunin þá stóð í sex mánuði. Allir reikningar streymdu áfram til okkar að frátöldum brennivínreikningunum. Annars hefur verið hagnaður af starfseminni.
Hvaða hlutverki hefur Græni hatturinn gegnt í tónlistarlífinu?
„Nánast allar hljómsveitir á landinu hafa spilað hérna. Fyrir sumar hljómsveitirnar er þetta eini vettvangurinn. Þær fá hvergi annars staðar tækifæri. Mörgum ungum tónlistarmönnum þykir upphefð af því að troða hér upp. Stundum taka nokkrar hljómsveitir sig saman og halda hér tónleika. Nú bíð ég eftir svari frá Focus.”
Bindur þú miklar vonir við beina flugið til Akureyrar?
„Já, það er dýrt að koma listamönnum hingað frá Keflavíkurflugvelli. Nú langar mig að fá fleiri hljómsveitir hingað beint frá Bretlandi.”
Já, þær eru margar bresku hljómsveitirnar sem flestum eru geymdar en áhugafólk um tónlist hefði gaman af að sjá á sviði.
„Það er bara verst hvað við erum fá sem þekkjum orðið þessar gömlu hljómsveitir.”
Talaðu ekki um það ógrátandi. Heimur versnandi fer. Veistu annars hvernig klúbbum eins og þessum vegnar annars staðar?
„Ég held að þeim gangi ekkert alltof vel. Markaðurinn er samt fyrir hendi.
Menn spyrja: Af hverju er ekki svona staður í Reykjavík? Engin fyrirstaða ætti að vera fyrir því.
Vandinn er sá að húsaleiga er svo geggjuð í Reykjavík að nánast er útilokað að reka svona klúbb. Eigendur að húsnæði Græna hattsins hafa verið sanngjarnir. Öðruvísi hefði þetta ekki gengið.
Það þarf að vera hugsjón að baki svona tónlistarstað. Ég væri ekki í þessu nema af því að ég hef brennandi áhuga á tónlist. Annars væri mínum tíma betur varið annars staðar.”