Forysta Evrópusambandsins vill koma í veg fyrir flótta fyrirtækja frá Evrópu til Bandaríkjanna, þar sem Biden-stjórnin hefur samþykkt áætlun um stórsókn í uppbyggingu innviða til að bregðast við loftslagsbreytingum og hefur ákveðið að verja 369 milljörðum Bandaríkjadollara í áætlunina. Vistvæn tækni er sá hluti evrópsks iðnaðar sem nú vex hraðast.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í ræðu sem hún hélt á Davos-ráðstefnunni í Sviss í dag að í undirbúningi væri löggjöf til að tryggja vistvænum evrópskum iðnaði fjárframlög. Þessar ráðstafnir væru hluti af grænni iðnaðarstefnu sambandsins. Vistvæn tækni og nýsköpun ættu heima í Evrópu sem verði kolefnishlutlaus árið 2050 – fyrsta heimsálfan til að ná því takmarki.
„Til að þetta takist setjum við fram nýja kolefnishlutlausa iðnaðaráætlun. Markmiðið er að beina fjárfestingum að öllum hlutum aðfangakeðjunnar sem geta haft áhrif. Sérstaklega munum við beina sjónum að því að einfalda ferla og hraða leyfisveitingum vegna nýrra og vistvænna tæknilausna við framleiðslu. ”
Ursula von der Leyen segir að Evrópusambandið muni eins og Bandaríkin stórauka framlög til að þróa grænar og vistvænar iðnaðarlausnir og styrkja þannig Evrópu í alþjóðlegri samkeppni á þessu sviði:
„Við leggjum þess vegna til að tímabundið verði vikið frá gildandi reglum um ríkisstuðning til að einfalda þessi mál og hraða þróuninni.”
Hún nefndi sem dæmi skattaafslætti og beina styrki vegna tiltekinna verkefna sem talið væri að stuðluðu að því að efla umhverfisvæna tækni. Einstök aðildarríki væru auðvitað misjafnlega í stakk búin til að styðja við þessa þróun með styrkveitingum og myndi ESB þess vegna leggja fram nauðsynlega fjármuni úr væntanlegum Fullveldissjóði sambandsins til að jafna aðstöðu ríkjanna.
Fullveldissjóðurinn, sem Ursula von der Leyen nefndi fyrst í haust hefur raunar enn ekki verið samþykktur af öllum aðildarríkjum ESB. Munar þar mest um að Þjóðverjar hafa ekki lýst yfir stuðningi sínum við sjóðsstofnunina.
Meðal þeirra sem hvatt hafa til meiri opinberra afskipta til að hraða orkuskiptum er Anders Forslund, forstjóri Heart Aerospace í Svíþjóð, sem Icelandair verður í samvinnu við um þróun tvinnflugvélar fyrir innanlandsflug.