Samfélagsmiðlar

„Sjálfbærni er lykillinn“

Tekst sundruðum heimi að koma sér saman um leikreglur til að bregðast við umhverfisógnum? Áhrifafólk velti þessu fyrir sér í Davos. Við Borgartún ræddi íslenska ferðaþjónusta mikilvægi sjálfbærni. „Hún er lykillinn," var fullyrt.

Davos

Davos í Sviss

„Samvinna í sundruðum heimi.” Þannig hljómaði yfirskrift fundar Alþjóðlega efnahagsráðsins í Davos í síðustu viku, þar sem áhrifafólk í stjórnmálum og efnahagslífi heimsins kom saman til að ræða um mörg brýnustu viðfangsefni samtímans. Þetta er elíta heimsins, fulltrúar ríkasta fólksins, einstaklingar með góð sambönd og mikinn áhrifamátt. 

Meðal þess sem heyra mátti í Davos var að horfur í efnahagsmálum væru kannski ekki eins dökkar og margir hafa óttast. Varfærnislegir bjartsýnistónar heyrðust þarna í glæsihöllum svissnesku skíðaparadísinnar: Útlitið fyrir árið er ekki jafn slæmt og óttast hafði verið. Hinsvegar var enginn skortur á ábendingum um að ýmsar hættur væru framundan, ekki síst um aukinn verðbólguþrýsting vegna endurkomu Kínverja eftir Covid-19. Verðbólgan kemur ekki síst illa við þróunarlöndin. Svo verður flókið fyrir vestræn ríki að koma verðbólgunni undir tvö prósent. Líklegra er að þau þurfi að sætta sig við hærri verðbólgu enn um sinn. 

Ferðamenn við Strokk
Ferðafólk við Strokk – MYND: ÓJ

Stærsta verkefni samtímans er þó auðvitað að bregðast við umhverfisógnum. Umræður um umhverfismál voru ofarlega á baugi í Davos. Eðlilegt er að margir velti fyrir sér trúverðugleika þotuliðsins í þeim umræðum og raunverulegum vilja til að knýja fram breytingar. Allir sem hugsa um umhverfismál hljóta að viðurkenna að meðfram nýjum tæknilausnum sem miða að kolefnishlutleysi þarf að draga úr neyslu og ósjálfbærri nýtingu auðlinda.

Suðurskautslandið
Ferðamenn á Suðurskautslandinu – MYND: Unsplash/Dylan Shaw

Þar kemur að því sem snýr að ferðaþjónustu. Hvernig ætla stjórnvöld, hagsmunasamtök í ferðaþjónustu og fyrirtækin í greininni að bregðast við ógnum troðningstúrisma gagnvart viðkvæmu lífríki, villtri náttúru og viðkvæmum samfélögum?  Það dugar ekki lengur að tala bara um sjálfbærni, hreinleika og virðingu við náttúruna. Það þarf beinar aðgerðir. Stjórna verður og takmarka umferð, sjá til þess að gestir skili meiru til náttúru og umhverfis en þeir taka í burtu. Orkuskiptin þurfa að ganga hraðar, laga verður aðfangakeðjur og alla tækni að nýjum umhverfiskröfum. Stjórnvöld í öllum löndum þurfa að bæta regluverk í þágu umhverfisins. 

Þegar hafa Bandaríkin og Evrópusambandið sett gríðarlega fjármuni í að bregðast við loftslagsvandanum og við sjóndeildarhringinn eru tæknilausnir sem boða betri tíð. Fyrirtæki og starfsgreinar lofa öllu fögru um breytta starfshætti, skipulag og lausnir – í þágu umhverfisins. Ferðaþjónustan, sem ber ábyrgð á um átta prósentum af losun gróðuhúsalofttegunda, er komin á fulla ferð við að innleiða ný vinnubrögð.

Skúli Mogensen talar á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar – MYND: ÓJ

Sjálfbærni- og umhverfismál voru ekki bara á dagskrá á fundum ríka fólksins í Davos heldur líka í litlum fundarsal í Húsi atvinnulífsins við Borgartún á föstudag, þar sem íslenska ferðaþjónustan hélt Nýársmálstofu sína.

Meðal þeirra sem þar töluðu var Skúli Mogensen, sem fyrir nokkrum árum flutti mikinn fjölda fólks til landsins á lágum fargjöldum WOW-flugfélagsins en starfrækir nú gistiaðstöðu í Hvammsvík við Hvalfjörð þar sem sjálfbærni er leiðarljósið. Skúli segir að viðhorfsbreyting hafi orðið eftir Covid-19, fólk horfi meira til upplifunar en sé minna upptekið af efnahagslegum þáttum, kunni meira að meta nærumhverfi sitt, vilji huga betur að sjálfbærni – hvað raunverulega skipti máli. Skúli lýsti eindreginni andstöðu við að Ísland seldi hreinleikavottorð raforku til erlendra fyrirtækja sem vilja minnka kolefnisfótspor sitt. „Persónulega finnst mér þetta alveg galið,” sagði Skúli og vill að þessi viðskipti verðis stöðvuð sem fyrst. „Vörumerkið Ísland er ómetanlegt,” sagði ferðabóndinn í Hvammsvík og hvatti til þess að Íslendingar mörkuðu sér skýrari umhverfisstefnu og fylgdu henni – hyrfu frá stóriðjustefnunni. 

Hannes Sasi Pálsson, Pink Iceland, í myndbandi á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar

Hvers vegna skiptir sjálfbærni máli? Þannig var spurt í myndbandi sem sýnt var fundargestum Nýársmálstofu. Hannes Sasi Pálsson, meðaeigandi Pink Iceland, svaraði spurningunni svona:

„Ef við erum ekki sjálfbær þá er þessu sjálfhætt. Við höfum ekkert að gera nema við höfum aðgang að þessari náttúru og því samfélagi sem við erum að nýta í okkar starfsgrein. Ef þetta er ekki til staðar þá höfum við ekkert að gera. Sjálfbærni er lykillinn, hún er allt.”

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …