Samfélagsmiðlar

Áföll geta orðið til góðs

Kýpverjar hafa orðið að breyta markaðssetningu sinni og sækja ferðamenn í fleiri áttir eftir að Rússarnir hurfu. Nú er lögð áhersla á meiri fjölbreytileika, sjálfbæra ferðaþjónustu fremur en troðning á strandstöðum eyjarinnar. Eftir stefnubreytinguna hefur einstaklingsferðum til Kýpur fjölgað til muna á kostnað pakkaferða.

Kýpur

Kakopetria á Kýpur

Eftir innrás Rússa í Úkraínu og ferðabann Evrópulanda á árásarþjóðina missti ferðaþjónustan á Kýpur mikilvæga viðskiptavini: Rússa og Úkraínumenn. Þetta áfall kom í beinu framhaldi af heimsfaraldrinum. Rússneski markaðurinn hafði lengi verið gríðarlega mikilvægur fyrir Kýpverja. Rússar og Úkraínumenn voru 22 prósent ferðamanna á Kýpur fyrir heimsfaraldur og stríð. Nú er þessi hópur horfinn – en aðrir hafa fyllt skörðin að verulegum hluta. Tekjufallið er þó töluvert.

Ferðavefurinn Skift hefur eftir aðstoðarferðamálaráðherra Kýpur að fjárhagslegur skaði af brotthvarfi Rússa nemi um 600 milljónum evra á ári. Rússarnir sem áður fóru til Kýpur halda nú til Tyrklands, sem tekur þeim opnum örmum. 

Nissi-strönd í Ayia Napa – MYND: Unsplash / Secret Travel Guide

Árið 2019 komu 3,9 milljónir ferðamanna til Kýpur. Yfirvöld ferðamála á eynni (gríska hlutanum) ákváðu á þessu góða metári að breyta um stefnu í kynningu á landinu. Áður hafði áherslan verið lögð á sól og strandlíf en fyrirséð var að þær áherslur yrðu ekki sjálfbærar til lengdar. Jafnvel þó troðningstúrismi væri ekki orðinn að vandamáli þá stefndi í þá átt. Menn hófust handa við að endurskoða ferðamálastefnuna og létu heimsfaraldurinn ekki stöðva þá vinnu. 

Sögulegar minjar – MYND: Unsplash / Erik Karits

Nú er ekki lögð áhersla á það lengur á Kýpur að fjölga endilega sem mest ferðafólki heldur er ætlunin að vöxturinn verði sjálfbærari. Þróa á ferðaþjónustu út í sveitum og beina henni meira að náttúruupplifun og menningu. Markmiðið er að fleiri Kýpverjar en áður njóti góðs af ferðaþjónustunni, leitast á við draga fólk víðar um eyna á öllum árstímum og draga þannig úr álagi á einstaka strandbæi og innviði þeirra. Um 70 prósent ferðamanna á Kýpur hafa komið í pakkaferðum á strandstaðina. Rússarnir settu flestir stefnuna á þessa staði en flatmaga nú á tyrkneskum sólarströndum.  

Það verður auðvitað ekki einfalt fyrir Kýpverja að breyta ímynd landsins meðal ferðafólks, sem tengt hefur ferðir þangað við sólböð og strandlíf. Nú verður reynt að opna augu gesta fyrir litríkum þorpum á landsbyggðinni, sem stjórnvöld ætla að votta og kynna vegna sjálfbærni, upprunaleika, náttúrufegurðar og annarra eiginleika. Í þessum þorpum fer ferðamönnum þegar fjölgandi. 

Á Kýpur – MYND: Unsplash / Philipp Trubche

Nú er svo komið á Kýpur að meira en helmingur ferðamanna kemur á eigin vegum, fólk sem fer víðar um en pakkaferðalangarnir forðum, koma á öllum tímum árs og eyða peningum á fleiri stöðum en áður. Þá hefur þessi uppgangur í einstaklingsferðum orðið hvati fyrir flugfélög að fjölga ferðum til Kýpur.

Wizz Air og Ryanair hafa bæði komið upp starfsstöðvum á Kýpur og fjölgað ferðum þangað. Wizz Air hefur boðað nýjar flugleiðir milli Kýpur og Aþenu, Prag og Tel Aviv. Í stað Rússanna koma nú fleiri ferðamann frá Þýskalandi, Póllandi, Ungverjalandi, Frakklandi, Austurríki, Ítalíu, Sviss og Ísrael.

Á nýliðnu ári komu 3,2 milljónir ferðamanna til Kýpur eða um 90 prósent af fjöldanum á metárinu 2019 og meðal dvalartími hvers ferðamanns lengdist um einn sólarhring frá 2019. 

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …