Samfélagsmiðlar

Fjöldi flugmanna Play sækir um hjá Icelandair

Munurinn á launum flugmanna hjá íslensku flugfélögunum tveimur er þónokkur sem endurspeglast í lægri einingakostnaði hjá Play. Tekjurnar eru aftur á móti hærri hjá Icelandair.

Play

Flugfloti Play mun telja 10 Airbus þotur í sumar en Icelandair nýtir sem fyrr eingöngu Boeing flugvélar.

Icelandair auglýsti nýverið eftir flugmönnum til starfa fyrir sumarvertíðina. Tekið var fram í auglýsingu að sérstaklega væri leitað eftir fólki með reynslu þar sem þjálfunarsetur félagsins í Hafnarfirði er fullbókað.

Icelandair lofar ekki heilsárs ráðningnum til að byrja með en engu að síður bárust á fjórða tug umsókna frá flugmönnum og flugstjórum Play samkvæmt heimildum Túrista. Hjá Play starfa í dag um sjötíu flugmenn og fimmtíu bætast við á næstunni þegar flugflotinn stækkar úr sex þotum í tíu.

Það er því stór hluti flugmanna félagsins reiðubúinn til að fara yfir til keppinautarins en munurinn á launum flugmanna Icelandair og Play er þónokkur. Grunnlaun flugmanna Play eru 470 til 590 þúsund krónur á mánuði á meðan Icelandair borgar á bilinu 850 til 870 þúsund kr. Flugstjóri hjá Play er með tæplega 1,1 milljón á mánuði. Við þessi grunnlaun bætast akstursstyrkir, dagpeningar og fleira hjá flugfélögunum báðum.

Til viðbótar við hærri laun þá mun vinnuálagið almennt vera minna hjá Icelandair og það félag býður jafnframt upp á sætaferðir til og frá Keflavíkurflugvelli. Áhafnir Play þurfa sjálfar að koma sér út á flugvöll.

Heimildir Túrista herma að Icelandair ætli að ráða á bilinu 10 til 20 flugmenn í þetta skiptið.

Íslenskir og erlendir flugmenn sækja um

Aðspurður um þessa ásókn flugmanna Play í störf hjá Icelandair segist Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, engar upplýsingar hafa en staðfestir að í heildina hafi umsóknir verið á annað hundrað talsins.

„Fjöldi umsókna sem barst var í takt við okkar væntingar og bárust umsóknir frá bæði íslenskum og erlendum flugmönnum. Sumaráætlunin okkar er mjög umfangsmikil og nú er verið að ráða marga. Jafnhliða þeim fylgir eðli málsins samkvæmt mikil þjálfun og nú er svo komið að þjálfunarsetur okkar í Hafnarfirði er fullbókað og höfum við meira að segja gripið til þess ráðs að senda flugmenn í hermaþjálfun erlendis til þess að anna eftirspurn. Því var ákveðið að auglýsa eftir flugmönnum með reynslu, sem þurfa ekki jafn mikla þjálfun til þess að geta hafið störf,“ segir Guðni.

ASÍ gagnrýndi kjör flugverja í upphafi

Þegar Play var að hefja flugrekstur sumarið 2021 þá deildi forysta ASÍ á launakjör flugfreyja og -þjóna og vísaði til þess að stéttarfélag áhafna, ÍFF, hefði samið við stofnendur Play löngu áður en áhafnir voru ráðnar. Félagsmenn sjálfir hefðu því lítið haft um samninginn að segja en ÍFF var upphaflega stéttarfélag flugmanna Wow Air.

Einingakostnaðurinn lágur

Eitt af því sem stjórnendur Play hafa gert töluvert úr er hversu lágur einingakostnaður félagsins er, þ.e. kostnaðurinn á hvern floginn kílómetra. Þessi stærð er notuð til að bera saman rekstur flugfélaga en þar vegur launakostnaður þyngst því kostnaður við kaup á eldsneyti er dreginn frá.

Á síðasta fjórðungi 2022 var einingakostnaðurinn hjá Play er þriðjungi lægri en hjá keppinautnum en einingatekjur Icelandair voru aftur á móti ríflega helmingi hærri sem endurspeglast í afkomunni. Allt árið í fyrra tapaði Icelandair til að mynda 800 milljónum króna en Play 7,5 milljörðum kr.

Þess ber að geta að Túristi óskaði eftir viðbrögðum frá Play á þessum áhuga flugmanna félagsins á störfum hjá Icelandair og verða svörin birt þegar þau berast.

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …