Samfélagsmiðlar

Heimspólitík Tyrkja og túrisminn

Tyrkland hefur styrkt stöðu sína í heimsviðskiptum eftir að Rússar hófu árásarstríð sitt í Úkraínu. Útibú rússneskra fyrirtækja spretta upp í Tyrklandi og mörg bandarísk fyrirtæki hafa flutt starfsemi þangað frá Rússlandi. Ferðaframboð milli Rússlands og Tyrklands eykst stórlega á þessu ári.

Istanbul

Istanbúl

Í alþjóðapólitíkinni eru hlutirnir ekki málaðir í svörtu og hvítu. Línur eru sjaldnast alveg skýrar. Það nægir að benda á Tyrklandi sem dæmi. Tyrkir eru aðilar að NATO og eru í fréttum þessa dagana vegna andstöðu við inngöngu Svía í bandalagið. Eða ættum við frekar að segja að forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, sé í fréttum vegna þess hvernig hann nýtir sér í eigin þágu uppátæki manns í Svíþjóð sem telur að það geti orðið til góðs að brenna trúarrit múslima? Erdoğan er í baráttu vegna forsetakosninganna í maí og telur að sér komi vel að æsa lýðinn upp á móti þessum virðingarlausu múslimahöturum í norðrinu.

Divide et impera, sögðu Rómverjar, sem lærðu stjórnarlistina sem þannig er lýst af Grikkjum. Erdoğan kann þessa list – að deila og drottna. Nú reynir hann að sundra samstöðu norrænu ríkjanna með því að gefa Finnum undir fótinn með það að fá NATO-aðild þó Svíar hafi verið settir í skammarkrókinn.

Af fréttavef TRT, tyrkneska ríkisútvarpsins

Frá upphafi árásarstríðs Rússa í Úkraínu hefur Erdoğan iðkað mikla jafnvægislist, útvegað Úkraínumönnum dróna og ýmsan nauðsynlegan herbúnað. Nýlega var sjósett í Istanbúl fyrsta af fjórum hraðskreiðum kafbátaeftirlitsskipum sem Tyrkir eru að smíða fyrir Úkraínumenn. Sjálfir lokuðu þeir siglingaleiðinni um Bosfórussund inn á Svartahaf fyrir öllum herskipum strax í byrjun Úkraínustríðsins. Rússar gátu þá ekki beitt skipum sínum á öðrum hafsvæðum. Á sama tíma gætti Erdoğan að því að halda góðu talsambandi við Pútín. Hann fylgir ekki Vesturlöndum í víðtækum viðskiptaþvingunum þeirra gagnvart Rússum heldur lætur duga að fylgja eftir þeim ráðstöfunum sem Öryggisráð SÞ hefur samþykkt. Þáttur Erdoğans í því að liðka fyrir útflutningi á korni frá Úkraínu á ögurstundu styrkti líka stöðu hans í alþjóðapólitíkinni. Fátæk lönd heims fengu lífsnauðsynlegar kornsendingar.

Frá Istanbúl – MYND: Unsplash / Meg Jerrard

Á sama tíma og stöðugt dregur úr viðskiptum vestrænna ríkja við Rússa á NATO-þjóðin Tyrkir í stöðugum og vaxandi viðskiptum við Rússa. Útflutningur Tyrkja til Rússlands jókst stórlega á nýliðnu ári og innflutningur frá Rússlandi enn meira. Tyrkir eru háðir Rússum um gas og hefur Pútín viljað að Tyrkir sæu um að miðla gasi til annarra þjóða.

Rússar streymdu til Tyrklands í orlofsferðir og voru næst stærsti ferðamannahópurinn á eftir Þjóðverjum á síðasta ári. Ferðaþjónustan er mikilvæg fyrir Tyrki sem hafa að undanförnu upplifað mestu efnahagsþrengingar á 20 ára valdatíma Erdoğans. Til að eiga von um endurkjör trystir Erdoğan ekki síst á að peningar frá ferðafólki og rússneskum ólígörkum streymi áfram til landsins. Á fyrstu 10 mánuðum ársins 2022 komu 4,6 milljónir rússneskra ferðamanna til Tyrklands, sem var töluverð fjölgun frá árinu á undan. 

Bodrum í Tyrklandi – MYND: Unsplash / Mert Kahvec

Þrátt fyrir stríðið í Úkraínu flykkjast rússneskir ferðamenn til staða eins og Antalya og Bodrum í Tyrklandi þó enn vanti um þriðjung upp á fjöldann sem kom fyrir heimsfaraldur. En það sem vantar upp á í komum ferðamanna bæta Rússar með því að færa meira af utanríkisviðskiptum sínum til Tyrklands til að komast undan viðskiptaþvingunum Vesturlanda. Á síðasta ári opnuðu rússnesk fyrirtæki hátt í 1.400 útibú í Tyrklandi. Engin erlend þjóð er með jafn viðamikla starfsemi af þessum toga í Tyrklandi. Næstir koma Íranir. Það er og hefur verið töluverður völlur á tyrkneskum og írönskum auðmönnum í Tyrklandi.

Þessi miklu og vaxandi umsvif Rússa í Tyrklandi, sem segja má að sé hlið þeirra út í heiminn, hefur þau áhrif að tyrkneska þjóðarflugfélagið Turkish Airlines hefur fjölgað sætum í ferðum milli Rússlands og Tyrklands um 55 prósent á öðrum ársfjórðungi, frá apríl til júníloka, og jafnað með því framboðið á sama tímabili 2019. Tyrkneska lággjaldaflugfélagið Pegasus gerir ráð fyrir 102 prósenta aukningu á sama tíma og rússneska Aeroflot áætlar að fjölga sætum í Tyrklandsfluginu um 149 prósent, samkvæmt upplýsingum ferðavefsins Skift, þar sem fjallað er um stóraukið flug rússneskra viðskiptamanna til Tyrklands. 

Turkish Airlines / Unsplash
Flugvélar Turkish Airlines í forgrunni – MYND: Unsplash / Alireza Akhlagi

Þrátt fyrir þá einangrun sem fylgt hefur árásarstríði Pútíns reyna rússneskir viðskiptamenn að sinna sínum alþjóðaviðskiptum, halda lifandi samböndum víða um heim og finna leiðir framhjá viðskiptabanni Vesturlanda. Þar getur Tyrkland komið að gagni.

Landið sem á sínum tíma gekk í NATO vegna ógnarinnar frá Sovétríkjunum er nú orðið einskonar hlutlaust belti milli Rússlands og Vesturlanda. Það eru nefnilega ekki aðeins fyrirtæki í rússneskri eigu sem hafa hvert af öðru fært starfsemi til Tyrklands heldur hafa bandarísk fyrirtæki sem voru með starfsemi í Rússlandi fært sig til Tyrklands. Fyrir ferðaþjónustuna í Tyrklandi er þetta fagnaðarefni. Styrking Tyrklands sem miðstöðvar heimsviðskipta Rússa og þeirra sem vilja höndla við þá kemur sér vel fyrir ferðaþjónustuna, ekki síst Turkish Airlines, sem er það flugfélag heims sem flýgur til flestra áfangastaða, eða 340 flugvalla í 126 löndum. Turkish Airlines er í fimmta sæti á lista þeirra flugfélaga sem oftast fljúga um íslenska flugstjórnarsvæðið. 

Spennan sem ríkir í samskiptum á alþjóðasviðinu gerir öll viðskipti erfiðari og veldur mörgum ríkjum miklu tjóni. Tyrkland er hinsvegar í lykilstöðu enn sem komið er. Landið er tengimiðstöð í samskiptum austurs og vesturs. Hinsvegar getur það auðvitað haft áhrif ef upp úr sýður í samskiptum við þjóðir eins og Svía, sem nú er ráðlagt að halda sig fjarri Tyrklandi. Ef sænskir ferðamenn verða fyrir alvarlegum óþægindum í Tyrklandi mun það örugglega verka fráhrindandi á ferðamenn annarra vestrænna þjóða – ekki síst norræna ferðamenn. 

Jafnvægislist getur verið ábatasöm – en hún er hættuleg iðja.

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …