Viðskiptaferðamönnum býðst nú í vaxandi mæli að stuðla að nýtingu vistvæns eldsneytis með því að greiða grænt aukagjald. Er þar með stigið stærra skref en þegar farþega býðst að kolefnisjafna flugferð sína með framlagi til mótvægisaðgerða, eins og að planta trjám.
Nýlega greindi Qantas Airways frá samningum við fimm fyrirtæki sem greiða myndu grænt aukagjald vegna flugferða á þeirra vegum og eiga þessir peningar að notast til að draga úr útgjöldum flugfélagsins vegna kaupa á vistvænu eldsneyti á Heathrow-flugvelli í London. Fyrirtækin geta notað þetta framlag sér til góðs í kolefnisbókhaldi sínu. Fleiri flugfélög eru með svipuð verkefni í gangi, þeirra á meðal eru United, Lufthansa og Air France.
Eftir því sem fleiri fyrirtæki velja þessa leið verður hagkvæmara að framleiða vistvænt eldsneyti. Á síðasta ári var hlutfall þess aðeins 0,5 prósent af því flugvélaeldsneyti sem notað var en mörg flugfélög hafa sett sér markmið um að árið 2030 verði hlutfall þess af heildarnotkun komið í 10 prósent. Kolefnishlutleysi verður þá náð árið 2050, þegar hlutfall vistvæns eldsneytis á flugvélar verður um 65 prósent af heildarnotkun.
Viðskiptaferðamenn geta vegið þungt í þeirri viðleitni flugfélaga að hraða þessum umskiptum enda eru þeir ábyrgir fyrir um fimmtungi flugferða í heiminum. Hlutfallið er enn hærra í Evrópu, þar sem um þriðjungur flugferða er á vegum fólks í viðskiptalífinu. Fyrirtæki eru líklegri en almennir borgarar til að greiða aukalegt grænt eldsneytisgjald – bæði vegna fjárhagslegrar getu en líka beinharðra eigin hagsmuna.
Kaup á vistvænu eldsneyti laga kolefnisbókhald fyrirtækja og fegra ímynd þeirra. Ávinningur fyrirtækjanna verður um leið umhverfinu til góðs. Umhverfisverndarinnar segja þó best að viðskiptamenn eins og aðrir fækki flugferðum sínum og dragi þannig úr losun.