Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 þá hefur Fiskisund ehf. verið stærsti hluthafinn með 8,6 prósent hlut. Fyrir Fiskisundi fara þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson sem jafnframt er stjórnarformaður flugfélagsins.
Einar og meðfjárfestar hans hafa einnig átt hluti í Play í gegnum eignarhaldsfélögin Einir og Gnitanes en nú verða þau hlutabréf sameinuð bréfum Fiskisunds í nýju félagi sem heitir Leika fjárfestingar. Til viðbótar leggur fjárfestirinn Guðmundur Þórðarson bréf sín í Play inn í hið nýja félag en þau eru í dag skráð á eignahaldsfélagið Attis.
Að sögn Einars Arnar mun Leika fjárfestingar eignast um 93,6 milljónir hluta í Play eftir þessar breytingar og eru þar með talin þau bréf sem Leika keypti í nýafstöðnu hlutafjárútboði flugfélagsins. Eign Leika fjárfesting nemur um tíund af útgefnu hlutafé í Play og er markaðsvirði þessa hluts tæpir 1,3 milljarðar króna í dag.
Næst stærsti hluthafinn í Play er lífeyrissjóðurinn Birta sem er núna skráður fyrir 8,5 prósent hlut en sú hlutdeild mun hækka þegar nýtt hlutafé verður gefið út þar sem lífeyrissjóðurinn keypti 13 prósent af nýja hlutafénu sem selt var í nóvember. Fyrir þá fjárfestingu greiddi Birta 300 milljónir króna.