Samfélagsmiðlar

Virði ferðaþjónustunnar er vanmetið

„Ég hugsa að í dag séum við jafnvel að horfa á að beint tekjutap sé orðið 1-2 milljarðar króna," segir nýr ferðamálastjóri, Arnar Már Ólafsson, um áhrif yfirstandandi verkfalls á ferðaþjónustuna - en þá sé margt ótalið. Hann efast þó um að áhrifin verði varanleg. Arnar Már tekur við starfinu í dag.

Arnar Már Ólafsson

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri

Það blæs ekki byrlega fyrir ferðaþjónustuna á þeim tímapunkti sem Arnar Már Ólafsson tekur við embætti ferðamálastjóra. Hörð vinnudeila Eflingar og atvinnurekenda kemur niður á rekstri hótela og annarra fyrirtækja í greininni. Það sér ekki fyrir endann á deilunni þegar Túristi sest niður með Arnari Má.

Óhætt er að segja að Arnar Már búi að langri og víðtækri reynslu í ferðaþjónustu og fræðimennsku henni tengdri. Hann starfaði lengi hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Iceland Rovers, var leiðsögumaður um áratuga skeið. Þá var hann kennari í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands, lektor og brautarstjóri ferðamálafræða við Háskólann á Akureyri og forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands. Nú síðast starfaði Arnar Már sem leiðtogi markaðsmála innan samsteypunnar sem nefnd er Icelandia.

Krummi kíkir á vegakort – MYND: ÓJ

Við byrjum á að ræða hugsanlegt tjón af vinnudeilunni.  

„Það er dálítið erfitt að meta tjónið til fjár. Ég hugsa að í dag séum við jafnvel að horfa á að beint tekjutap sé orðið 1-2 milljarðar króna. Svo er ýmislegt annað sem kemur til, s.s. samdráttur í neyslu, hugsanlegar endurgreiðslur o.fl. Fyrirtækið sem ég starfaði hjá, Icelandia, hefur orðið fyrir tjóni vegna afbókana. Önnur fyrirtæki hafa upplifað svipað. Svo verður sjálfur áfangastaðurinn, Ísland, fyrir einhverju tjóni en það er erfitt að meta. Einhverjir upplifa ekki áfangastaðinn eins og ætlað var og deila þeirri reynslu með öðrum. Allt hefur þetta áhrif. Við vitum að fólk sem ferðast forðast áfangastaði þar sem er ófriður eða eitthvað hefur neikvæð áhrif á ferðalagið. Ímynd áfangastaðarins Íslands er eitt það verðmætasta sem hann á og á sama tíma er hún brothætt. Við verðum stöðugt að standa vörð um hana.”

Er einhver ástæða til að ætla að þessi áhrif verði langvarandi?

„Ég dreg það í efa. Ferðaþjónustan hefur sýnt að hún er í senn mjög viðkvæm fyrir breytingum, hvort sem þær eru tengdar sveiflum í gengismálum, óveðri, pólitískum óstöðugleika eða deilum á vinnumarkaði o.fl., en á sama tíma er hún fljót að ná sér á strik aftur – og getur gert það kröftuglega.”

Ferðamenn við Minnismerki óþekkta embættismannsins eftir Magnús Tómasson – MYND: ÓJ

Vinnudeilan sem nú stendur er milli atvinnurekenda og Eflingar, fyrir hönd láglaunafólks – fólks sem vinnur við þrif á hótelum og ýmis önnur þjónustustörf. Víða í heiminum er ófriður í kringum ferðaþjónustu. Verkföll hafa verið á flugvöllum, járnbrautastarfsmenn hafa lagt niður vinnu. Eftir heimsfaraldurinn blasti við ný mynd, margt fólk hafði breytt um viðhorf gagnvart atvinnu. Margir eru að endurskoða sína stöðu á vinnumarkaði.

Hlaðmenn að störfum á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

„Þetta er rétt. Ferðaþjónustan fer af stað af krafti eftir kórónaveirufaraldurinn, meiri krafti en margir áttu von á. Það er eðlilegt að fólk leiti eftir betri kjörum á sínum starfsvettvangi. Verkföll eru hluti af lífinu í opnum lýðræðisríkjum. Við þetta búum við og þannig verður það um ókomna tíð.”

Ef við víkjum hugsanlegum áhrifum yfirstandandi vinnudeilna til hliðar, hvernig myndir þú lýsa stöðu íslenskrar ferðaþjónustu?

„Horfur í íslenskri ferðaþjónustu eru góðar. Bókunarstaðan fyrir þetta ár er gríðarlega góð, betri en við þorðum að vona – betri en við höfum áður séð. Í ákveðnum vöruflokkum, tegundum ferða, þá erum við farin að beina fólki yfir á árið 2024 vegna þess að allt er að verða uppselt. Þessu mikla flæði, þessum mikla áhuga á Íslandi, fylgja líka áskoranir. Við þeim þurfum við að bregðast.

Nú er í burðarliðnum metnaðarfull endurskoðun á stefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu til framtíðar. Verið er að ljúka undirbúningi sjálfrar framkvæmdaáætlunarinnar. Ég vænti mikils af þessari vinnu. Við þurfum að vita hvert við stefnum og róa öll í sömu átt. Þó að þessi stefnumótun sé til ársins 2030 þurfum við að hugsa lengra, hafa sýn til framtíðar. Ferðaþjónustan sem atvinnugrein getur haft mikið vélarafl, ráðið miklu um hag okkar Íslendinga, haft verulega góð áhrif á land og þjóð.”

Erlendir ferðamenn sækja sér kaffi og bakkelsi í Hveragerði – MYND: ÓJ

Nýlega sagði þó hagfræðiprófessor að ferðaþjónustan væri láglaunagrein í hálaunalandi, ferðaþjónustan væri góð með öðru, ekki væri hægt að styðjast við hana til framtíðar. Það er mikil umræða um stöðu og mikilvægi ferðaþjónustunnar.

„Já, þetta er mikið rætt. Því miður höfum við séð yfirlýsingar um að vélarafl ferðaþjónustunnar í hagkerfinu sé ofmetið. Því er ég ósammála. Frekar myndi ég segja að virði ferðaþjónustunnar væri vanmetið. Hvernig stæðu byggðir landsins ef ekki væri ferðaþjónustan? Ég hef lengi starfað í ferðaþjónustu. Hagræn áhrif hennar eru mjög mikil, hún skapar störf á öllum stigum.”

Ferðalangar streyma úr rútum á Hvolsvelli – MYND: ÓJ

Hinsvegar er framleiðni í ferðaþjónustu ekki nógu mikil. Það hefur verið bent á að auka þurfi hagkvæmni, reka fyrirtækin betur. Er það ekki eilífðarverkefni?

„Jú, fyrirtækin eru að kljást þetta. Atvinnugreinin er mannaflafrek og kostnaðarhlutfall hátt. Hagræðing, einföldun, stafræn þróun, allt sem hjálpar okkur til að lækka kostnað í starfseminni er sannarlega eilífðarverkefni.”

Erlendir gestir leita upplýsinga í síma í vetrarsól á Hvolsvelli – MYND: ÓJ

Margir hafa áhyggjur af troðningstúrisma. Mikið er fjallað um offjölgun ferðafólks, troðninginn á vinsælum stöðum. Skrifað er í erlendum blöðum að Ísland sé fórnarlamb eigin velgengni. Aðrir segja of mikið gert úr þessu. Þurfum við að bregðast við?

Ferðahópur fær leiðsögn fyrir utan Stjórnarráðshúsið – MYND: ÓJ

„Á sínum tíma þegar þessi umræða fór af stað tóku menn ekki mikið mark á henni. Umræðan var vanmetin. Ég var þá sjálfur mikið í sölu- og markaðssetningu, sótti ferðasýningar, var í viðskiptum, hitti kaupendur vítt og breitt um heiminn, átti í samskiptum við blaðamenn og áhrifavalda. Þá áttaði ég mig á því hvert umræðan var komin. Menn sögðu: Ísland! Nei, er þar ekki bara einhver troðningstúrismi?

Fyrirtækið sem ég starfaði hjá er í alþjóðlegum samtökum útivistarfyrirtækja, sem eru ansi öflug. Á ársþingi þeirra 2019 hélt forseti samtakanna lokaræðu um troðningstúrisma og velti því fyrir sér hvort ævintýraferðamennska væri ekki orðin hluti af vandanum. Hann benti á nokkra staði sem væru fórnarlömb troðnings og nefndi Ísland í því sambandi. Mér var illa brugðið og náði tali af formanninum síðar um daginn og sagði að við þyrftum að tala saman.

Ferðamenn við Strokk
Ferðamenn bíða þess í hópum að Strokkur gjósi – MYND: ÓJ

Eftir ársþingið kom formaðurinn til Íslands og ég tók hann með í tveggja daga ferð um Snæfellsnes í fallegu vorveðri. Þar voru mjög fáir ferðamenn. Formaðurinn sagði: Nú skil ég! Hann leiðrétti síðan misskilninginn í leiðara tímarits og fjallaði þar m.a. um tækifærin í greininni á Íslandi.

Ég lít ekki svo á að Ísland sé fórnarlamb troðningstúrisma. Vissulega eru ákveðin svæði á tilteknum tímum dags – á vissum árstímum – heit. Hinsvegar ef horft er yfir hólinn blasir auðn við, sjón sem hvergi er annars staðar í Evrópu. Það eru gríðarleg tækifæri enn á Íslandi.

Ferðamenn dást að sunnlenskum hestum við þjóðveginn – MYND: ÓJ

Ég held að þessi umræða hafi að einhverju leyti orðið til hér heima. Við sjálf upplifðum á ferð um suðvesturhornið að fleira fólk var þar en við höfðum áður séð. Þetta var rætt á Baklandi ferðaþjónustunnar á Facebook og þangað sóttu innlendir fjölmiðlar efni, sem síðan barst til erlendra miðla. Þetta varð umræða sem espaðist upp. Með þessum orðum er ég hinsvegar ekki að gera lítið úr málinu. Það loga gul ljós. Við þurfum að fá meiri dreifingu í tíma og rúmi. En tækifærin eru mjög mörg, heilu landsvæðin bíða þess að vera uppgötvuð og fá til sín fleiri ferðamenn: Austurland, Norðurland, Vestfirðir, Vesturland.”

Við Skarfabakka – MYND: ÓJ

Hér sitjum við og spjöllum í höfuðstöðvum Icelandia, sem þú hefur unnið hjá, við Skarfabakka í Reykjavík, þar sem skemmtiferðaskipin leggjast að. Er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af offjölgun þeirra?

„Jú, ég hef áhyggjur af því. Það er hinsvegar augljóst af þeirri umræðu að okkur vantar upplýsingar og gögn. Yfirlýsingar fljúga reglulega, með og á móti. Mér finnst þó blasa við að skemmtiferðaskipin séu ekki sá markhópur sem við eigum að sækjast sérstaklega eftir til framtíðar.“

Hvað tekur nú við hjá þér í þessu nýja starfi ferðamálastjóra?

„Verkefni Ferðamálastofu eru skýr og vel lýst í lögum. Þeim verkefnum mun ég sinna af kostgæfni. Síðan er á það að líta að ferðaþjónustan er á fleygiferð. Hún þróast og breytist hratt. Það er ekki óeðlilegt að stofnun eins og Ferðamálastofa taki breytingum í takti við þróunina. Ég reyni að bregðast við þegar þörf er á því.”

Þú ert spenntur?

„Já, ég er mjög spenntur. Ég er með breiðan bakgrunn úr ferðaþjónustu, reynslu sem leiðsögumaður, hef komið að stofnun sprotafyrirtækis og að rekstri í stóru fyrirtæki, unnið í akademíunni við kennslu og rannsóknir. Ég held að ég sé ágætlega undir starfið búinn og vonast til að standa undir væntingum.”

Arnar Már við höfuðstöðvar Icelandia – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …