Samfélagsmiðlar

„Ég get ekki ímyndað mér skemmtilegra starf“

„Framkvæmdirnar hafa verið skipulagðar og unnið að þeim í langan tíma. Því fylgir að við reynum að meta hvaða áhrif framkvæmdir hafa á rekstur, hvaða áhrif ein framkvæmd hefur á aðra" segir Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia, þegar hún ræðir nýtt farangurskerfi sem brátt verður tekið í notkun á Keflavíkurflugvelli og fleiri verklegar framkvæmdir.

Maren Lind Másdóttir

Maren Lind Másdóttir

Hluti framkvæmdanna sem unnið er að á Keflavíkurflugvelli er ekki sjáanlegur þeim sem fara um völlinn. Ný farangurskerfi eru baksviðs og á jarðhæð nýrrar austurálmu. Maren Lind Másdóttir er forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia. Keflavíkurflugvöllur er hennar heimavöllur. 

Ný færibönd fyrir farangur brottfararfarþega – MYND: ÓJ

„Þetta eru í raun tvær aðskildar framkvæmdir. 

Annars vegar það sem snýr að brottför farþega, innritun á farangri þeirra sem eru að fara úr landi. Þar höfum við verið að uppfylla nýjar evrópskar reglugerðir. Við þurftum að taka í notkun nýjan búnað til gegnumlýsingar og það fól í sér að breyta þurfti öllu í kringum hann, setja upp ný færibönd og tölvukeyrðan stýribúnað.

Töskur á leið úr landi – MYND: ÓJ

Til að þetta gengi upp urðum við að minnka tímabundið rými Fríhafnarinnar vegna þess að nýi búnaðurinn er umfangsmeiri en sá gamli. Þarna erum við að reyna að halda í þær meginreglur sem við höfum fylgt um að tryggja rekstraröryggi. Ef eitthvað ber út af þá getum við brugðist við með varaáætlun. Hægt verður að koma töskunni í flugvélina. Með þessu er verið að auka öryggi. Nýju gegnumlýsingarvélarnar uppfylla evrópskar reglugerðir. Þær eru með annan myndgreiningar-algóryþma en þær gömlu og hjálpa okkur við að tryggja að flugferðin verði örugg. 

Framkvæmdir í nýjum komusal farangurs í austurálmunni – MYND: Isavia

Hinsvegar er það sem snýr að komufarþegum – að skila töskum úr flugvélinni, inn í hús og í hendur farþega. Þar erum við að taka í notkun nýtt kerfi í þessari stóru nýju austurálmu flugstöðvarinnar. Við verðum með fjögur ný færibönd í fyrsta áfanga. Þau fyrstu tvö verða tekin í notkun í júlí í sumar. Þarna í gegn fer allur farangur sem er að koma með flugi til landsins, töskurnar koma af hlaðinu, fara á færibönd á fyrstu hæð, þaðan í kjallarann og síðan inn í nýjan komu- og móttökusal. Allur búnaður sem snertir töskuna verður nýr.”

Unnið að uppsetningu færibanda í austurálmu – MYND: Isavia

Þessi færibönd eru mikill og flókinn búnaður. Allt þarf að ganga upp.

„Það verður að undirbúa marga þætti starfseminnar mjög vel áður en svona kerfi er tekið í notkun. Það gerir lífið á flugvelli svo skemmtilegt – sérstaklega líf á flugvelli sem er að ganga í gegnum framkvæmdafasa. Allir þurfa að vera tilbúnir að nota þann nýja búnað og þá aðstöðu sem við erum að koma upp.

Maren við nýju færiböndin – MYND: ÓJ

Við getum ekki bara sagt: Gjörið svo vel, hér er nýr búnaður og aðstaða! Það verður að vera búið að reikna út hvaða tíma það tekur afgreiðsluaðila að koma töskunum inn. Þurfa þeir að breyta verklagi sínu? Þurfa viðhaldsteymin að bæta við sig þekkingu eða breyta sínu verklagi? Það eru ýmsar pælingar sem fara verður í gegnum áður en svona kerfi er tekið í notkun.”

Þið þurfið þá væntanlega að reyna nýjan búnað með miklum prófunum?

„Já, bæði áður en farið var af stað í framkvæmdir og svo eftir að kerfið er tilbúið. Í upphafi hönnum við aðstöðuna og búnaðinn og notum hermunartól til að meta afköst og fá staðfestingu á því að það sem við erum að hanna muni virka. Þegar líður á framkvæmdirnar metum við farþegaspá og og fasaskiptingu afhendingar.

Uppsetningg færibanda er flókin framkvæmd. Úr austurálmu – MYND: Isavia

Svo höldum við námskeið fyrir starfsfólkið sem á að vinna við kerfin. Uppfæra þarf allt námsefni og sjá til þess að allir fái þjálfun. Áður en við byrjum að nota nýja kerfið kemur framleiðandinn með sérstakar töskur sem notaðar eru í prófunum til að staðfesta rétta virkni.”

Frá fyrstu hæð austurálmu – MYND: Isavia

Farþeginn spyr á endanum: Gott og vel, þetta er nýtt kerfi, en fæ ég töskuna eitthvað fyrr en í gamla kerfinu?

„Það ætti ekki að vera mikil breyting á tímasetningu. Það sem breytist er að aðgengið að töskunni verður betra – sem og upplifun farþega. Ólíklegra er að færibandið fyllist og ekkert pláss verði fyrir töskuna þína. Þá erum við að skoða hversu miklar upplýsingar við getum veitt farþeganum um hvar taska hans er í kerfinu.”

Við farangursbelti – MYND: ÓJ

Það hefur oft myndast troðningur við færiböndin. Mun það heyra sögunni til?

„Á Keflavíkurflugvelli myndast mikið álag á háönninni og þá getur auðvitað komið fyrir að margir safnist við böndin sem flytja farangurinn. Ég get ekki lofað því að það verði aldrei troðningur. En eitt af því sem við fórum af stað með við hönnunina var hvernig við gætum stuðlað að því að dreifa farþegunum um töskusalinn. Hversu stór eiga færiböndin að vera til að tryggja að farþegarnir fái sitt pláss, hvernig best er að haga merkingum svo farþeginn viti hvert hann eigi að fara til að nálgast töskuna sína. Við erum að vonast til að bæta upplifun farþega í kringum nýju farangursmóttökuna.”

Úr komusal – MYND: ÓJ

Þó verið sé að stækka flugstöðina í ýmsa enda sitjið þið áfram uppi með það að hún er of lítil. Það er ekki mikið rými í komusalnum fyrir framan landamærahliðið. Þarna er oft þröng á þingi. Það eru engar breytingar að verða á þessu?  

„Við erum auðvitað alltaf að skoða hvernig hægt er að bæta öll svæði flugstöðvarinnar. Stundum þarf að byggja við en annars að breyta því sem fyrir er. Það er verið að skoða byggingu nýs bílastæðahúss og leiðir til að þróa svæðið fyrir framan flugstöðina.

Með austurálmunni stækkar flugstöðin um 39 prósent – MYND: ÓJ

Þessi mikla stækkun með austurálmunni þýðir að við þurfum að breyta ýmsu í forgarði flugstöðvarinnar. Til verða ný tækifæri. Við skoðum hvort hægt sé að nota plássið öðruvísi.”

Allur forgarðurinn, sem núna er nánast fullur af bílaleigubílum og rútubílum, á þá eftir að breytast?

„Þetta mun allt breytast en við erum enn á þróunarstigi með þetta, bílastæðin hafa t.d. tekið breytingum á byggingartíma austurálmunnar en það þýðir ekki endilega að nú séu bílastæðin í sinni lokamynd.

Íslendingar koma flestir á flugvöllinn á einkabílum – MYND: ÓJ

Ekkert hefur verið ákveðið um að fara í þessar breytingar, þ.e. hvorki hvaða breytingar á að ráðast í eða á hvaða tímapunkti, en við erum að skoða landnýtinguna og hvað henti flugvellinum best til framtíðar.”

En hafið þið ekki áhyggjur af því að með fjölgun farþega skapist erfiðar aðstæður fyrir framan húsið?

„Þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að hugsa um og stýra því hvernig hlutirnir þróast. Við þurfum að geta tekið á móti þeim farþegum sem eru að koma til landsins en líka hafa í huga að við þurfum á tengifarþegunum að halda til að að vaxa. Tengifarþegarnir auka ekki vandann fyrir framan flugstöðina. 

Í sumar leysa númeraskynjarar gamla fyrirkomulagið af hólmi – MYND: ÓJ

Það er gaman að nefna í þessu sambandi að við erum að breyta bílastæðabúnaði okkar. Komið verður upp númeralesurum og ökumenn geta notað hin ýmsu smáforrit til að greiða fyrir lagningu. Með þessu erum við að auka möguleika farþegans á að velja sér greiðsluleið en einnig að bæta upplifun hans af bílastæðum, ásamt því að bæta endingu bílastæðabúnaðarins. Við áætlum að taka nýja búnaðinn í notkun fyrir sumarið og erum spennt að sjá það raungerast.”

Útkeyrslan af langtímastæðinu – MYND: ÓJ

Nú í kringum páska eru þið minnt á að framundan er mesta álagið á innviðina hér á Keflavíkurflugvelli. Hvernig leggst sumarið í þig? Hefur þú áhyggjur af því hvernig muni  takast til?

„Það er alltaf þannig á hverju ári að þegar nálgast páska kemur fiðringur í mann. Við höfum verið að undirbúa sumarið. Það er ekki eins og við séum að byrja framkvæmdirnar fyrir mánuði, við höfum frá því í janúar verið að meta áhrif framkvæmda og hvaða eignir verða nýtanlegar. Framkvæmdirnar hafa verið skipulagðar og unnið að þeim í langan tíma. Því fylgir að við reynum að meta hvaða áhrif framkvæmdir hafa á rekstur, hvaða áhrif ein framkvæmd hefur á aðra, t.d. er forsenda fyrir stækkun Fríhafnarinnar sú að við tökum í notkun tvö ný komufæribönd í júlí. 

Markmiðið er ævinlega að hér sé rekinn öruggur flugvöllur í sumar. Ég myndi ekki segja að ég hefði áhyggjur af því. Við höfum farið í gegnum erfiðari sumur. Topparnir hafa verið stærri og húsnæðið takmarkaðra. Ég er hinsvegar mjög spennt fyrir sumrinu, spennt að sjá nýtt húsnæði og búnað tekinn í notkun. Ég geri líka ráð fyrir því að einhverjir hnökrar komi í ljós í byrjun. Annað væri óskynsamlegt. En ég veit líka að á Kefavíkurflugvelli er öflugt samfélag sem mun leysa þá hnökra sem birtast.”

Morgunn á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Það er aldrei neitt búið og gert á flugvelli?

„Ég get ekki ímyndað mér skemmtilegra starf heldur en að vinna á flugvelli, sérstaklega á flugvelli sem er jafn lifandi og Keflavíkurflugvöllur. Koma að öllum þessum framkvæmdum, stýra viðhaldi og rekstri. Þú getur rétt ímyndað þér hversu fjölbreyttan hóp ég er með í kringum mig. Maður er stöðugt að tala við fólk með mikla sérþekkingu. Þegar svo þetta fólk kemur saman fylgir því ómæld gleði. Það þarf að leggja alla þessa þekkingu saman til að allt gangi upp og vera svo tilbúinn að takast á við næstu áskorun. 

Síðan horfir maður í kringum sig og gleðst yfir því þegar flugvélarnar taka á loft.”

Austurálman séð utan af flugvellinum – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Um síðustu mánaðamót var greint frá því á borgarvef Amsterdam að innan marka hennar væri að finna 10 snjalldælur sem ökumenn gætu nýtt sér án endurgjalds. Það sem greinir snjalldælu frá þessum hefðbundnu, sem ökumenn geta nálgast víða til að dæla lofti í bíldekkin, er að þær tryggja að þrýstingur sé réttur. Margir ökumenn hafa …

Eins og raunin var í gær, þá fá ferðamenn ekki að fara upp á Akrópólishæðina í Aþenu um miðjan daginn vegna óvenjulega mikils hita miðað við árstíma. Engum verður hleypt upp á hæðina frá hádegi til klukkan fimm síðdegis. Sama gildir um aðra fornleifastaði í landinu, sem ferðamenn sækjast eftir að skoða. Allir sem hafa …

Í byrjun síðasta vetrar hóf Easyjet að fljúga tvisvar í viku milli London og Akureyrar. Aldrei áður höfðu áætlunarferðir verið í boði á þessari flugleið og íbúar á Norðurlandi tóku þessari nýjung fagnandi og voru í meirhluta sætanna í þotum breska flugfélagsins. Þetta mátti sjá á tölum norðlenska gististaða því breskum gestum fjölgaði ekki ýkja …

Ákvörðun Evrópusambandsins um að leggja allt að 38,1 prósents viðbótartoll á kínverska rafbíla vekur áhyggjur margra í alþjóðlega viðskiptaheiminum. Verndartollum er ætlað að hemja samkeppni að utan, reisa varnir á heimavelli, en leiða auðvitað gjarnan til þess að mótaðilinn svarar fyrir sig. Það óttast einmitt evrópskir framleiðendur, sem háðir eru viðskiptum við Kína, að gerist …

Vorið 2021, stuttu áður en Play fór í loftið í fyrsta sinn, efndi félagið til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Í kjölfarið voru bréfin skráð á First North Growth í Kauphöllinni en um þann markað gilda ekki eins strangar reglur og Aðalmarkað Nasdaq. Í tengslum síðustu hlutafjáraukningu, sem lauk í apríl síðastliðnum, var …

Viðskiptastríð vesturveldanna og Kína heldur áfram að þyngjast því fyrr í dag gaf Evrópusambandið út að 38,1 prósent innflutningstollar yrðu lagðir á kínverska rafbíla frá og með næsta mánuði. Sú hækkun bætist við þann 10 prósent toll sem í dag ríkir á innflutning rafbíla frá Kína til aðildarríkja ESB. Þessi viðbótartollur hefur verið yfirvofandi síðustu …

Það var í júní 2014 sem breska lággjaldaflugfélagið Flybe, sem nú er gjaldþrota, hóf áætlunarflug til Íslands frá Birmingham. Flugleiðin stóð ekki undir væntingum stjórnenda Flyby og var lögð niður eftir níu mánuði. Þá tók Icelandair við keflinu og hélt úti tíðum ferðum milli Íslands og þessarar næstfjölmennustu borgar Bretlands fram í ársbyrjun 2018. Síðan …

Í Bandaríkjunum eru lestarsamgöngur ekki eins góðar og í Evrópu og þurfa þeir sem ætla að sækja komandi landsfundi Demókrata og Repúblikana annað hvort að keyra eða fljúga á fundarstað. Af þeim sökum hefur bandaríska flugfélagið United Airlines bætt við 118 flugferðum til og frá Chicago í ágúst í tilefni af landsfundi Demókrata. Repúblikanar hittast …