Samfélagsmiðlar

18 ferðir í viku frá Bandaríkjunum

Aukið Íslandsflug Delta í sumar skrifast ekki á viðbrögð við útrás Icelandair segir svæðisstjóri félagsins í samtali við Túrista. Hann segir Íslandsfluginu haldið áfram þrátt komandi breytingar á flugflota.

Jan Feenstra

Jan Feenstra er svæðistjóri Delta flugfélagsins í Norður-Evrópu og var hér á landi í síðustu viku.

Bandaríska Delta Air Lines hóf áætlunarflug til Íslands sumarið 2011 frá New York en hefur síðan þá bætt við ferðum frá Minneapolis og nú í sumar ætlar félagið að spreyta sig á áætlunarflugi hingað frá Detroit í fyrsta sinn.

Þrátt fyrir mikil umsvif þá hefur Delta lítið gert af því að auglýsa ferðir sínar hér á landi en Jan Feenstra, svæðisstjóri Delta í Norður-Evrópu, segir flugfélagið vinna náið með íslenskum ferðaskrifstofum og þær séu félaginu mikilvægir samstarfsaðilar. Hann bendir líka á stærð íslenska markaðarins í samanburði við þann bandaríska. Áherslan liggi því skiljanlega vestanhafs.

Áætlunarflug Delta frá New York hefst í lok mars en síðustu sumarvertíðir hefur Delta beðið með fyrstu ferð fram í maí. Jan Feenstra segir þessa breytingu til marks um þá trú sem Delta hafi á Íslandi sem áfangastað enda sé spurn eftir ferðum þangað mikil og farþegarnir komi frá öllum hornum Bandaríkjanna.

„Ísland var eitt af fyrstu löndunum til að létta á sóttvarnaraðgerum vegna Covid og þá jókst eftirspurnin og hún hefur verið mikil allar götur síðan. Það er varla til sá staður í Bandaríkjunum sem þú kemst ekki til með Delta. Farþegarnir í fluginu til Íslands koma því víða að og nýta sér þær mörgu tengingar sem við bjóðum upp á til og frá New York, Minneapolis og Detroit.

Þetta virkar líka á hinn veginn, Íslendingar geta flogið með Delta til Bandaríkjanna og þaðan fundið hentugt tengiflug til fjölda áfangastaða, ekki bara í Bandaríkjunum heldur líka Kanada og Suður-Ameríku.“

Engin áform um að hætta með fulla þjónustu

Í Bandaríkjunum eru vildarklúbbar flugfélaga vinsælir og því hefur verið haldið fram af íslenskum ferðafrömuðum að í Íslandsflugi Delta séu flestir farþegarnir að nýta punkta. Jan Feenstra segir þetta ekki rétt því punktanotkunin í ferðunum til Íslands sé ekki algengari en gerist og gengur í Evrópuflugi Delta.

Eitt er það þó sem skilur að Delta og íslensku keppinautanna er sú staðreynd að Delta býður upp á fulla þjónustu um borð. Farþegarnir þurfa því ekki að nota peninga eða punkta til að kaupa sér veitingar. Og það eru engar áætlanir uppi um breyta út af þessari reglu í flugi Delta milli heimsálfa, að sögn Feenstra, sem segir farþegana í Íslandsflugi reyndar fá í svanginn tvisvar sinnum á leiðinni.

Vetrarútgerð ennþá möguleiki  

Á árunum fyrir heimsfaraldur bauð Delta upp á flug hingað allt árið um kring frá New York og reyndi eitt árið að fá hentuga afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir vetrarferðir frá Minneapolis. Aðspurður segir Feenstra það ekki vera útilokað að Delta fljúgi til Íslands í vetur.

„Það er alltaf takmarkið hjá Delta að halda öllum flugleiðum gangandi allt árið. Eftir Covid-faraldurinn urðum við að endurmeta stöðuna víða og finna leiðir til að nota þoturnar á sem bestan hátt. Þær tíðu ferðir sem við erum núna með í sölu til Íslands frá New York, Minneapolis og Detroit ná aðeins fram á haustið en það er ekki útlokað að það verði framhald á í vetur, því eins og ég sagði þá viljum við bjóða upp á ferðir til áfangastaða okkar allt árið um kring.“

Eru ekki að bregðast við komu Icelandair

Í lok nóvember í fyrra tilkynnti Icelandair að félagið ætlaði að hefja flug til Detroit nú í sumar. Stuttu eftir þessa tilkynningu hóf Delta sölu á Íslandsflugi frá Detroit í fyrsta sinn.

Er hægt að líta á Íslandsflug ykkar frá Detroit sem svar við áformum Icelandair þar í borg?

„Nei, við stillum upp dagskránni út frá þeim tækifærum sem við teljum vera til staðar. Detroit er mjög mikilvægur flugvöllur fyrir starfsemi okkar og með því að bjóða upp á Íslandsflug þaðan þá getum við boðið upp á fleiri tengingar en ella.”

Nýjar þotur á færibandinu

Delta hefur nýtt Boeing 757 og 767 í ferðir sínar hingað til lands en þessar þotur eru komnar til ára sinna og verða teknar úr notkun á næstu árum. Feenstra segist aðspurður ekki sjá að sú breyting hafi nokkur áhrif á starfsemi Delta á Keflavíkurflugvelli.

„Ef þú hefur áhyggjur af því að við munum hætta að fljúga til Íslands þegar þessar þotur verða kvaddar þá get ég sagt þér að Delta á von á fjölda nýrra flugvéla á næstu árum sem eru bæði sparneytnari og hagkvæmari í rekstri. Við munum því eiga þotur til að taka við fluginu til Íslands þegar að því kemur að Boeing 757 vélunum verði lagt.”

Vertíð Delta hér á landi hefst þann 26. mars með daglegum ferðum milli Keflavíkurflugvallar og JFK í New York. Í maí bætast við daglegar ferðir til Minneapolis og ferðunum milli Íslands og Detroit verður haldið úti fjórum sinnum í viku.

Nýtt efni

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …

Gott símasamband í höfuðborg Bretlands byggði lengi á hinum 177 metra háa BT Tower sem kenndur var við eigandann, British Telecom. Turninn varð hæsta mannvirkið í London þegar hann var reistur af símafyrirtækinu árið 1964. Það var ekki fyrr en 16 árum síðar að annað mannvirki í London fór upp fyrir þetta símamastur sem einnig …

Velta í ferðaþjónustu í nóvember og desember í fyrra var nærri óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Ef veltan hefði verið í takt við verðbólgu og fjölgun gistinátta ferðamanna þá hefði hún verið um 13 milljörðum kr. hærri. Af undirgreinum ferðaþjónustunnar þá var veitingareksturinn sá eini sem hélt í …

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital Credit varð langstærsti hluthafinn í Icelandair í júní 2021 og á nú 17,2 prósenta hlut. Sjóðurinn hefur fjárfest fyrir 10,4 milljarða króna í flugfélaginu en fengi rétt 7,5 milljarða fyrir hlutinn í dag. Mismunurinn nemur nærri 3 milljörðum króna en gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 18 prósent frá því …

Tölur sem Kóperníkus, lofthjúpsvöktunaþjónusta Evrópusambandsins, og ítölsku umhverfisverndarsamtökin Legambiente kynntu nýlega sýna að í Mílanó mælist svifryk og önnur loftmengun áfram hvað mest í allri Evrópu. Nú er loks rætt um það af yfirvöldum í Mílanó og nærliggjandi borgum og bæjum á Langabarðalandi að grípa einhverra aðgerða - eins og að takmarka notkun á mest …

Þátttaka hins opinbera í rafbílakaupum landsmanna er nú með breyttu sniði. Í stað skattaafsláttar upp á 1,3 milljónir króna, sem dreginn var frá söluverði nýrra rafbíla, þá verða kaupendur bílanna að greiða fullt verð í umboðinu og sækja svo um 900 þúsund króna styrk hjá Orkustofnun í framhaldinu. Þessi breyting var gerð um síðustu áramóti …

Sá sem kaupir ódýrasta fargjaldið hjá Icelandair, Economy Light, þarf að borga aukalega fyrir innritaðan farangur. Áður var töskugjaldið 5.280 krónur en nú þarf að borga allt að 6.600 krónur undir farangurinn aðra leið. Hækkunin nemur 25 prósentum og svo mikil eru hún líka ef innrita á skíði. Flutningur á þeim kostar núna allt að …