Samfélagsmiðlar

Komur skemmtiferðaskipa eru ekki bara böl – síður en svo

Aðalheiður Borgþórsdóttir skrifar

Af gefnu tilefni langar mig að tala aðeins um Seyðisfjarðarhöfn og þróun móttöku ferðamanna á höfninni í gegnum tíðina. Höfnin er ein af grunnnetshöfnum landsins, hefur verið mikilvæg höfn í samskiptum við meginland Evrópu frá örófi alda og frá náttúrunnar hendi er hún ein besta höfnin á Íslandi. Frá árinu 2004 hefur verið lögð áhersla á að laða skemmtiferðaskip til hafnarinnar og hefur það skilað árangri svo um munar. Á næsta ári eru bókaðar 114 komur með um 100 þúsund farþega. Norræna siglir þar að auki til Seyðisfjarðar með frakt, bíla og farþega til og frá Færeyjum og Danmörku árið um kring og eru það um 20 þúsund farþegar sem koma með ferjunni inn og út úr landi. Það má því með sanni segja að það sé líflegt á höfninni alla jafnan yfir sumartímann.

Starfsemin skapar fjölmörg heilsárs störf, telst okkur til að á höfninni og hjá Smyril-line séu það um 16 störf og að auki séu afleidd störf á höfninni um 20, þá aðallega yfir tímabilið frá apríl til september. Þessi umsvif hafa kallað á aukna afþreyingu, verslun, veitingar og aðra þjónustu. Í sumar voru reknir sjö veitingastaðir á Seyðisfirði, þrjár hönnunar- og minjagripaverslanir, handverksmarkaður og fleira. Gestir af skemmtiferðaskipunum fara í fjölbreyttar skoðunarferðir út úr bænum og dreifast þannig vel um svæðið.

Þegar komið er til baka er gengið um bæinn, kíkt inn á veitingastaði, keyptur lókal bjór eða minjagripir, prjónavörur og handverk frá svæðinu. Boðið er upp á skoðunarferðir innan fjarðar og utan með leiðsögn þar sem blandast saman náttúra, fræðsla og einstök upplifun undir stjórn leiðsögumanna sem hafa mikla og góða þekkingu á náttúru og sögu svæðisins.

Á höfninni er unnið að því að setja upp spennistöð fyrir landtengingu skipa, sú vinna hefur verið í gangi í nokkur ár og sér nú fyrir endann á henni. Aðstaðan á höfninni er fyrsta flokks en Seyðisfjarðarhöfn er eina höfnin sem státað hefur af þjónustuhúsi / terminal fyrir ferðamenn sem koma sjóleiðina til þessa.

Skemmtiferðaskipakomur skila höfninni miklum tekjum, verðmæta- og atvinnusköpunin er umtalsverð og allt tal um að þessi starfsemi sé ekki að skila neinu til samfélagsins og/eða þjóðarbúsins á bara alls ekki við rök að styðjast.

Hér er ferðamáti sem á rétt á sér og þær hafnir og fyrirtæki sem taka á móti og þjónusta skemmtiferðaskip hafa undir hatti Cruise Iceland unnið gott starf heima fyrir. Þessir aðila hafa unnið markvisst að því að mæta þeim áskorunum sem fylgir þeim aukna áhuga sem skipafélögin sýna á því að koma til Íslands. Bæði með því að dreifa skipum á fleiri hafnir, vinna að því að umhverfismálin séu tekin föstum tökum og að bæta innviði og þjónustu við ferðamenn sem vilja koma til Íslands þessa leiðina. Ég hvet fólk til þess að skoða það með opnum huga hversu mikilvægt það er að opna leiðir til Íslands um fleiri gáttir en flugvöllinn í Keflavík.

Varðandi mengun frá þessum skipum þá er unnið markvisst að því að sporna gegn henni og vilji menn kynna sér þá vinnu bendi ég á Faxaflóahafnir sem komnar eru hvað lengst. Mörg þeirra skipa sem eru í smíðum verða knúin náttúrugasi og rafmagni. Ferðaþjónusta mengar og eðlilegast væri ef fráfarandi ferðamálastjóri og fleiri sem talað hafa í sama tón og hann myndu taka heildar myndina til skoðunar frekar en að ráðast að einni greininni með þeim hætti sem þeir hafa gert í fjölmiðlum undanfarið.

Ég tek undir með formanni SAF samtakanna að það þarf að rannsaka, en ekki bara áhrifin sem skipakomurnar hafa á innviðina og kolefnasporið, heldur þarf að rannsaka allar hliðar ferðaþjónustunnar. Það þarf líka að vinna að því að „dreifa“ ferðamönnum um landið og að finna leiðina til þess. Þeim verður ekki dreift eins og mykju á tún. Innviðir þurfa þá að vera í lagi, markaðssetningin að ná til alls landsins og samstarf milli landshluta að vera á borði en ekki bara í orði, falin í fallega myndskreyttum skýrslum. Það þurfa að vera til hótel, vegasamgöngur, afþreying og aðgengi um allt land.

Um höfundinn: Aðalheiður er atvinnu- og menningarstjóri og fulltrúi sveitastjóra á Seyðisfirði. Hún hefur starfað við þróun ferðaþjónustu og menningarmála fyrir Seyðisfjörð og Austurland frá árinu 1998.

– Hafðu samband ef þú vilt birta grein á Túrista

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …