Samfélagsmiðlar

Unnið að áætlun um að styrkja köld svæði

Ferðamálaráðherra ætlar að skipa starfshópa til að móta ferðamálastefnu næstu ára. Það er hennar markmið að fólk átti sig á efnahagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar, sem eigi ekki að vera lítil í sér heldur gleðjast yfir miklum áhuga á Íslandi. Unnið er að aðgerðaáætlun vegna kaldari svæða í ferðaþjónustunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra

„Það sem blasir við ferðamálaráðherranum er gríðarlega öflug og vösk sveit fólks í ferðaþjónustunni á Íslandi.“

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, þegar hún metur stöðu íslenskrar ferðaþjónustu að loknu fyrsta ferðamannasumrinu eftir heimsfaraldur.

„Á alþjóðavísu er endurheimtin í ferðaþjónustunni um 57 prósent en hér 95 prósent. Ríkissjóður var í þeirri stöðu þegar Covod-19 skall á að þáverandi ríkisstjórn gat myndað efnahagslega loftbrú.

Það er ánægjuefni fyrir okkur stjórnmálamenn að ákveðið hafi verið að styðja við ferðaþjónustuna – og að hún komi svona sterk til baka.”

Ferðafólk við Reykjavíkurhöfn – Mynd: ÓJ

Góður gjaldeyrisforði er þjóðarbúinu mikilvægur. Lilja rifjar upp þá tíma þegar Seðlabankinn þurfti á árunum 2001 til 14 að taka hann að láni. Sett voru á fjármagnshöft eftir bankahrun en síðan kom mikið innflæði gjaldeyris með vaxandi fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. 

„Við áttum okkur þá á því að það eru að verða straumhvörf í íslensku efnahagskerfi. Við erum orðin hagkerfi sem býr til meiri gjaldeyri en eyðir. Öll þjóðríki vilja vera í þessari stöðu.

Ferðaþjónustan býr til helminginn af öllum nýjum störfum á síðasta áratug og hún sýnir mjög mikla aðlögunarhæfni.”

Lilja Dögg Alfreðsdóttir – Mynd: ÓJ

Lilja hefur verið alþingismaður frá 2016, gegndi embætti utanríkisráðherra 2016-17, var mennta- og menningarmálaráðherra 2017-21, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra 2021-22 og er nú menningar- og viðskiptamálaráðherra, en undir ráðuneytið heyra ferðamálin. Áður en stjórnmálaferillinn hófst starfaði Lilja m.a. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabanka Íslands.

Hún lýsir sýn sinni á ferðaþjónustuna á grundvelli hagtalna sem staðfesta efnahagslegt mikilvægi. 

„Forveri minn vann stefnuramma um ferðaþjónustu. Í þetta fór mikil vinna og sátt var í greininni um niðurstöðurnar. Í stað þess að vinna allt upp á nýtt ætlum við að nota þennan stefnuramma – uppfæra hann og móta ferðamálastefnu til ársins 2030. 

Á næstu misserum munum við búa til undirhópa til að framfylgja stefnunni og fjalla um þær áskoranir og þau tækifæri sem felast í ferðaþjónustunni.

Einn hópurinn á að fjalla um menningartengda ferðaþjónustu, annar um gjaldtöku, þriðji um gæði og öryggismál, fjórði um menntun og ferðaþjónustu, fimmti um sjálfbærni. Þessir hópar fá að hámarki hálft ár til að vinna og koma með tillögur að aðgerðum sem falla að framtíðarsýninni til 2030.

Rafhleðslustöðvar í Hrútafirði – Mynd: ÓJ

Ég nefni sjálfbærnina sérstaklega: Við ætlum að verða fyrsta ríkið með alveg sjálfbæra ferðaþjónustu innanlands. Þá erum við að tala um bíla- og flugflotann. Og auðvitað var mjög ánægjulegt að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, skyldi koma með yfirlýsingu í The Financial Times í síðustu viku um að við ætlum að verða fyrsta ríkið sem geri þetta.

Fólkið sem við treystum á býr til stefnuna. Mitt er að hrinda henni í framkvæmd. Við munum setja þetta inn í þingsályktunartillögu og Alþingi fjallar um hana. Það er nauðsynlegt vegna þess að þetta er stór atvinnugrein. Ég held að það sé nýjung að gera svona með þessum hætti.“

Ferðamenn koma úr róðri á Ísafirði – Mynd: ÓJ

Það er lof borið á ríkisstjórnina fyrir björgunaraðgerðirnar í heimsfaraldrinum, sem komu fyrirtækjunum í gegnum mikla efiðleika og sköpuðu forsendur fyrir endurheimtinni sem við höfum orðið vitni að í sumar. Hinsvegar er bent á að hugsanlega hefði mátt nýta tímann betur til að vinna að endurskipulagningu greinarinnar og jafnvel vinsa burtu þau fyrirtæki sem voru tæplega lífvænleg fyrir heimsfaraldur. 

„Við vissum af þessari gagnrýni. Mitt sjónarmið var að það væri miklu betra að búa til efnahagslega loftbrú, sem allir hefðu aðgang að – og væru á henni. Leyfa síðan markaðnum að stýra því sem á eftir kæmi. Þetta væri náttúruleg endurskipulagning. Hún er miklu sanngjarnari, í stað þess að ríkissjóður taki ákvarðanir um örlög fyrirtækja. Mér þótti óréttlæti felast í því.”

Væri ekki eðlilegt að nokkur uppstokkun yrði í greininni eftir þessar hremmingar?

„Jú, en hún gerist þá bara á markaðslegum forsendum. Það er ekki ríkisins að hafa afskipti af því. Það er óæskilegt að mínu mati.”

Afgreiðsla hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar – Mynd: ÓJ

Nú ert þú að móta framtíðarstefnuna í ferðamálum. Maður heyrir það á fólki í ferðaþjónustu víða um land að því þyki greinin ekki tekin nógu alvarlega. Þá er ekki einvörðungu verið að vísa til núverandi ferðamálaráðherra, eða ríkisstjórnarinnar sem nú situr, heldur til stöðu geinarinnar um langan aldur. Skilur þú hvað fólk er að fara?

„Já, ég skil þetta, en mitt markmið er að fólk átti sig á efnahagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar. Við njótum aukinnar velmegunar sem þjóð vegna ferðaþjónustunnar. Samspil efnahagslegrar stöðu okkar og gengis ferðaþjónustunnar er augljóst. Þessu verða stjórnmálamenn að koma betur á framfæri við fólkið í greininni. Aðgerðir stjórnvalda voru besti vitnisburðurinn um það hvað okkur finnst um ferðaþjónustuna. Aðgerðirnar voru kröftugar af því að við skildum mikilvægið til fulls.

Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni.

Með öflugri ferðaþjónustu hefur fylgt fjölbreyttara mannlíf. Það er allt annað að búa í Reykjavík í dag en fyrir 15 árum með fleiri veitingastöðum. Með tveimur milljónum erlendra ferðamanna á ári erum við að stækka markaðinn og skapa betri forsendur fyrir veitingarekstri.

Veitingahúsið Kastrup við Hverfisgötu – Mynd: ÓJ

Ég sé líka mikil sóknarfæri í menningartengdri ferðaþjónustu – fyrir Sinfóníuhljómsveitina, Íslenska dansflokkinn og margar lykilstofnanir okkar – að tengjast betur ferðaþjónustunni. Þannig munu rekstrarskilyrði menningarlífsins batna á þessu kjörtímabili.”

Allir virðast sammála um að ferðafólk þyrfti að dreifast betur um landið. Geta stjórnvöld beitt sér meira til að stuðla að því?

„Við erum með Flugþróunarsjóð, höfum verið að setja framlög í hann, og þannig stutt við gáttirnar á Akureyri og Egilsstöðum. Að mínu mati eru það forsendur fyrir meiri dreifingu ferðafólks.

Við erum auðvitað að tala um allt annað ferðalag ef erlendi ferðamaðurinn kemst beint til Akureyrar eða Egilsstaða, eða í gegnum Keflavíkurflugvöll, á þessa staði. Bandaríkjamenn eru t.d. vanir því að fljúga milli borga – að þurfa að hafa dálítið fyrir ferðalögum.

Við flugstöðina á Akureyri – Mynd: ÓJ

Icelandair lenti í töluverðum hremmingum með innanlandsflugið í sumar og ég átti fund með forstjóranum. Ég verð að hrósa félaginu fyrir að taka þetta alvarlega. Icelandair vill veita betri þjónustu í innanlandsfluginu. Það er mikilvægt fyrir okkur að innanlandsflugið sé í lagi, en það verða alltaf að vera markaðslegar forsendur fyrir því.  

Ferðaþjónustan er líka að finna eigin lausnir með opnun og uppbyggingu á nýjum og spennandi stöðum á landinu. Það er mitt hlutverk að koma með sýnina og tryggja að innviðir séu til staðar, hvetja fólk og hugsa hvernig hægt sé að leysa málin. Það er líka mitt hlutverk að auka menntun í greininni til að tryggja meiri gæði.

Ég er bjartsýn á að það verði áfram mikill áhugi á að heimsækja Ísland. Náttúran er einstök en ég vil líka ýta meira undir menningar- og heilsutengda ferðaþjónustu.”

Skógarböðin í Eyjafirði – Mynd: ÓJ

Það er mikil krafa í heiminum um meiri umhverfisvitund í ferðaþjónustu, hún þurfi að vera í sátt í við umhverfi og samfélag – vera sjálfbær. 

„Þar eigum við að vera leiðandi. Við ætlum að skila mjög metnaðarfullri áætlun um orkuskipti í ferðaþjónustu. Ánægjulegt er að sjá að flugið er að taka þar ákveðin skref en svo eru það bílaleigurnar.

Við eigum og höfum alla burði til þess að vera leiðandi í þessu. Ég held að það eigi eftir að verða aðdráttarafl, ferðafólk vilji fara til lands þar sem samgöngur eru orðnar umhverfisvænar. Vonandi fer þá verðið líka niður.

Þetta á líka að vera fyrir Íslendinga.”

En innviðir þurfa að fylgja, fjölga verður hleðslustöðvum. 

„Já, við eflum þessa innviði með atvinnulífinu.

Mestu fjárfestingar á heimsvísu næstu 5 til 15 árin verða í sjálfbærum orkuiðnaði. Það eru mjög jákvæðar fréttir fyrir Ísland.“ 

Á Dettifossvegi – Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Við ræddum þá tilfinningu margra í ferðaþjónustunni að greinin væri ekki tekin nógu alvarlega af stjórnmálamönnum og í stjórnsýslunni. Eitt af því sem bent er á er að Vegagerðinni sé ekki gert mögulegt að veita nægilega góða þjónustu í dreifðari byggðum um vetrartímann, halda vegum opnum. Vegir séu ekki mokaðir þó alltaf sé talað um mikilvægi þess að ferðafólk dreifist meira um landið.

Dettifossvegur er nefndur sérstaklega. Hann lokaðist 1. nóvember og Vegagerðin telur sig ekki hafa bolmagn til að halda honum opnum á veturna. Það verði að koma til sérstakar fjárveitingar. Þetta er samt vegur sem byggður var sérstaklega upp til að geta þjónað vegfarendum árið um kring. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands sagði í viðtali við Túrista í síðustu viku að rætt hefði verið við ráðherra innviða og ferðamála um breytingar á þessu svo hægt væri að markaðssetja Demantsleiðina árið um kring. Hvað getur þú sagt um þetta?

„Við erum að vinna að þessu, ég og innviðaráðherra.

Ég get líka nefnt í þessu sambandi vinnu okkar hér vegna kaldari svæða. Við erum að vinna að aðgerðaáætlun vegna þeirra. Í fyrsta lagi skoða aðgengi að fjármagni í fjármálakerfinu, sem er ekki gott. Verið er að greina það hér í ráðuneytinu og leita skýringa stjórnenda bankanna á því hvernig standi á þessu og líka um það hvert fjárfestingar í ferðaþjónustu fari. Ferðaþjónustan úti á landi segir að meirihlutinn fari á höfuðborgarsvæðið. Við erum að skoða það. Í öðru lagi eru það þessi aðgengismál og innviðir, t.d. við Dettifoss, að Vegagerðin haldi opnu og það sé líka tryggt aðgengi að fossinum sjálfum. Svo er það innanlandsflugið.

Við erum að vinna að áætlun sem nær út kjörtímabilið um það sem við erum sammála um að þurfi að gera til að styrkja þessi svæði.”

Og Dettifossvegur verður skoðaður sérstaklega?

„Já.”

Ferðafólk við hvalstöðina í sumar – Mynd: ÓJ

Þú varst gagnrýnd harðlega af ferðaþjónustunni í sumar fyrir að styðja hvalveiðar.

„Það rétta í því er að ég sagðist ekki sjá það í neinum tölum að hvalveiðarnar hafi haft áhrif á ferðaþjónustuna. Um leið og við sjáum að hvalveiðar ógni stöðu ferðaþjónustunnar þá breytist afstaða okkar.

En hafandi sagt þetta, þá erum við að taka áhættu með hvalveiðum. Ef við fáum mjög erfiða umfjöllun um hvalveiðar getur hún breytt stöðu okkar mjög hratt. Það er auðvitað ljóst að efnahagslegir hagsmunir ferðaþjónustunnar vega margfalt meira en hvalveiðarnar.

Þetta fyrirkomulag á hvalveiðunum er núna til endurskoðunar.”

Við ljúkum spjallinu í ráðuneyti ferðamála við Sölvhólsgötu í Reykjavík á björtum nótum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir lýsir ánægju sinni með að vinna að hagsmunum þessarar stóru og efnahagslega mikilvægu atvinnugrein. 

„Ein mikilvægasta ákvörðun í lífi fólks er hvert halda skuli í sumarfríinu, hvað eigi að gera. Það er mikill heiður að fólk ákveði að heimsækja okkur – og við eigum að fara vel með það hlutverk.

Ferðaþjónustan á ekki að vera lítil í sér. Það er mikil viðurkenning fólgin í því að fólk ákveði að fara til Íslands næsta sumar. Þetta er það sem mér þykir svo skemmtilegt við það að starfa fyrir þessa atvinnugrein.

Ég er með besta ráðuneytið!

Öllum þykir gaman að ferðast.”

Lilja Dögg Alfreðsdóttir – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Almennu hlutafjárútboði Play lauk í gær og bárust tilboð upp á 105 milljónir króna en lagt var upp með að selja nýtt hlutafé fyrir allt að 500 milljónir króna. Þátttaka almennings í hlutafjáraukningu Play í nóvember 2022 var heldur ekki í takt við framboð. Þá lögðu stærstu hluthafar félagsins því til 2,3 milljarða króna. Það …

Bandarísk flugfélög hvetja Biden-stjórnina í Bandaríkjunum til að gefa ekki út fleiri flugleyfi fyrir kínverska keppinauta þeirra í flugi milli Kína og Bandaríkjanna. Vísað er til samkeppnishindrana sem flugmálayfirvöld í Kína beita erlend flugfélög. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna gaf það út í febrúar að kínversk flugfélög gætu boðið allt að 50 flugferðir á …

Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Dive.is. Fyrir áttu Kynnisferðir 51% hlut í félaginu á móti Tobias Klose. Dive.is sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun. Félagið leggur mikið uppúr upplifun viðskiptavina enda er það í efsta …

„Ég myndi halda að við værum stærsta flugfélagið fyrir þá sem eru að fljúga frá Íslandi," sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, á kynningarfundi hlutafjárútboðs félagsins, á þriðjudaginn. Máli sínu til stuðnings sýndi hinn nýi forstjóri og fyrrum stjórnarformaður flugfélagsins glæru þar sem sjá mátti hvernig hlutdeild Play á heimamarkaði hefur aukist og farið upp …

Árið 2018 kynnti netverslunin Amazon nýjung á bandarískum smásölumarkaði: Amazon Just Walk Out-Stores. Verslunin var kynnt sem mikil bylting og í rauninni væri lausn Amazon framtíðarlausn fyrir aðrar smásöluverslanir. Maður skannaði símann sinn þegar gengið var inn í Just Walk Out-verslun Amazon, valdi þær vörur sem maður girntist, setti þær í innkaupakörfu og síðan gat …

MYND: ÓJ

Fyrir heimsfaraldur voru flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu litlar, takmörkuðust lengst af við sumarferðir til Mílanó. Á þessu hefur orðið mikil breyting því nú er hægt að fljúga héðan allt árið til Rómar og Mílanó og á sumrin eykst úrvalið enn frekar.  Ítölsku ferðafólki hefur fjölgað verulega í takt við þessar auknu samgöngur og var …

Sala á hreinum rafbílum frá þýska bílaframleiðandanum BMW jókst um 41 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Með söluaukningunni er vægi rafbíla hjá BMW, sem einnig framleiðir Mini, komið upp í 20 prósent hjá þýska framleiðandnum en hlufallið var 15 prósent fyrir ári síðan samkvæmt frétt Bloomberg. Á sama tíma hefur orðið samdráttur í sölu á …

Kínverski bílaframleiðandinn Chery virðist vera að ná samningum um að eignast fyrstu verksmiðju sína í Evrópu, nánar tiltekið í katalónska höfuðstaðnum Barselóna á Spáni. Um er að ræða verksmiðju sem Nissan lokaði árið 2021 og er markmið yfirvalda á Spáni og héraðsstjórnarinnar í Katalóníu að endurheimta þau 1.600 störf sem þá glötuðust. Nú hefur katalónski …