Samfélagsmiðlar

„Sjálfbærni er lykillinn“

Tekst sundruðum heimi að koma sér saman um leikreglur til að bregðast við umhverfisógnum? Áhrifafólk velti þessu fyrir sér í Davos. Við Borgartún ræddi íslenska ferðaþjónusta mikilvægi sjálfbærni. „Hún er lykillinn," var fullyrt.

Davos

Davos í Sviss

„Samvinna í sundruðum heimi.” Þannig hljómaði yfirskrift fundar Alþjóðlega efnahagsráðsins í Davos í síðustu viku, þar sem áhrifafólk í stjórnmálum og efnahagslífi heimsins kom saman til að ræða um mörg brýnustu viðfangsefni samtímans. Þetta er elíta heimsins, fulltrúar ríkasta fólksins, einstaklingar með góð sambönd og mikinn áhrifamátt. 

Meðal þess sem heyra mátti í Davos var að horfur í efnahagsmálum væru kannski ekki eins dökkar og margir hafa óttast. Varfærnislegir bjartsýnistónar heyrðust þarna í glæsihöllum svissnesku skíðaparadísinnar: Útlitið fyrir árið er ekki jafn slæmt og óttast hafði verið. Hinsvegar var enginn skortur á ábendingum um að ýmsar hættur væru framundan, ekki síst um aukinn verðbólguþrýsting vegna endurkomu Kínverja eftir Covid-19. Verðbólgan kemur ekki síst illa við þróunarlöndin. Svo verður flókið fyrir vestræn ríki að koma verðbólgunni undir tvö prósent. Líklegra er að þau þurfi að sætta sig við hærri verðbólgu enn um sinn. 

Ferðamenn við Strokk
Ferðafólk við Strokk – MYND: ÓJ

Stærsta verkefni samtímans er þó auðvitað að bregðast við umhverfisógnum. Umræður um umhverfismál voru ofarlega á baugi í Davos. Eðlilegt er að margir velti fyrir sér trúverðugleika þotuliðsins í þeim umræðum og raunverulegum vilja til að knýja fram breytingar. Allir sem hugsa um umhverfismál hljóta að viðurkenna að meðfram nýjum tæknilausnum sem miða að kolefnishlutleysi þarf að draga úr neyslu og ósjálfbærri nýtingu auðlinda.

Suðurskautslandið
Ferðamenn á Suðurskautslandinu – MYND: Unsplash/Dylan Shaw

Þar kemur að því sem snýr að ferðaþjónustu. Hvernig ætla stjórnvöld, hagsmunasamtök í ferðaþjónustu og fyrirtækin í greininni að bregðast við ógnum troðningstúrisma gagnvart viðkvæmu lífríki, villtri náttúru og viðkvæmum samfélögum?  Það dugar ekki lengur að tala bara um sjálfbærni, hreinleika og virðingu við náttúruna. Það þarf beinar aðgerðir. Stjórna verður og takmarka umferð, sjá til þess að gestir skili meiru til náttúru og umhverfis en þeir taka í burtu. Orkuskiptin þurfa að ganga hraðar, laga verður aðfangakeðjur og alla tækni að nýjum umhverfiskröfum. Stjórnvöld í öllum löndum þurfa að bæta regluverk í þágu umhverfisins. 

Þegar hafa Bandaríkin og Evrópusambandið sett gríðarlega fjármuni í að bregðast við loftslagsvandanum og við sjóndeildarhringinn eru tæknilausnir sem boða betri tíð. Fyrirtæki og starfsgreinar lofa öllu fögru um breytta starfshætti, skipulag og lausnir – í þágu umhverfisins. Ferðaþjónustan, sem ber ábyrgð á um átta prósentum af losun gróðuhúsalofttegunda, er komin á fulla ferð við að innleiða ný vinnubrögð.

Skúli Mogensen talar á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar – MYND: ÓJ

Sjálfbærni- og umhverfismál voru ekki bara á dagskrá á fundum ríka fólksins í Davos heldur líka í litlum fundarsal í Húsi atvinnulífsins við Borgartún á föstudag, þar sem íslenska ferðaþjónustan hélt Nýársmálstofu sína.

Meðal þeirra sem þar töluðu var Skúli Mogensen, sem fyrir nokkrum árum flutti mikinn fjölda fólks til landsins á lágum fargjöldum WOW-flugfélagsins en starfrækir nú gistiaðstöðu í Hvammsvík við Hvalfjörð þar sem sjálfbærni er leiðarljósið. Skúli segir að viðhorfsbreyting hafi orðið eftir Covid-19, fólk horfi meira til upplifunar en sé minna upptekið af efnahagslegum þáttum, kunni meira að meta nærumhverfi sitt, vilji huga betur að sjálfbærni – hvað raunverulega skipti máli. Skúli lýsti eindreginni andstöðu við að Ísland seldi hreinleikavottorð raforku til erlendra fyrirtækja sem vilja minnka kolefnisfótspor sitt. „Persónulega finnst mér þetta alveg galið,” sagði Skúli og vill að þessi viðskipti verðis stöðvuð sem fyrst. „Vörumerkið Ísland er ómetanlegt,” sagði ferðabóndinn í Hvammsvík og hvatti til þess að Íslendingar mörkuðu sér skýrari umhverfisstefnu og fylgdu henni – hyrfu frá stóriðjustefnunni. 

Hannes Sasi Pálsson, Pink Iceland, í myndbandi á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar

Hvers vegna skiptir sjálfbærni máli? Þannig var spurt í myndbandi sem sýnt var fundargestum Nýársmálstofu. Hannes Sasi Pálsson, meðaeigandi Pink Iceland, svaraði spurningunni svona:

„Ef við erum ekki sjálfbær þá er þessu sjálfhætt. Við höfum ekkert að gera nema við höfum aðgang að þessari náttúru og því samfélagi sem við erum að nýta í okkar starfsgrein. Ef þetta er ekki til staðar þá höfum við ekkert að gera. Sjálfbærni er lykillinn, hún er allt.”

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …