Samfélagsmiðlar

Unnið að því að bæta móttöku farþegaskipa

Vænst er 277 farþegaskipa til Reykjavíkur á næsta ári. Farþegar verða um 300 þúsund eða 78 prósentum fleiri en í fyrra þegar nokkur vandræði sköpuðust á hafnarsvæðinu þegar flestir komu. „Mikil vinna er nú í gangi hjá okkur og ferðaskrifstofum að búa svo um að ástandið í sumar endurtaki sig ekki," segir Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna

Óhætt er að segja að mikil fjölgun hafi orðið í komum farþegaskipa til Íslands, bæði risastórra skemmtiferðaskipa og leiðangursskipa, sem flytja færri farþega og koma gjarnan víðar við. Tölur frá Faxaflóahöfnum sýna að á þessu ári hafi bæði fjöldi skipa og farþega komist nærri því að jafna fjöldann sem kom 2019. Samkvæmt bókunarstöðu 30. október síðastliðinn má vænta mikillar fjölgunar á næsta ári þegar þessi geiri ferðaþjónustunnar hefur jafnað sig að verulegu leyti eftir heimsfaraldur. Nú er búist við 277 farþegaskipum til Reykjavíkur, skemmtiferðaskipum og leiðangursskipum, með 301 þúsund farþega. Veruleg fjölgun er um leið í hópi skiptifarþega. Þeir gætu orðið 85 þúsund árið 2023, fólk sem yfirgefur eða um fer borð í skip í Reykjavíkurhöfn.

Bókunarstaða 30. október 2022 – MYND: Faxaflóahafnir

Komið hefur fram gagnrýni á það hvernig staðið er að móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, ræddi í viðtali við Túrista í síðasta mánuði þá fjölgun skipa sem vænst er á næsta ári og nefndi vandræði sem sköpuðust í sumar við Skarfabakka þegar hundruð farþega af skipunum biðu eftir leigubílum. „Við þurfum að læra af þessu og gera betur – bæta upplifun fólksins. Við viljum ræða við Faxaflóahafnir um þetta. Það er hægt að setja kvóta á skipakomur. Noregur og fleiri ríki hafa sett reglur varðandi losun skipa í höfn. Við gætum gert það sama. Tilgreint líka að innviðir þoli aðeins tiltekinn fjölda farþega.” Auk þess að leiða eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu er Björn stjórnarmaður í SAF.

Túristi ræddi nú í desember við Skarphéðin Berg Steinarsson, sem kveður embætti ferðamálastjóra um áramótin. Hann gagnrýndi stefnuleysi í móttöku skemmtiferðaskipa – hversu langt væri gengið í því „að eftirláta tiltölulega þröngum hagsmunum að ákveða hvernig við ætlum að láta málin þróast – að hafnarstjórar hringinn í kringum landið geti ákveðið að fjölga komum skemmtiferðaskipa um 50 prósent milli ára – á sama tíma og við vitum að innviðir sem eru til staðar ráða ekki við það.” Niðurstaða Skarphéðins Berg er þessi: „Við erum á villigötum. Það verður ekki annað sagt. Við þurfum að forgangsraða í því hvernig við ætlum að nota okkar náttúruauðlindir, áfangastaði og kolefnisspor ferðaþjónustunnar. Er þetta besta ráðstöfunin? Ég hef miklar efasemdir um það.”

Faxaflóahafnir eru leiðandi á Íslandi í móttöku farþegaskipa. Sigurður Jökull Ólafsson var ráðinn markaðsstjóri Faxaflóahafna í sumar og leiðir það breytingastarf sem hafið er við móttöku skipanna á tímum nýrra viðhorfa í umhverfismálum og ferðaþjónustu. Vegna orða ferðamálastjóra um hafnarstjóra segir hann:

„Hafnarstjórar ákveða ekki hvaða skip koma til hafnar svo fremi að pláss sé fyrir það. Ákvarðanir um að takmarka skipakomur og farþegafjölda á dag þyrfti að taka á pólitískum vettvangi, eins og gert er í Noregi. Þar var líka pólitísk ákvörðun tekin um landtengingar í höfnum.”

Sigurður Jökull segir Faxaflóahafnir hafa skilning á því að margir hafi áhyggjur af örri fjölgun þessara stóru skipa, hvernig þau reyna á alla innviði og umhverfið.

Farþegaskip við Skarfabakka – MYND: Faxaflóahafnir

„Við leggjum áherslu á virðisaukningu með umhverfisvænum hætti. Á næsta ári tökum við í notkun öflugasta umhverfiseinkunnarkerfi (Environmental Port Index, EPI) sem til er í heiminum fyrir farþegaskip. Þetta er norskt kerfi en við verðum þau fyrstu utan Noregs að taka það í notkun. Markmið þessa kerfis er að skilgreina umhverfisspor farþegaskipa í höfn. Mælt er magn koltvísýrings, köfnunaroxíðs, svifryks – allra þátta sem varða loftgæði. Hvert skip þarf að skila öllum gögnum í síðasta lagi þremur sólarhringum eftir brottför og fær síðan einkunn sem notuð er til viðmiðunar þegar reiknað er út það gjald sem útgerð þess þarf að greiða. Því meira sem þau menga því hærra er gjaldið. Álögur hér verða þó lægri en í Noregi þar sem landtenging er enn ekki í boði fyrir stærri skipin við Skarfabakka. Markmiðið með þessu er að stuðla að umhverfisvænni farþegaskipaþjónustu – og á endanum sjá til þess að því að mest mengandi skipin komi ekki. Mælingar í Noregi hafa sýnt fram á mikinn árangur í þessum efnum. Þetta er gagnsætt kerfi. Hægt er að lesa úr gögnum þegar skipið er lagt úr höfn hvert umhverfissporið var, hvaða vélar voru hafðar í gangi, hvort hreinsibúnaður var notaður, hvaða olía var brennd – og hvort notuð var landtenging.”

Er vilji hjá skipafélögum, sem láta skip sín sigla undir hentifánum, að fylgja reglum í þeim löndum sem siglt er til – hafa þau samfélagslega ábyrgðarkennd?

„Já, þau hafa það. Þegar ég byrjaði í þessu í sumar kom það mér ánægjulega á óvart að kynnast því. Veigamesti drifkrafturinn í þessu er afstaða viðskiptavina skipafélaganna, sem er annt um umhverfið. Þeir sem sækjast eftir því að sigla um norðurslóðir vilja að það sé gert á sjálfbæran hátt – efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega. Þetta hefur leitt til þess að sjálfbærni er ofarlega á blaði í stefnumörkun þessara fyrirtækja, sérstaklega á það við um leiðangurskipin, sem eru minni en hefðbundin skemmtiferðaskip, og leggja að hér í gömlu Reykjavíkurhöfn. Vel flest stærri skipin eru komin með landtengibúnað. Skipafélögin taka þetta alvarlega af því að viðskiptavinirnir óska þess. Landtenging verður komin á Faxagarði næsta vor en við vinnum að því öllum árum að koma líka á tveimur landtengingum við Skarfabakka, þar sem stóru skipin leggja að. Það er töluvert flókin aðgerð sem krefst aðkomu fleiri aðila, orkuframleiðenda og dreifingarfyrirtækja. Vonandi næst að koma þessu á 2026. Þá verður hægt að slökkva á ljósavélum skipanna og nýta græna orku úr landi.”

Skarfabakki – MYND: Faxaflóahafnir

Þessu myndi fylgja mikill orkuflutningur. Sum þessara skipa eru eins og fljótandi kaupstaður.

„Norðmenn hafa náð mjög góðum tökum á þessu. Í Noregir eru flestar hafnir með landtengingar – fyrir ferjurnar og skemmtiferðaskipin.”

Erum við ekki að taka á móti of mörgum skipum – fleiri en við ráðum við að þjónusta?

„Það verður að skoða í víðu samhengi. Við hjá Faxaflóahöfnum lítum sérstaklega til virðisaukans. Mikill vöxtur hefur orðið í farþegaskiptum, þegar farþegar enda eða hefja ferð í höfn. Þeir fljúga þá til landsins, dvelja eina eða tvær nætur og fara um landið áður en þeir halda um borð – eða dvelja hér áður en þeir fljúga heim. Þetta er það sem allar hafnir í kringum okkur sækjast eftir. Lega landsins og nálægð við alþjóðaflugvöll vinnur með okkur. Slíkir skipafarþegar skila þrisvar sinnum meiru inn í hagkerfið en aðrir. Enn liggja ekki fyrir tölur um þetta hér en fjölgun þessara farþega er mikil – og þetta er það sem við stefnum að. Þetta kostar okkur meiri vinnu og undirbúning. Settar hafa verið upp miðstöðvar þar sem landamæraafgreiðslu er sinnt. Miðstöðin á Skarfabakka verður stækkuð fyrir næsta sumar. Stefnt er að því að reisa miðstöð sem verði fjölnota húsnæði, sem hægt er að nota fyrir ráðstefnur, fundi og viðburði á þeim tímum þegar skipin eru ekki að leggja að. Við höfum lagt áherslu á að sinna farþegaskiptunum vel. Þau hafa algjörlega breytt stöðunni. Leitt til virðisauka fyrir okkur og nærsamfélagið. Hlutverk hafnanna er að vera drifkraftur fyrir atvinnulíf og nærsamfélag.”

Þið búist við 277 skipum á næsta ári. Ræður kerfið við þetta – eru innviðir búnir fyrir þennan fjölda?

„Við erum að vinna að því.”

Lystiskip við Skarfabakka
Ferðafólk á Skarfabakka – MYND: ÓJ

Síðasta sumar gengu sögur af fólki í reiðileysi á Skarfabakka. Það hafi mikið vantað upp á að þessum gestum okkar væri sómasamlega sinnt.

„Þetta var mjög sérstakt sumar – eftir heimsfaraldur. Það voru vandræði um allan heim. Við vorum ekki búin undir þessa miklu og snöggu aukningu frekar en margir aðrir. Þetta verður ekki svona á næsta ári. Mikil vinna er nú í gangi hjá okkur, og ferðaskrifstofum sem sinna farþegum, að búa svo um að ástandið í sumar endurtaki sig ekki. Það verður betur tekið á móti fólki. Eitt verkefnið snýst um smáforrit sem farþegar geta notað til að nálgast upplýsingar um hvað hér er í boði og hvernig viðkomandi kemst niður í miðbæ. Þetta var gert í Kaupmannahöfn á þessu ári. Hér er unnið baki brotnu við að sjá til þess að þetta fari vel fram og sé til hagsbóta fyrir alla. Við erum t.d. að finna út hvernig hægt er að tengja hvalaskoðunarferðir við þessa farþegamóttöku.

Leiðangursskip við Miðbakka – MYND: ÓJ

Heimsfaraldurinn breytti miklu og innrásarstríð Rússa hefur leitt til þess að skemmtiferðaskipum hefur fækkað á Eystrasalti, áhugi á norðurslóðum hefur vaxið, Asía hefur ekki opnast að fullu. Allt þetta gerir að verkum að mikill áhugi er á ferðum til Íslands.”

Það er ekki ljóst hversu mikið farþegar skilja eftir sig. Fráfarandi ferðamálastjóri sagði í áðurnefndu viðtali við Túrista að heildartekjur af skemmtiferðaskipum væru 5 milljarðar á ári, þar af hafnargjöld 1,7 milljarðar. „Við áætlum að farþegar skili 3,3 milljörðum, ef miðað er við að hver farþegi eyði 5 þúsund krónum í landi.  Þetta er 1% af heildartekjum ferðaþjónustunnar. Miðað við kolefnissporið af skipunum, átroðninginn og mannmergðina er illa farið með það svigrúm sem við höfum. Við ættum ekki að nota kolefnisspor okkar í þetta,” sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson.

Samkvæmt könnun sem Cruise Iceland lét gera 2018 voru tölurnar hærri. Mestu munar þar um að könnun Cruise Iceland gerir ráð fyrir að hver viðkomufarþegi eyði miklu hærri upphæð en ferðamálastjóri nefnir: 18 þúsund krónum en ekki aðeins 5 þúsund krónum. Sigurður Jökull vill ekki kveða upp úr um það í hverju þessi munur liggur – á tölum Ferðamálastofu og Cruise Iceland, sem eru hagsmunasamtök hafna, ferðaþjónustuaðila , nærsamfélaga og umboðsmanna skipafélaganna.

„Ég tel tölur Cruise Iceland raunhæfar. Við vitum að mjög hátt hlutfall farþega fer í skipulagðar ferðir – í Bláa lónið, um Gullna hringinn, á suðurströndina. Þessar ferðir kosta sitt.”

Skoðunarrútan bíður farþega á Skarfabakka – MYND: ÓJ

Hluti af neikvæðri umræðu um komur skemmtiferðaskipa snýr að því að minni staðir eins og Ísafjörður og jafnvel Akureyri yfirfyllist af farþegum þegar tvö eða fleiri skip leggjast að. Er ekki skiljanlegt að margir hafi áhyggjur af þessu – og menguninni sem fylgir?

Skemmtiferðaskip á Akureyri í sumar – MYND: ÓJ

„Jú, alveg klárlega. Á vettvangi Cruise Iceland var búið til samræmt bókunakerfi í stíl við það sem þekkist í Noregi. Skipafélögin geta þá séð hversu mörg skip eru á Ísafirði tiltekinn dag og ákveðið að fara í staðinn til Akureyrar eða annað. Skipafélögin höfðu óskað eftir þessu enda hafa farþegar engan áhuga á að lenda í svona aðstæðum. Þessi skref hafa verið stigin til að stýra þessu betur. Hagsmunaaðilar héldu fund á Akureyri nýverið að ræða hvað hægt væri að gera til þess að dreifa skipum betur, bæta þjónustuna og tryggja að farþegar fengju meira út úr heimsókn til hvers áfangastaðar. Þessi geiri, eins og aðrir í ferðaþjónustunni, hefur vaxið hratt á síðustu árum og það er stöðug vinna að leysa úr þeim vandamálum sem fylgja. Eftir því sem ég kynnist betur þessum hluta ferðaþjónustunnar sem snýr að skemmtiferðaskipum þá hefur það komið mér skemmtilega á óvart hversu margt er verið að gera til að hafa góða stjórn á þessum málum. 

Áætlun um fjölda skipa og farþega á næsta ári er ekki nákvæm. Það eru alltaf einhver sem afboða komu Með innleiðingu á afbókunargjaldi í gjaldskrá 2023 vonumst við til að koma í veg fyrir slíka ónákvæmni og tryggja betur að áætlanir fram í tímann séu nærri rauntölum.” 

Sigurður Jökull á svölum Hafnarhússins – MYND: ÓJ

Verður móttaka farþegaskipa áfram veigamikill þáttur í íslenskri ferðaþjónustu?

„Já, ég held það – svo framarlega sem vjð sinnum þessu á umhverfsvænan og ábyrgan hátt,  tryggjum að allir hagaðilar fái sitt úr þessu, dreifingin verði góð og skipakomurnar í sátt við samfélögin, þá held ég að þetta verði mikilvægur hluti af íslenskri ferðaþjónustu.”

Nýtt efni

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …