Samfélagsmiðlar

Bandaríkin lokka færri en áður

Ferðafólk skilar sér hægar til Bandaríkjanna eftir heimsfaraldur en á vinsælustu ferðaslóðir Evrópu. Meðal skýringa sem nefndar eru á þessu er sú staðreynd að Bandaríkin eru skemmra komin en Evrópulönd í umhverfismálum og í innleiðingu sjálfbærni í ferðaþjónustu.

Aðflug við John Wayne-flugvöll í Kaliforníu

Bandaríski ferðageirinn þarf að endurskoða þau skilaboð sem hann sendir frá sér um það hvað verið er að gera í sjálfbærnimálum til að standast samkeppni við Evrópulönd.

Tilfinningin sem margir evrópskir ferðamenn hafa er ranglega sú að í Bandaríkjunum sé lítið eða ekkert verið að huga að því að gera ferðaþjónustuna sjálfbærari, hefur ferðavefurinn Skift eftir forystumanni landssamtaka fyrirtækja í Bandaríkjunum sem þjóna ferðafólki sem kemur til landsins, The International Inbound Travel Association, IITA. Ferðamaðurinn vilji fá fleiri staðreyndir á borðið í stað háfleygra lýsinga. Flestir eru sammála um að árið 2023 þurfi að vera ár markvissra aðgerða til að bregðast við loftslagsvandanum. Þessi málefni voru á dagskrá ráðstefnu sem haldin var á dögunum á vegum IITA.

Á Times-torgi í New York – MYND: Unsplash/Preet Patel

Staðreyndin er hinsvegar sú að Bandaríkin eru fremur aftarlega á merinni í sjálfbærnimálum og viðurkenna ferðafrömuðir vestra að það geti átt þátt í því að ferðaþjónustan þar hafi ekki tekið jafn vel við sér eftir heimsfaraldur og í Evrópu. Evrópumenn skila sér hægt aftur í ferðir til Bandaríkjanna, láta flestir duga fyrsta kastið að heimsækja nærliggjandi lönd, eins og kannanir hafa sýnt og Túristi fjallað um. Nú hefur verið birt ný könnun sem Ferðamálaráð Bandaríkjanna (The National Travel and Tourism Office) lét gera og stafestir hún að endurheimt mikilvægustu evrópsku ferðamannahópanna verði hæg í Bandaríkjunum. Fjöldi ferðamanna frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Þýskalandi verður ekki sá sami og 2019 fyrr en að tveimur eða þremur árum liðnum, 2025 eða 2026. 

Disneyland í Kaliforníu – MYND: Unsplash/Avel Chuklanov

Meðal skýringa á þessu er sú staðreynd að stöðugt fleiri ferðamenn taka upplýsta ákvörðun um hvert skuli haldið og vega þá sjónarmið umhverfisverndar og krafan um sjálfbærni æ þyngra. Samkvæmt könnun Alþjóða ferðamálaráðsins segjast um 75 prósent aðspurðra ætla að velja sjálfbæra ferðakosti í framtíðinni. Meðal þeirra sem hafa þegar breytt um stefnu út frá þessum viðhorfum er Kýpur, sem þurfti að finna leið til að bæta upp það sem tapaðist með brotthvarfi Rússa af baðströndum eyjarinnar. Nú leitast ferðaþjónusta Kýpverja við að lokka til sín fleira ferðafólk frá Vestur-Evrópu með því að draga úr áherslu á hið ljúfa og eyðslusama strandlíf en draga betur fram þann sjarma sem þorp og sveitir búa yfir, varpa meira ljósi á menningu og fjölbreytileika þjóðlífsins. 

Nú ræða forráðamenn bandarískrar ferðaþjónustu hvaða leiðir megi fara til að bregðast við ákalli um fjölbreyttari og sjálfbærari ferðamöguleika. Meginþungi markaðsstarfsins hefur falist í að kynna flug til New York, heimsóknir til Los Angeles, í Disneyland og aðra skemmtigarða. Allt er það gott og blessað en troðningstúrismi er ósjálfbær og dugar ekki til framtíðar. Það verður að bjóða upp á fleiri og fjölbreyttari kosti, fá gestina til að fara víðar. En þá blasa við vandræði vegna þess hversu vanþróað samgöngukerfi Bandaríkjanna er í umhverfislegu tilliti.

Á vegum úti vestra – MYND: Unsplash/Jared Murray

Bandaríkin eru stórt land og flestir ferðast milli staða með flugi sem mengar mikið. Lestarkerfið í Bandaríkjunum er vandræðalega lélegt miðað við það evrópska og er það eitt markmiða Biden-stjórnarinnar að efla það. Þar er mikið verk fyrir höndum. Rafbílavæðingin er líka skemmra á veg komin í Bandaríkjunum en í Evrópu. Samkvæmt spá markaðsrannsóknafyrirtækisins Statista verða 4,4 milljónir rafbíla seldir í Evrópusambandslöndum árið 2026 en aðeins 1,9 milljónir í Bandaríkjunum. Þetta eru dæmi um það sem þvælist fyrir í markaðssetningu Bandaríkjanna sem áfangastaðar stöðugt kröfuharðari og umhverfismeðvitaðri erlendra ferðamanna. 

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …