Samfélagsmiðlar

„Við eigum að taka gæði fram yfir magn“

„Við þurfum að leggja meiri áherslu á gæði, huga að orðspori okkar," segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, um framtíð ferðaþjónustunnar. Hann hefur áhyggjur af kjaraviðræðum framundan: „Ég er hræddur um að kröfugerðir verkalýðshreyfingarinnar séu langt umfram það sem inneign er fyrir."

Björn Ragnarsson fyrir framan höfuðstöðvar Icelandia

Icelandia vörumerkið er samheiti margra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem Kynnisferðir eiga og reka. Þessi samstæða er orðin umsvifamikil í íslenskri ferðaþjónustu eftir sameiningu Kynnisferða og Eldeyjar árið 2020. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að mörg verkefni séu framundan. 

„Ferðaþjónustan fór miklu hraðar af stað eftir heimsfaraldurinn heldur en maður reiknaði með. Þetta ár hefur farið í að manna starfsemina og koma okkur aftur í gang. Mikið álag hefur verið á starfsfólki sem lagt hefur sig fram um að greiða götu ferðafólks. Við höfum náð að tryggja fjölbreytni í rekstrinum með sameiningu við Eldey og munum byggja á þeim grunni.”

Hótelrútan í Lækjargötu – MYND: ÓJ

Nýja nafngiftin, Icelandia, er hugsuð sem samnefnari, regnhlíf – eða miðja í hjóli sem á að flytja samstæðuna inn í framtíðina.

„Já, við notum þetta vörumerki, Icelandia, eins og ættarnafn fjölskyldunnar. Tölum um fyrirtækin Reykjavik Excursions, Flybus, Iceland Rovers, Dive.is og Mountain Guides – by Icelandia. Þannig tengjum við fyrirtækin saman. Fljótlega eftir að ég kom að fyrirtækinu 2017 fórum við í stefnumótunarvinnu, ræddum hvert við vildum að Kynnisferðir stefndu.

Þetta var í grunninn rútufyrirtæki sem um leið rak bílaleigu undir nöfnum Enterprise, National og Alamo, vagna á nokkrum leiðum fyrir Strætó, borgarrútu fyrir ferðafólk og aðra þjónustu. Kynnisferðir höfðu t.d. í gegnum Reykjavik Excursions sinnt endursölu á ýmiskonar afþreyingu auk dagsferða og Flugrútunnar sem var grunnreksturinn. Í gegnum sölunetið var seldur aðgangur að Bláa lóninu, vélsleðaferðir, fjórhjólaferðir, og ýmislegt annað. Við höfðum áhuga á að bæta þjónustuna og lengja virðiskeðjuna með því að tengjast fleiri afþreyingarmöguleikum og þótti þess vegna spennandi að sameinast fjárfestingarfélaginu Eldey sem átti fyrirtæki á því sviði ferðaþjónustunnar: Arcanum fjallaleiðsögumenn, Dive.is, Logakór og hlutdeild í Íslenskum heilsulindum, sem við eigum með Bláa lóninu og sjóði hjá Landsbréfum. Hlutur í Norðursiglingu varð eftir hjá Eldey. Við sáum tækifæri í að sameina þessa afreyingarþjónustu og tengja við vöruframboð Reykjavik Excursions.

Meðfram suðurströndinni getur þú farið á fjórhjól, á vélsleða, í jöklagöngu, undir okkar merkjum. Með nýjustu kaupum okkar, á Activity Iceland, sem leggur mesta áherslu á sérferðir á fjöllum á breyttum jeppum, jukum við framboð og virði þjónustu sem Mountain Guides hafði veitt undir merkjum Iceland Rovers. 

Þetta er vegferðin. 

Ferðafólk á jökli – MYND: Björgvin Hilmarsson / Icelandia

Við viljum að neytandinn tengi þá þjónustu sem hann fær við sameiginlegt vörumerki: Icelandia. Með þessu verður til ekki aðeins hagkvæmari rekstur, heldur betri fyrir alla. Við aukum hagkvæmni með betri nýtingu á starfsfólki, húsnæði og tækjum og getum boðið upp á betri heildarþjónustu.”

Verða flutningar á fólki milli staða áfram kjarnastarfsemin?

„Við höfum verið að færa okkur yfir í það að búa til upplifun í íslenskri náttúru, sem lang flestir ferðamenn koma til að njóta. Við sjáum til þess að það verði að veruleika – með Flugrútunni, sem ferðafólk notar þegar það kemur til landsins, dagsferðum frá Reykjavík og með rekstri bílaleigu. Icelandia vill nýta það sem vel hefur verið gert í þeim fyrirtækjum sem heyra undir samstæðuna, t.d. það sem snýr að öryggi og gæðum.

Vélsleðaferð – MYND: Björgvin Hilmarsson / Icelandia

Það sem við köllum Icelandic Mountain Guides er í grunninn Íslenskir fjallaleiðsögumenn, fyrirtæki sem stofnað var af frumkvöðlum í fjallamennsku sem ævinlega hafa sett öryggi og gæði á oddinn – buðu upp á góða, örugga og faglega þjónustu í náttúru Íslands. Sama hafa Kynnisferðir gert í sínum dagsferðum.”

Íshellir kannaður – MYND: Icelandia

Að baki þessu öllu býr væntanlega trúin á að íslensk ferðaþjónusta eigi framtíð fyrir sér.

„Sannarlega. Ísland er fremur dýr áfangastaður en við þurfum að nýta okkur betur tæknina og auka þannig hagkvæmni. Neytendur eru orðnir vanir að þjónusta sig sjálfa, hvort sem það er við kassann í Bónus eða í bankanum. Við hjá Icelandia erum að fjárfesta mikið í upplýsingatækni til að auka sjálfvirkni í ferlum til að létta á starfsfólkinu og til að gera viðskiptavinum kleyft að afgreiða sig sjálfa á þægilegan hátt. En til að réttlæta fjárfestingar á þessu sviði þarf að ná ákveðinni stærð.

Afgreiðsla fyrirtækja Icelandia á BSÍ – MYND: ÓJ

Risafyrirtæki eins og Get Your Guide, Expedia, Tripadvisor og Viator, hafa haslað sér völl í ferðaþjónustu um allan heim og eru okkur mikilvægir viðskiptavinir. Hinsvegar er hollt fyrir fyrirtæki eins og okkar að skipta við marga, fá viðskiptavini úr mörgum áttum – í gegnum ferðaskrifstofur, með beinu sambandi, og í gegnum OTA-skrifstofur (Online Travel Agencies), sem hafa vaxið á undanförnum árum.

Björn á skrifstofunni – MYND: ÓJ

Sjálf viljum við líka styrkja okkar eigin sölukerfi og erum að vinna að stóru þróunarverkefni. Við höfum tryggt okkur lénin Icelandia.com og Icelandia.is og ætlum að opna á nýju ári öfluga heimasíðu með miklu vöruframboði í íslenskri ferðaþjónustu, með áherslu á það sem við höfum að bjóða undir Icelandia-regnhlífinni. Ef eitthvað er í boði sem bætir vöruúrval okkar þá tökum við það í sölu. Þá gerum við líka sömu kröfur og við gerum til okkar sjálfra um öryggi og gæði. Gömlu síðunum okkar verður ekki lokað en þessi nýja Icelandia-síða er hugsuð til að styrkja okkar starf og markaðssetningu á Íslandi.“

Margir vilja sjá flugvélarflakið – MYND: Björgvin Hilmarsson / Icelandia

Icelandia er meðal stærstu fyrirtækja í ferðaþjónustunni. Eru ferðaþjónustufyrirtæki hér almennt of lítil og veikburða?

„Ég tel að í sumum geirum sé gott að sjá ákveðna samlegð. Það styrkir samkeppnishæfni landsins sem áfangastaðar. Það er líka gott hafa litlu fyrirtækin og frumkvöðlana, koma á gististað úti á landi þar sem eigandinn tekur á móti þér í lobbíinu klukkan 11 að kvöldi og svo sérðu hann aftur við morgunverðarhlaðborðið. Þetta er eitt af því sem ferðamaðurinn sækist eftir. Við höfum líka rætt það í þessari sameiningarvinnu okkar að halda í sérhæfinguna sem frumkvöðlarnir búa yfir. Þess vegna ætlum við halda vörumerkjunum lifandi – til að viðhalda sérþekkingunni á hverju sviði.”

Snorklað í Silfru – MYND: Icelandia

Er ekki ákveðin hætta á að allt fletjist út í stóru fyrirtæki, starfsfólk telji skynsamlegast að láta lítið fyrir sér fara? Ætlið þið að vinna gegn þessu?

„Já, stjórnendateymið vinnur með ráðgjöfum að því að halda í hefðir sem komnar eru inn í félagið. Sjálfur er ég með hendurnar í öllu, fylgist vel með, og hér er tiltölulega flatt skipulag miðað við svona stórt félag. Við erum mjög meðvituð um það öll að halda í það sem einkenndi hvert fyrirtæki og tryggði góða upplifun gestanna á Íslandi. Hvert sem ferðamaðurinn fer um landið þá dugar náttúran ekki sem slík til að tryggja góða upplifun. Okkar starf er hluti af upplifuninni.”

Hótelrútan í Ingólfsstræti í sumar – MYND: ÓJ

Stefnið þið á skráningu á hlutabréfamarkaði?

„Engin ákvörðun hefur verið tekin um það. Sterkir fjárfestar eru að baki félaginu, þar á meðal öflugir lífeyrissjóðir. Sá dagur getur alveg runnið upp að hlutafé verði boðið á almennum markaði en engin ákvörðun hefur verið tekin um það.”

Ferðaþjónustan sprakk út eftir bankahrun. Ferðamönnum fjölgaði hratt fram að heimsfaraldri. Endurheimtin í sumar var meiri en víðast og því er spáð að álíka margir komi á næstu árum og fyrir faraldurinn. Sumir telja okkur ekki alveg ráða við þennan fjölda, vöxturinn hafi verið of hraður – við ráðum ekki nógu vel við þetta. Hvernig horfir þetta við þér?

„Við þurfum að gæta okkar. Vöxturinn var gríðarlega mikill frá bankahruni þar til að Wow Air fellur 2019 en afkoman var ekkert sérstaklega góð hjá mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum. Ef við horfum á ferðaþjónustu heimsins sem köku þá fær Ísland bara örsmáa ræmu á sinn disk. Við eigum að geta laðað til okkar fleira fólk í framtíðinni þó að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum ekki að vaxa með sama hraða og var hér fyrir heimsfaraldur. Sá vöxtur var of hraður. Ég heyri það í kringum mig í gegnum stjórnarsetu hjá SAF að álagið vegna vaxtarins geti orðið of mikið.

Við eigum að taka gæði fram yfir magn. Ísland verður aldrei ódýr áfangastaður. Við þurfum frekar en áður að leggja áherslu á að upplifun ferðafólks sé góð og jákvæð – að það fái gæði fyrir peninginn sem það hefur kostað til í Íslandsheimsókn.

Borgarrútan við Skarfabakka – MYND: ÓJ

Nú er verið að spá 30 til 40 prósenta fjölgun í komum skemmtiferðaskipa á næsta ári. Það finnst mörgum vera ansi mikið. Af því að við erum með höfuðstöðvar hér við Skarfabakkann þá sá maður í sumar fólk þramma hér framhjá gluggunum með ferðatöskur, hundruð manna biðu eftir leigubílum. Mér var boðið þrefalt gjald fyrir að skutla fólki á hótel. Við þurfum að læra af þessu og gera betur – bæta upplifun fólksins. Við viljum ræða við Faxaflóahafnir um þetta. Það er hægt að setja kvóta á skipakomur. Noregur og fleiri ríki hafa sett reglur varðandi losun skipa í höfn. Við gætum gert það sama. Tilgreint líka að innviðir þoli aðeins tiltekinn fjölda farþega. 

Við Strokk – MYND: ÓJ

Við þurfum að leggja áherslu á lengd dvalar ferðafólks sem hingað kemur. Þú upplifir ekki allt Ísland á fjórum dögum. Ef dvalartími lengist þá fækkar flugferðum. Ferðaþjónustan er mjög flugdrifin. Við þurfum að leggja meiri áherslu á gæði, huga að orðspori okkar. Orðsporið er það dýrmætasta sem við eigum. Ef við förum á fínan og dýran veitingastað en fáum slaka þjónustu, þá tölum við um það, gleymum því aldrei – og látum aðra vita af því. Það sama gerist ef ferðamaður kemur til Íslands og fær ekki góða þjónustu og finnst allt vera yfirfullt þá ber hann þá upplifun með sér heim.

Ísland þolir fleiri ferðamenn en komu fyrir heimsfaraldur. Með meiri stýringu á framboði og verði hefur ferðatíminn lengst. Margir koma nú á vorin og haustin. Þó slæm veður bresti á, er almennt í lagi að aka hringinn í kringum landið árið um kring.”

Ferðafólk í Reynisfjöru – MYND: ÓJ

Erum við á mörkunum með að ógna orðsporinu með troðningstúrisma?

 „Ég held að við séum ekki enn farin að ógna orðsporinu en þurfum að gæta okkar, vanda okkur, sjá til þess að þjónustan sem við veitum sé alltaf framúrskarandi. Þegar ég kom til þessa félags vorum við með 140-150 rútur í rekstri. Nú eru þær 90 og við stefnum ekki á að fjölga þeim aftur. Við ætlum að bjóða gæðaþjónustu en ekki blása út þó að ferðamannafjöldinn aukist. Við höfum endurnýjað rútuflotann ört til að halda miklum gæðum. Það vantar rútubílstjóra um allan heim og við bregðumst við með því að einblína á gæðin. Hinsvegar sáum við þegar skemmtiferðaskipunum fór að fjölga mjög mikið, þá var farþegum ekið í gömlum rútum.”

Þarna ertu að viðurkenna að við séum einmitt farin að ógna orðsporinu.

„Já, kannski á afmörkuðum sviðum, eins og varðandi skipakomurnar. Þar erum við komin yfir mörkin og mættum gera betur með betri stýringu í samstarfi við hafnirnar og þá sem þjónusta skipin.”

Rútuplanið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar – MYND: ÓJ

Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar breytingar á rútuþjónustunni við Keflavíkurflugvöll, sem stundum sætir gagnrýni?

„Núverandi samningur við Isavia gildir til 2025 og því ekki von á breytingum á þeim tíma.  Það má búast við að rafmagnsrútur komi á markað á næstu árum og sjáum við þennan akstur færast fljótt yfir í rafmagn hjá okkur. Við erum með fastar brottfarir úr Reykjavík en sveigjanlegar frá Keflavíkurflugvelli. Yfirleitt fara flugvélar á réttum tíma en meiri breytileiki er á lendingartímum véla. Við höfum sett okkur þá vinnureglu að miða við að rúta fari af stað 40 til 45 mínútum eftir að vél lendir og höfum reynt að skerpa á þessu eftir að hafa fengið nokkra  gagnrýni í sumar. Alltaf má gera betur. Á álagstímum, eins og á morgnana þegar flugvélar koma frá Ameríku, fara bílar okkar með farþega með stuttu millibili. Svo getur fólk upplifað annað. Á meðan einn farþegi fer beint út með handfarangur sinn er annar miklu lengur í flugstöðinni, fer í Fríhöfnina og bíður eftir farangri. Það er erfitt að eiga við þetta. Töluverður tími líður milli véla og farþegar skila sér hægt út í rútu. Sá sem fer fyrstur í bílinn getur lent í því að bíða eitthvað en við upplýsum farþega okkar hvenær þess má vænta að rútan fari.”

Flugrútan bíður við flugstöðina – MYND: ÓJ

Væri ekki betra fyrir farþega ef fólksflutningar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur væri einfaldlega hluti af almenningssamgöngukerfinu, hvort sem það væri rekið af opinberum aðilum eða einkafyrirtækjum?

„Ég er nokkuð viss um að þjónustan yrði ekki góð. Almenningsvagnaþjónusta er öðruvísi rekin en fyrirtæki eins og okkar. Þá þyrfti að vera leiðakerfi, ákveðin tíðni, en ekki brugðist við aðstæðum hverju sinni. Þegar margar flugvélar koma síðdegis erum við tilbúin með sex til sjö rútur við Keflavíkurflugvöll. Það er aldrei uppselt í Flugrútuna. Ein rúta fyllist og heldur af stað. Sú næsta kemur strax og fer 10 mínútum seinna. Í almenningsvagnakerfi er ekki hægt að breðast við þessu. Þegar uppselt er í rútuna þurfa þeir sem ekki komust með að bíða hugsanlega í hálftíma eftir þeirri næstu ef áætlunin er þannig.

Ég sé ekki að það verði miklar breytingar á samgöngunum á næstunni. Strætó gengur milli flugvallarins og Reykjavíkur. Til viðbótar eru það leigubílarnir, bílaleigubílarnir, einkaflutningur á fínni bílum, flutningur á sérhópum og svo við með rútuþjónustuna. Það hefur verið rætt um fluglest en farþegafjöldinn dugar varla til að réttlæta hana. 

Auðvitað vildum við sjá fleiri Íslendinga nota Flugrútuna. Við erum alltaf að skoða hvað hægt er að gera til að bæta þjónustuna, erum með nýjar og góðar rútur og þriggja punkta belti í hverju sæti, frítt Wi-Fi og hleðslubanka í hverju sæti. Stór hluti viðskiptavina eru Bandaríkjamenn sem eru með mikinn farangur. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa gott farangursrými.”

Röð í flugrútuna á BSÍ – MYND: ÓJ

Þið fenguð þá aðstöðu sem þið hafið við Keflavíkurflugvöll eftir útboð. Eruð þið sátt við aðstöðuna og þjónustu Isavia?

„Já, við erum sátt, en vildum gjarnan sjá farþega í betra skjóli þegar þeir koma um borð í bílana okkar. En við erum ágætlega staðsett – rétt við útganginn á flugstöðinni. Gjaldið sem við greiðum er náttúrulega það sem við buðum – og við sitjum uppi með það. Auðvitað hefði útboðið mátt vera öðruvísi, annað en verð fengið vægi. Ekki var litið til reynslu af þessari þjónustu eða hugsað um hagsmuni viðskiptavina. Segja má að það sé skrýtið að fyrirtæki sem rekið hefur rútuþjónustuna frá 1979 hafi á endanum þurft að greiða hæst fyrir reksturinn. Fleira hefði mátt taka með í reikninginn. Auðvitað lendir það að einhverju leyti á farþeganum að greiða þetta háa útboðsgjald.”

Túristar stefna á Skólavörðustíg – MYND: ÓJ

Krafa samtímans er um umhverfisvæna flutninga og sjálfbæra ferðaþjónustu. Þið rekið hinsvegar flutningsþjónustu á dísilbílum. Beðið er eftir frekari rafvæðingu eða vistvænni orkugjöfum í stórum bílum. Hvað getið þið gert til að draga úr losun?

„Við leggjum töluverða áherslu á þessi mál. Erum með ISO14001-umhverfisvottun og gæða- og umhverfiskerfi Vakans og fylgjumst með kolefnisfótspori okkar. Flestir nýir fólksbílar sem hér eru seldir eru rafvæddir eða tengiltvinnbílar. Helmingur bílanna sem við keyptum á þessu ári fyrir bílaleiguna voru slíkir bílar. Þessi tækni er að ryðja sér til rúms í strætisvögnum. Við tókum í vor við flutningum á fólki frá flugstöðinni að bílaleigunum og notum rafbíl í það. Þá er dótturfyrirtæki okkar, Garðaklettur, að fá fyrsta rafdrifna dráttarbílinn til að nota í þjónustu við Eimskip og aðra viðskiptavini. Enn eru ekki fáanlegar rafmagnsrútur að neinu marki en við fylgjumst vel með þróuninni. Það er gríðarlega margt spennandi í þróun vistvænni orkugjafa. Í næsta útboði Strætó 2024 gerum við ráð fyrir að það miðist nær eingöngu við rafknúna vagna. Elstu strætisvagnar okkar eru frá 2016 og við erum að taka í notkun nýja vagna þó aðeins séu tvö ár eftir af rekstrartímabilinu. Einkafyrirtæki eins og okkar er hæfara til að endurnýja bílaflota heldur en opinbera fyrirtækið Strætó sem er með allt að 20 ára gamla vagna í notkun, sem menga miklu meiru en þessir nýju.

Við endurnýjum rúturnar mjög ört og allir götuvagnar okkar fylgja Euro 6-losunarstaðli. Þessar nýju rútur og vagnar menga miklu minna en eldri gerðir. 57 sæta rúta eyðir í dag litlu meira en stór Land Cruiser- jeppi.

Við ætlum okkur að vera í forystu við innleiðingu nýrrar tækni í rekstrinum og leggja okkar af mörkum til að bæta almenningssamgöngur, bjóða farþegum góða þjónustu, gæði og stundvísi.”

Ferðamenn og rafskútur í Reykjavík – MYND: ÓJ

Eiga kröfur á ferðaþjónustuna um umhverfisvitund og sjálfbærni ekki eftir að aukast á næstu árum?

„Ferðaþjónustan mun almennt fagna slíkum kröfum. Í þessu felast viðskiptatækifæri fyrir Ísland. Það eru ekki mörg lönd sem geta boðið 100 prósent græna orku – hvort sem þú hleður bílinn eða kveikir ljós á hótelherberginu. Hér er það hægt. Við gætum orðið fyrsta landið í heimi þar sem fólk ferðast um á bílaleigubílum knúnum rafmagni. Auðvitað eigum við enn langt í land, bæta verður hleðslunetið um landið. Flestir sem eiga rafbíla hlaða þá heima hjá sér. Reykjavíkurborg þyrfti að fjölga hleðslustöðvum í bílastæðahúsum í borginni og það sama þarf að gerast við hótel og gististaði á landinu. Þegar innviðir verða komnir gerist þetta hratt. Það eru komnir bílar sem draga allt að 600 kílómetra en ferðamaðurinn ekur að meðaltali 250 kílómetra á dag. Næturhleðsla rafbíls fer að duga í akstur á einum degi. Þekking ferðamanna á rafbílum er líka að aukast.”

Rútan í Bláa Lónið – MYND: ÓJ

Mörg stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins þrífast samt ekki síst á því að Íslandsferðir eru enn frekar stuttar. Flugfélögin tryggja sér margar flugferðir og sama á við um ykkur sem flytjið farþega um Suður- og Suðvesturland í dagsferðum. Þarf ekki að endurskoða þetta?

„Auðvitað er tilhneigingin sú að búa til hagstæða þriggja daga pakka sem gerir ferðamanninum kleift að sjá eitthvað af því helsta á Íslandi á skömmum tíma sitjandi í rútu. Í stað þess að segja að fólk þurfi að vera í 10 daga, fara um í bílaleigubíl, og borga 500 þúsund fyrir ferðalagið. Með meiri upplýsingagjöf gætum við þrýst betur á ferðamanninn og sannfært hann um að hann þurfi að dvelja lengur en í þrjá daga til að njóta landsins. Aðilar í ferðaþjónustu og Íslandsstofa hafa lagt áherslu á að lengja dvalartíma ferðamanna og  var hann lengri í sumar en fyrir heimsfaraldur. Áfram munu margir koma í stuttar ferðir, rétt yfir helgi með einum aukadegi, það sama og við Íslendingar gerum þegar að við skreppum í borgarferðir. Þetta á við um marga Breta sem koma hingað. Við þurfum að bjóða upp á báðar vörurnar.”

Túristar af gamla og nýja skólanum í Reykjavík – MYND: ÓJ

Þú nefnir Bretana. Heima hjá þeim er erfitt efnahagsástand og horfur almennt í efnahagsmálum heimsins eru tvísýnar. Á þetta eftir að hafa áhrif á íslenska ferðaþjónustu?

„Á móti kemur að dollarinn hefur verið að styrkjast og því er ódýrara en áður fyrir Bandaríkjamenn að ferðast til Evrópu. Við fylgjumst auðvitað með því hvaða áhrif hækkandi verð og orkukrísa í Evrópu hefur en höfum ekki orðið vör við að bókanir dragist saman. Ferðamálastofa gerir sér vonir um 2,4 milljónir farþega á næsta ári en flestir búast við hóflegri tölu og ferðamenn verði öðru hvorum megin við tvær milljónir. Búast má við aðeins minni eftirspurn frá Bretlandi og meginlandi Evrópu en annars hefði mátt vænta. En Asíumarkaðurinn á eftir að opnast að nýju. Ísland er á topp-fimm-lista stærstu ferðaheildsala í Asíu. Ég held að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af fjölda ferðamanna.”

Kajakferð – MYND: Björgvin Hilmarsson

Framundan er að semja um kaup og kjör. Margir í ferðaþjónustunni eru uggandi vegna óvissu um útkomuna. Hefur þú áhyggjur af þeim málum?

„Auðvitað viljum við að fólk njóti góðra launa, að ferðaþjónustufyritæki eins og önnur greiði góð laun. En á endanum er það viðskiptavinurinn sem þarf að greiða launin okkar. Fyrirtækin verða að vera arðbær. Vinnutími og yfirvinnugreiðslur eru meðal þess sem ferðaþjónustan hefur áhyggjur af. Flest fyrirtækin eru með opið allan sólarhringinn. Það verður að veita ferðafólkinu þannig þjónustu. Við getum ekki stytt vinnutíma eða ég sagt bílstjórunum mínum að aka bara hraðar til að þeir vinni innan styttri vinnutíma. Þetta mun þýða að við þurfum meiri mannskap og þar með eykst kostnaðurinn. Einhver þarf að greiða fyrir styttingu vinnutíma og launahækkanir. Það er bara viðskiptavinurinn sem gerir það. Ég rifja upp að þegar krónan var mjög sterk þá hafði þá áhrif á sölu ferða hingað. Við gætum verðlagt okkur út af borðinu. Þess vegna þurfum við að gæta vel að okkur.

Það verður líka að huga að álagsgreiðslum. Auðvitað er það tímaskekkja að einhver sem vinni 100 tíma á mánuði á nóttunni sé með sömu laun og sá sem vinnur fulla dagvinnu allar vikur. Þetta gengur ekki í samfélagi þar sem opnunartími hefur lengst mikið – hvað þá í ferðaþjónustunni sem starfar allan sólarhringinn. Nútímalegur vinnumarkaðurinn virkar ekki ef það er sérstakur hvati til að láta fólk aðeins vinna í dagvinnu.

Farþegar af skemmtiferðaskipi á leið í skoðunarferð um borgina – MYND: ÓJ

Ábyrgð okkar sem komum að kjarasamningum, hvort sem það eru fulltrúar atvinnurekenda eða launþega, er mjög mikil. Eins og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, hefur sagt, þá er efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar gríðarlega mikið. Hún er orðin lang mikilvægasta atvinnugrein landsins. Þess vegna verðum við að vera samkeppnisfær og tryggja að ferðaþjónustan verði áfram öflug atvinnugrein. Ef launahækkanir verða mjög miklar í öðrum atvinnugreinum, hvort sem það er í iðnaði eða í versluninni, þá fer það út í verðlagið og kemur niður á innkaupakörfu okkar allra. Það verður að vera innistæða fyrir þeim launahækkunum sem menn vilja ná fram. Ég er hræddur um að kröfugerðir verkalýðshreyfingarinnar séu langt umfram það sem inneign er fyrir.” 

Á fjórhjóli í Dyrhólafjöru – MYND: Björgvin Hilmarsson

Það stefnir þá líklega í kaldan vetur í kjaraviðræðum og samningagerð.

„Ég er nú enn að vona að þeir sem koma að samningagerð sjái hversu mikilvægt þetta er. Við erum að koma okkur í gang eftir heimsfaraldur. Ekkert land hefur farið eins hratt af stað aftur. Ég vona bara að þeir sem sitja við samningaborðið sjái tækifærin í því fyrir íslenskt atvinnulíf að halda þessu áfram. Þó að árið hafi verið gott eru fyrirtækin í ferðaþjónustunni mjög skuldsett. Bankarnir hafa stutt við fyrirtækin með því að lengja í lánum og fresta afborgunum. Nú er komið að því að greiða af þeim og svo þarf að endurnýja tæki og bæta innviði.”

Nýtt efni

„Aðkoma mín að ferðaþjónustunni hefur verið á ýmsum sviðum og ég hef fengið að starfa í greininni í meira en þrjá áratugi, þar af meira en aldarfjórðung í eigin rekstri. Á þessum árum hefur greinin okkar vaxið úr því að vera næstum því tómstundagaman fyrir áhugasama í það að vera stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar með öllum …

Veitingahúsarekstur á Íslandi getur verið töluverður barningur: Vaktafyrirkomulag er kostnaðarsamt og launin vega mjög þungt í rekstri, verð á hráefni er hátt og opinber gjöld ekki síður, einkum á áfengi. Veitingamenn bíða eins og aðrir að gengið verði frá kjarasamningum og það verði hægt að gera einhverjar áætlanir fram í tímann.  Þegar launin sem greiða …

Kauphöllin

Hlutabréfavísatalan Stoxx Europe 600 náði sína hæsta gilda á föstudaginn og hefur þá hækkað um nærri 70 prósent frá því mars 2020 þegar vísitala fór lægst í upphafi heimsfaraldursins. Vísitala Bloomberg sem fylgist með gengi evrópskra flugfélaga hefur á sama tíma hækkað um 23 prósent. Af stóru evrópsku flugfélögunum er Ryanair það eina þar sem …

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …