Samfélagsmiðlar

Delta býst við góðri afkomu vegna mikillar eftirspurnar

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines kynnti í vikunni bjartar horfur varðandi ferðasumarið 2023. Vel gangi að bóka og það skili betri afkomu í öðrum ársfjórðungi en búist hafði verið við vegna vaxandi ótta við efnahagssamdrátt.

Delta

Flugvél Delta á lofti

Hækkandi vextir, mikil verðbólga, uppsagnir í tæknigeiranum og ólga í bankakerfinu í kjölfar gjaldþrots bankanna Silvergate, Silicon Valley, og Signature gáfu ýmsum ástæður til að efast um kaupgetu og eyðsluvilja bandarískra neytenda á næstunni. Flugfélög vestra hafa mætt vaxandi launakostnaði og eldsneytisreikningum með því að hækka farmiðaverð og ekki dró úr áhyggjum manna þegar American Airlines greindi frá því síðastliðinn miðvikudag að afkoman á fyrsta ársfjórðungi væri verri en vonast hafði verið eftir. Bréfin í American Airlines lækkuðu í kjölfar þessara frétta um rúm níu prósent.

Það segir sína sögu um efnahagslega ókyrrð að fólk kaupir almennt flugfarmiða með meiri fyrirvara en áður. Það dregur úr sölu á miðum með skömmum fyrirvara, sem flugfélögin geta selt á hærra verði. Með þessu reynir fólk að komast hjá hugsanlegum verðhækkunum flugfélaganna vegna ytri aðstæðna. Þetta á sérstaklega við um innanlandsflugið í Bandaríkjunum. Nýtt mynstur í farmiðakaupum gæti verið komið til að vera.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Ed Bastian, forstjóra Delta, að fólk sé mjög áhugasamt um að ferðast og spurn eftir utanlandsferðum í sumar sé mikil. Bókunarhorfur næstu mánaða drógu að einhverju leyti úr áhyggjum markaðarins en bréfin í Delta lækkuðu þó örlítið síðdegis á fimmtudag, eða um 0,5 prósent – miklu minna en í American Airlines daginn áður.

Flugmaður Delta í stjórnklefa – MYND: Delta Air Lines

Meðal þess sem ýtir undir áhuga Bandaríkjamanna á að ferðast til útlanda í sumar er sterkur dollar og meiri sveigjanleiki sem margir búa nú við á vinnumarkaði eftir Covid-19. Helsta skýringin á meiri ferðavilja er þó auðvitað að það er einmitt búið að aflétta takmörkunum vegna faraldursins. Fólk þyrstir í ferðalög og ævintýri.

Delta segir að um 75 prósent af farmiðum til útlanda á öðrum ársfjórðungi, frá aprílbyrjun til júníloka, séu þegar bókaðir. Dýrari sætin, sem skila betri tekjum en almenn sæti, eru mjög eftirsótt á lengri flugleiðum og hefur félagið brugðist við með því að fjölga þeim. Vonast er til að tekjur á þessu þriggja mánaða skeiði í vor og snemmsumars aukist um 15-17 prósent. Sætaframboð verður aukið um 17 prósent og búist er við að það haldi áfram að vaxa – og tekjustreymi minnki ekki. Meðal þess sem Delta heldur í og farþegar njóta er full þjónusta um borð. Farþegar þurfa ekki að kaupa veitingar sérstaklega eða nota til þess áunna punkta.

Jan Feenstra
Jan Feenstra, svæðisstjóri Delta í Norður-Evrópu

Delta hóf flug til Íslands fyrr á þessu ári en síðustu sumur. Fyrsta ferðin var farin í lok mars, eins og Túristi greindi frá í viðtali við Jan Feenstra, svæðisstjóra Delta í Norður-Evrópu. Hann sagði það til merkis um þá trú sem Delta hefði á Íslandi sem áfangastað að flugið hæfist nú í lok marsmánaðar í stað maí eins og síðustu árin. Delta hóf flug til Íslands frá New York sumarið 2011, síðar bættist við flug frá Minneapolis og nú í sumar verður einnig flogið hingað frá Detroit.

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …