Samfélagsmiðlar

Mikill ferðahugur á fyrri helmingi árs

Þrír af hverjum fjórum evrópskum ferðalöngum ætla að standa við þá áætlun að ferðast á fyrri helmingi ársins 2023 þrátt fyrir versnandi efnahag, samkvæmt rannsókn Evrópska ferðamálaráðsins. Þeim fjölgar sem ferðast ætla innan álfunnar. Fólk ætlar að ferðast en draga úr kaupum sínum og neyslu.

Grote Markt í Brugge

Grote Markt í Brugge

Helsta niðurstaða könnunar Evrópska ferðamálaráðsins (The European Travel Commission, ETC) er að 77 prósent segjast standa við þá fyrirætlan að ferðast á fyrri helmingi ársins 2023. Þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur og óhug í fólki vegna árásarstríðs Rússa í Úkraínu og vaxandi spennu í heimspólitíkinni þá virðist stór hluti fólks ákveðinn í að láta ekkert af þessu raska fyrri áætlunum um að ferðast og njóta lífsins.

Þetta er staðfest í skýrslu Evrópska ferðamálaráðsins sem birt var í vikunni. Þar er reynt að rýna í það hvaða ferðaáætlanir Evrópubúar hafa það sem eftir lifir vetrar, í vor og byrjun sumars.  

Við konungshöllina í Madríd, á Plaza de Oriente – MYND: ÓJ

Eflaust kemur það ýmsum á óvart að flestir evrópskir ferðalangar, eða 77 prósent þeirra, ætli að leggja land undir fót á þessum fyrri helmingi ársins. Þetta er mikil fjölgun frá í fyrra eða sem nemur 16 prósentum. Nú vill fólk gleyma kórónaveirufaraldrinum og lætur leiðinlegar fréttir af hækkandi verði á orkugjöfum, matvælum og öðru ekki stöðva sig. Könnunin sýnir líka umtalsverða fjölgun í hópi þeirra sem hafa löngun til að ferðast um Evrópu utan eigin heimalands. Nú segjast 63 prósent aðspurðra ætla að ferðast til annarra Evrópulanda, 13 prósentum fleiri en 2022. 

Strandlíf á Vestur-Flandri – MYND: ÓJ

Athyglisvert er að sjá staðfestingu á því að Evrópubúar setja það í forgang að geta ferðast þó óvissa sé um efnahagsþróun og barátta við mikla verðbólgu standi enn. Fólk er enn ekki farið að draga úr ferðaútgjöldum. En hversu miklu gerir fólk ráð fyrir að eyða í ferðinni framundan?

Þjónn í París – MYND: ÓJ

Könnunin segir að 37 prósent Evrópubúa geri ráð fyrir því að eyða 1.000 til 2.000 evrum á mann í næsta ferðalagi. Þetta er fjölgun um sex prósent sem verða á þessu eyðslubili miðað við stöðuna í fyrra. Inn í það spila auðvitað verðhækkanir. Svo segjast 19 prósent aðspurðra búast við að eyða meira en 2.000 evrum. Líklega myndu allir íslenskir ferðalangar raðast í þennan eyðsluflokk. Á gengi dagsins svara 2.000 evrur til rúmlega 295.000 íslenskra króna. 

Luís Araújo, forseti ETC – MYND: ETC

Forseti Evrópska ferðamálaráðsins, Luís Araújo, sem jafnframt er í forsæti portúgalska ferðamálaráðsins, segir í tilkynningu um niðurstöður könnunarinnar: 

„Þessar nýjustu tölur sýna að ferðalög verða áfram á forgangslista Evrópubúa á fyrri árshelmingi. Þetta er fagnaðarefni, ekki síst að að verulegur hluti fyrirhugaðra ferðalaga verður um Evrópulönd. Sú tilhneiging lofar góðu fyrir ferðaþjónustuna og staðfestir ákveðna seiglu greinarinnar á efnahagslegum óvissutímum í heiminum. Svo ferðaþjónustan geti nýtt sér þennan mikla ferðavilja og fyrirfram bókanir Evrópubúa verður hún að fylgjast vel með öllum hreyfingum og breyttum óskum neytenda og bregðast við með tilboðum við hæfi.“ 

Bjórsali í Brussel – MYND: ÓJ

Þrátt fyrir þessar jákvæðu horfur leiðir rannsókn Evrópska ferðamálaráðsins í ljós að efnahagshorfurnar eru íþyngjandi að mati evrópskra ferðalanga. Aukinn ferðakostnaður veldur 23 prósentum aðspurðra áhyggjum og 18 prósent eru ekki í miklum ferðahug enda upptekin af eigin fjárhagsstöðu og efnahagshorfum.

Ferðamenn á veitingahúsi í Reykjavík – MYND: ÓJ

Efnahagsástandið veldur því að ferðalangar leita meira fyrir sér áður en þeir kaupa og eru sveigjanlegri en áður í kauphegðun sinni. Ferðir eru keyptar fyrr, 44 prósent hafa þegar bókað næsta frí. Flestir sækjast eftir góðu veðri en næstum jafn margir telja hagstæð ferðatilboð úrslitaatriði. Þá gera 18 prósent aðspurðra ráð fyrir að versla minna, 16 prósent kaupa ódýrari gistingu og 15 prósent borða á ódýrari veitingahúsum til að halda niðri ferðaútgjöldum. 

Allar þessar upplýsingar koma ferðaþjónustunni að gagni og segja eitthvað um áhrif ferðamanna verða á ýmsar framleiðslu- og þjónustugreinar.

Vínsmökkun í Portó – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …