Samfélagsmiðlar

Matvörukeðjur bregðast við gagnrýni fjármálaráðherra og lækka verð

Elisabeth Svantesson fer fyrir fjármálaráðuneytinu í hægri ríkisstjórninni sem nú heldur um stjórnartaumana í Svíþjóð.

Fjármálaráðherra Svía, Elisabeth Svantesson, boðaði stjórnendur þriggja stærstu matvörukeðja landsins á sinn fund í byrjun síðustu viku til að ræða ört hækkandi matvælaverð í Svíþjóð. Í febrúar hækkaði verðlag á mat og drykkjarvörum meira en dæmi eru um síðan opinbert verðlagseftirlit hófst árið 2015 eða um 3,4 prósent.

Til samanburðar hefur vísitala neysluverðs á mat og drykkjarvörum á Íslandi hækkað um 3,9 prósent frá áramótum.

„Þetta voru beinskeytt og heiðarleg samtöl þar sem ég kom því skýrt á framfæri að það væri óásættanlegt að verðið hækkaði svona mikið. Mér þykir það heldur ekki sanngjarnt að matvörur í Svíþjóð kosti mun meira en í löndunum í kringum okkur,“ sagði Svantesson eftir fundinn með forstjórum matvörukeðjanna.

Ráðherrann bætti því við að henni þætti það líka lítilsvirðandi að stjórnendum matvörukeðjanna hefðu verið greiddir bónusar á síðasta ári á sama tíma og margar fjölskyldur hefðu ekki efni á að kaupa í matinn.

Forstjórarnir hafa síðustu daga svarað fyrir gagnrýni ráðherrans í viðtölum við fjölmiðla og eru þeir sammála um að veiking sænsku krónunnar sé helsta skýringin á verðþróuninni. Innflutningur sé dýrari en áður.

Nú virðist hins vegar einskonar verðstríð vera í kortunum því fyrir helgi boðaði þýska lágvöruverslunin Lidl lækkanir á 100 vörum í verslunum sínum í Svíþjóð. Coop-keðjan svaraði með því að lækka verð á ávöxtum og grænmeti um 12 prósent. Nú í morgun stigu svo stjórnendur ICA-keðjunnar fram og sögðust ætla að lækka verð á 300 vörum í ólíkum vöruflokkum um 5 til 25 prósent.

Svantesson fjármálaráðherra segir í færslu á Twitter að þessar verðlækkanir væru kærkomnar fyrir alla þá sem eru að reyna að ná endum saman. En Svíar líkt og fleiri þjóðir berjast nú við óvenju háa verðbólgu sem hefur orðið til þess að seðlabanki landsins hefur hækkað vexti í jafnt og þétt að undanförnu.

Ennþá hefur ekkert heyrst um breytingar á verðlagi í verslunum Axfood sem rekur tvær af stærstu matvörukeðjunum í Svíþjóð. Og er sú þögn sögð vera ástæða þess að hlutabréfi í því félagi tóku dýfu um leið og helsti keppinauturinn, ICA, sendi frá sér sína tilkynningu.

Nýtt efni

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …