Samfélagsmiðlar

Um 250 ferðaþjónustufyrirtæki af landsbyggðinni koma saman á Mannamótum

„Við erum að velta fyrir okkur að bæta við erlendum kaupendum, líka fagaðilum úr tengdum greinum," segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, um stærstu ferðakaupstefnu landsins sem haldin verður 19. janúar.

Mannamót 2022

Frá Mannamóti 2022

Ferðakaupstefnan Mannamót markaðsstofa landshlutanna verður haldin fimmtudaginn 19. janúar í Kórnum í Kópavogi.  Þetta er fjölmennasti viðburður sem íslensk ferðaþjónusta stendur fyrir. Um 250 fyrirtæki kynna þjónustu sína. Gert er ráð fyrir að 600-800 gestir mæti. Það er mikil gróska í greininni eftir heimsfaraldurinn og bókunarstaða á nýju ári lofar góðu. 

Á Mannamótum markaðsstofa landshlutanna gefst samstarfsfyrirtækjum markaðsstofanna vítt og breitt um landið tækifæri til að kynna sig fyrir fólki í ferðaþjónustu sem starfar á höfuðborgarsvæðinu, koma á nýjum viðskiptasamböndum og styrkja þau sem fyrir eru.  Fresta þurfti kaupstefnunni árið 2021 vegna kórónaveirufaraldursins, það dróst fram í mars að halda hana á síðasta ári og færri tóku þátt en venjulega.  Nú er staðan önnur. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, er talsmaður markaðsstofa landshlutanna: 

Arnheiður Jóhannsdóttir horfir yfir Hafnarstræti á Akureyri í sumar – MYND: ÓJ

„Nú erum við að ná fullum kröftum á ný. Við sjáum fram á góða þátttöku fyrirtækja utan af landi. Markmiðið er að hitta fulltrúa fyrirtækjanna í Reykjavík og kynna fyrir þeim ferðaþjónustuna á landsbyggðinni – auðvelda fólki að hittast og tengjast, sjá hvað er nýtt í boði og hvaða áherslur eru í starfinu á árinu.”

Mannamót
Mannamót 2022 – MYND: Markaðsstofur landshlutanna

Þið eruð með hugmyndir um að ná til enn stærri hóps á þessari mikilvægu ferðakaupstefnu fyrirtækja á landsbyggðinni.

„Við erum að velta fyrir okkur að bæta við erlendum kaupendum, líka fagaðilum úr tengdum greinum. Þetta er framtíðarmúsík. Við byrjuðum smátt 2014 í flugskýli flugfélagsins Ernis í Reykjavík, sem hefur verið verið í nánu samstarfi við okkur frá upphafi. Nú er þetta orðin stærsta ferðakaupstefnan á Íslandi. Mikill fjöldi gesta kemur. Mannamót er lykilstaður til að hitta fólk og fræðast um það sem er að gerast. Um leið er þetta nánast árshátíð greinarinnar. Og þar sem þessi viðburður hefur stækkað svona mikið veltum við auðvitað fyrir okkur hvort einhverju þurfi að breyta – hvernig við eigum að svara miklum áhuga. Þarna er mjög stór hópur samankominn sem hægt er að ná til á einum degi. Við hófum þess vegna stefnumótun í haust – leituðum svara við spurningum um það hvernig við viljum stækka og dafna.”

Hjólreiðar á Vestfjörðum
Hjólað á Vestfjörðum – MYND: Markaðsstofa Vestfjarða

Arnheiður segir að þetta feli í sér mörkun, gerð vörumerkis, ræða þurfi hvernig erlendir aðilar verði tengdir kaupstefnunni, eins seljendur tæknibúnaðar og fulltrúar þjónustugreina sem tengjast ferðaþjónustunni. 

Mannamót 2022 – MYND: Markaðsstofur landshlutanna

„Uppi eru hugmyndir um að opna kaupstefnuna almenningi og skoða hvernig nýta megi bæjarferðina betur fyrir okkar fólk, t.d. með fræðslu. Við buðum núna þeim fyrirtækjum sem sýna í Kópavogi á undirbúningsfund til að þjálfa sölustarfið. Það er mikilvægt að okkar fólk sé tilbúið að fara út á markaðinn.”

Vopnafjörður
Á Vopnafirði – MYND: Jessica Auer

Hversu mikilvæg er þessi kaupstefna fyrir ykkur?

„Hún er gríðarlega mikilvæg. Mannamót eru stórkostlegur viðburður á svo margan hátt, ekki bara vettvangur til að selja heldur líka tækifæri til að miðla þekkingu og læra, styrkja tengslanet og kynnast fjölmörgum nýsköpunarverkefnum.”

Vélsleðaferð - Geo Travel
Vélsleðaferð í Mývatnssveit – MYND: GEO TRAVEL

Margir í ferðaþjónustunni á landsbyggðinni telja sig afskipta – ekki fá næga athygli frá stóru fyrirtækjunum fyrir sunnan og utanlands. Er Mannamót viðleitni til að breyta þessu?

„Mannamót voru búin til í þeim tilgangi að breyta þessu. Okkur fannst við vera afskipt, ekki hafa rödd, ekki vera nægilega sýnileg. Þarna kemur saman mjög stór hópur fyrirtækja af landinu öllu, um 250 talsins, stór og smá – öll eru þau jöfn, og kynna mjög fjölbreytta þjónustu. Svo mæta fulltrúar allra ferðaskrifstofanna og fólk úr stoðkerfi greinarinnar. Þarna komum við okkar málum vel á framfæri.”

Vindbelgur í Grímsey, Norlandair
Úr Grímsey – MYND: Markaðsstofa Norðurlands

Nú er staða landshlutanna ólík. Það er mun meiri umferð á Suðurlandi en í hinum landshlutunum. Teljið þið ykkur samt eiga samleið á svona ferðakaupstefnu?

„ Við eigum samleið en erum líka í samkeppni. Það er kannski það sem er einmitt svo fallegt við Mannamót. Við lærum hvort af öðru. Suðurland tekur kannski fyrstu skrefin. Við hin fylgjum á eftir og getum nýtt okkur reynslu Sunnlendinga – og vonandi gert betur. En það eru líka verkefni á minna sóttum landssvæðum sem sprottið hafa af hugmyndum sem orðið hafa til af þörfinni að sækja fram – skapa eitthvað nýtt til að draga fólk að.

Já, við eigum samleið, en það er klárlega samkeppni – hiti og læti – en það gerir þetta skemmtilegt.”

Skógarböðin
Skógarböðin við Akureyri – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …