Horfur í ferðalögum Kínverja voru ræddar sérstaklega á ferðakaupstefnunni ITB í Berlín. Þriggja ára löng einangrun Kína vegna svonefndarar núll-stefnu stjórnvalda útilokaði almenning frá ferðalögum til útlanda. Það munaði sannarlega um kínversku ferðamennina og þeirra er saknað víða um heim. Ferðavefurinn Skift segir áætlað að kínverskir ferðamenn hafi varið 255 milljörðum Bandaríkjadollara í ferðalög erlendis árið 2019.

Nú hefur verið slakað á ferðatakmörkunum Kínverja. Ráðuneyti menningar- og ferðamála gaf í dag út lista yfir þau lönd sem Kínverkar geta ferðast til frá og með 15. mars. Vestur-Evrópuríkin á þeim lista eru auk Íslands, Serbía, Króatía, Frakkland, Grikkland, Spánn, Albanía, Ítalía, Danmörk, Porúgal og Slóvenía. Athygli vekur að Noregur, Svíþjóð og Finnland eru ekki á listanum.
Bókunum Kínverja í flug til útlanda og skipulagðar hópferðir hefur fjölgað mjög á síðustu vikum. Á ITB-ferðakaupstefnunni í Berlín komu hinsvegar fram áhyggjur af því að enn vantaði mikið upp á að eftirspurn væri svarað með framboði á flugferðum. Það á t.d. við um beint flug á milli Beijing og Berlínar. Framboð ferða þar á milli er enn töluvert minna en það var fyrir heimsfaraldurinn.

Þá var bent á það í Berlín að ferðaskipuleggjendur í Evrópu þyrftu meiri tíma til að bregðast við nýrri sókn Kínverja inn á evrópska ferðamarkaðinn. Það vantar t.d. tilfinnanlega fólk sem hefur þekkingu á þörfum og áhugasviði kínverskra ferðamanna. Fólk sem hafði sérhæft sig í að sinna Kínverjum hvarf til annarra starfa á þessum þremur árum sem liðið hafa frá því kórónaveirufaraldurinn brast á.

Svo er annað: Kínverski ferðamaðurinn hefur breyst frá því fyrir faraldurinn. Nú beinist eindregnari áhugi þeirra að því að upplifa nýja hluti og skoða áhugaverða staði fremur en endilega þá sem frægir eru á samfélagsmiðlum.
Kemur þá enginn Kínverji í Reynisfjöru?
Ferðaþjónustufólk á Íslandi og annars staðar þarf að laga sig að nýjum óskum í næstu bylgju kínverskra ferðamanna.
