Þegar Rússar réðust inn á Úkraínu rauk verð á olíu upp og eldsneytisreikningar íslensku flugfélaganna urðu mjög háir. Icelandair greiddi í fyrra samtals 51 milljarð króna fyrir eldsneyti á þoturnar sínar sem er 11 milljörðum meira en árið 2019. Það ár flaug félagið engu að síður meira en á síðasta ári og þurfti líka að nota eyðslufrekari flugvélar því nýju Boeing MAX þoturnar voru kyrrsettar.
Hjá Play hljóðaði eldsneytisreikningurinn í fyrra uppá 8,4 milljarða kr. sem er miklu meira en áætlanir félagsins gerðu ráð þegar félagið fór í loftið sumarið 2021.
„Við gerðum ráð fyrir háu olíuverði, 660 dollurum á tonnið, sem var fáranlega há tala miðað við árin á undan. Svo enduðum við á að borga 1400 til 1500 dollara allt fyrsta árið,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play, í viðtali við Túrista í síðustu viku en þar ræddi hann meðal annars ástæður þess að stærstu hluthafar Play lögðu aukalega 2,3 milljarða í reksturinn í nóvember sl.
Síðustu mánuði hefur verð á olíu lækkað og í dag kostar tonn af þotueldsneyti 850 bandaríkjadollara sem er sambærilegt við það sem var á boðstólum dagana fyrir innrás Rússa þann 24. febrúar í fyrra. Þetta er þó ekki fyrsta sinn sem verð á olíu er á þessum slóðum því í byrjun desember kostaði eldsneytið álíka mikið og í dag. Síðan hækkaði það aftur og því ekki á vísan að róa með framhaldið.
Að segja til um þróun á olíuverði með einhverri vissu er næstum eins marklaust og að spá fyrir um gengi krónunnar. En ljóst má vera að ef eldsneytisverðið hækkar ekki mikið á næstunni þá ætti það að endurspeglast í betri afkomu hjá Icelandair og Play.
Félögin njóta þó ekki verðlækkana til fulls því bæði hafa gert samninga um kaup á eldsneyti út september næstkomandi á fyrirfram ákveðnum kjörum sem eru verri en býðst á markaðnum í dag.
Þannig hefur Icelandair fest verðið á 37 prósent af eldsneytisnotkuninni á fyrsta ársfjórðungi við 1.026 dollara. Play borgar aftur á móti 980 dollara fyrir 44 prósent af sinni notkun á þessu tímabili. Samningar flugfélaganna fyrir annan og þriðja ársfjórðung gera ráð fyrir lækkun en samt ekki undir núverandi heimsmarkaðsverð eins og sjá má hér fyrir neðan.
Þar sést líka að Play hefur fest verðið á stærri hluta af sinni eldsneytisþörf eða nærri helming á fyrri hluta ársins.