Samfélagsmiðlar

Nýi keppinauturinn eykur umsvifin

Farþegar á leið í flug með Norse frá Berlín.

Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur Icelandair ráð fyrir að framundan væri áttunda árið í röð sem flugfélagið væri réttum megin við núllið. Afkomuspáin byggði á sannfæringu stjórnenda um að meðalfargjöldin væru á uppleið og það myndi vega upp á móti hærri rekstrarkostnaði.

Þetta gekk hins vegar ekki eftir. Í lok sumarvertíðar sagði forstjóri Icelandair starfi sínu lausu og vísaði þá til þess að tekjuspáin hefði ekki gengið eftir.

Skýringin á þessari óhagstæðu verðþróun skrifaðist að hluta til á samkeppnina við Wow Air en ekki síður Norwegian. Því þegar þarna var komið sögu hafði norska flugfélagið stækkað mjög hratt og var það orðið umsvifamesta evrópska flugfélagið á JFK flugvelli í New York.

Ameríkuflug Norwegian takmarkaðist nefnilega ekki við brottfarir frá Noregi því félagið var líka stórtækt í höfuðborgum fjölda Evrópuríkja.

Sífellt fleiri farþegar, í leit að ódýrari farmiðum, áttu nú kost á því að komast beint yfir Atlantshafið, með hinu norska lágfargjaldafélagi, í stað þess að millilenda á Keflavíkurflugvelli. En eins og gefur að skilja er millilending sjaldnast fyrsti kostur ef hægt er að fljúga beint milli áfangastaða og hvað þá fyrir sambærilegt gjald.

Útgerð Norwegian gekk hins vegar ekki upp en það skrifast ekki bara á lágu fargjöldin heldur líka óheppni með flugflotann. Endalausar bilanir í Boeing Dreamliner þotunum gerðu félaginu erfitt fyrir og ekki batnaði staðan þegar Boeing Max þoturnar voru kyrrsettar í ársbyrjun 2019.

Svo kom Covid-19 til sögunnar og Norwegian losaði sig við Dreamliner-þoturnar og hætti flugi til Bandaríkjanna.

Við stórum hluta flugflotans tók hið nýstofnaða Norse Atlantic en meðal helstu hluthafa þess félags eru þeir Bjørn Kjos og Bjørn Kiise sem stýrðu Norwegian um langt árabil.

Flugrekstur Norse byrjaði ekki vel því tómu sætin voru alltof mörg í fyrra. Engu að síður er hugur í hluthöfum félagsins því þátttaka í hlutafjárútboði nú í vetur var góð en þar voru kynnt áform um að sækja hratt fram í Ameríkuflugi frá fjölda evrópskra stórborga á þessu ári.

Síðustu vikur hafa stjórnendur Norse Atlantic hrundið planinu í framkvæmd og í vikunni var tilkynnt um opnun starfsstöðvar í Róm. Frá og með komandi sumri er því gert ráð fyrir daglegum ferðum milli New York og höfuðborgar Ítalíu. Til viðbótar við þetta heldur norska félagið einnig úti flugi vestur um haf frá Ósló, London, París og Berlín.

Í öllum þessum fimm borgum verður Icelandair að fá um borð í þotur sínar fjölda farþega sem er á leið yfir Atlantshafið og Play gerir út á sama hóp í Berlín, París og London.

Eins og staðan er núna stefnir hins vegar í að Norse veiti íslensku flugfélögunum töluvert meiri samkeppni í ár en raunin varð í fyrra. Hvort Norðmennirnir nái að draga farmiðaverðið á markaðnum niður, líkt og Norwegian tókst, kemur svo í ljós á uppgjörsfundum Icelandair og Play þegar líður á árið.

Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …