Samfélagsmiðlar

Eigum við að hætta að fjasa um troðningstúrisma?

Mikið var rætt um offjölgun ferðafólks á Íslandi og víðar fyrir heimsfaraldur. Flestir voru sammála um að bregðast þyrfti við troðningstúrisma, átroðningi ferðafólks. Það er hinsvegar ekki alltaf skýrt hvað átt er við með fullyrðingum um offjölgun ferðafólks og óvíst það eigi við eftir heimsfaraldurinn.

Feneyjar

Götumynd frá Feneyjum

Það eru nokkur orð notuð yfir það sem við á TÚRISTA köllum troðningstúrisma. Á ensku er talað um overtourism til að lýsa því þegar mass tourism fer úr böndunum. Hér á Íslandi er gjarnan slett og talað um „massatúrisma“ til að lýsa ástandi sem skapast með miklum fjölda ferðamanna. Við höldum okkur við að tala um troðningstúrisma – allavega um sinn.

Dómkirkjutorgið í Mílanó
Á Dómkirkjutorginu í Mílanó – MYND: ÓJ

En er það á hreinu hvað hugtakið troðningstúrismi (masstourism/overtourism) þýðir? Nei, mörkin eru mjög óljós. Það sem einum þykir troðningur er í annars augum von um góða afkomu – eða bara lífleg stemmning. 

Michael J. O´Regan er fyrirlesari um ferðamál við Caledonian-háskóla í Glasgow og hefur fjallað í skrifum sínum töluvert um hugtakið troðningstúrisma og hvernig blaðamenn hafa notað það í skrifum sínum og umfjöllun. Rætt var við Michael J. O´Regan í hlaðvarpsþætti ferðavefsins Skift nýverið. Það var einmitt Skift sem setti stimpilinn troðningstúrismi á Ísland 2016 og hefur fjölmiðillinn verið harla gagnrýninn í nálgun sinni á íslenska ferðaþjónustu. Mátti skilja af hlaðvarpsþættinum að markmið Skift hafi ekki síst verið að vara yfirvöld ferðamála og alla hagaðila við hættunni af offjölgun ferðamanna.

Hvað sem líður réttmæti þessa stimpils á Ísland og önnur lönd, borgir eða svæði, þá verður að viðurkennast að ferðavefnum tókst að koma hugtakinu að í almennri umræðu um ferðamál, eins og bent var á í umræddum hlaðvarpsþætti. 

Fólk í biðröð á Reykjavíkurflugvelli
Biðröð á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ
Mynd: ÓJ
Túristar bíða goss – MYND: ÓJ

Troðningstúrismi lýsti upplifun margra á umfangi ferðaþjónustunnar fyrir heimsfaraldurinn. Hinsvegar var vandinn sá að hugtakið var notað á misjafnan hátt af ólíkum hópum fólks til að lýsa slæmum aðstæðum, jafnvel neyðarástandi, segir O´Regan. Sama hugtakið er notað um ferðamannafjöldann í Barselóna og í litlum smábæ. Til verða óskemmtilegar eða neikvæðar myndlíkingar, eins og þegar ferðamannahópum er líkt við býflugnasveim, urmul eða mergð – eða hreinlega plágu. O´Regan segir að engum öðrum hópum fólks sem færist milli staða sé lýst með sama hætti og fólk leyfir sér gagnvart túristunum. Þetta hafi áhrif. Þegar ferðamönnum sé líkt við hálfgerða óværu komi krafan um að bregðast hart við – reisa varnir. Stjórnendur sveitarfélaga og aðrir hafi hver af öðrum sagst viðurkenna ógnina af troðningstúrismanum og nú þyrfti að fylgjast betur með þessum flaumi – hafa gát á fólki með myndavélum o.s.frv., greina í sundur þá sem væru eftirsóknarverðir og hina sem væru óttaleg plága.

Litlu hafmeyjan í Kaupmannahöfn og túristarnir – MYND: ÓJ

Þetta hafði mikil áhrif á pólitíska orðræðu – og hefur enn. Kínverskir ferðamenn urðu illa fyrir barðinu á þessari nýju flokkun, sem reyndist oft birtast sem rasísk í skrifum vestrænna fjölmiðla um troðningtúrisma. Ekkert var fjallað um það hvort vestrænir gestir gætu valdið álagi í Kína eða Tælandi en öðru máli gegndi um það þegar Kínverjarnir birtust í hópum á Vesturlöndum. Þetta er raunar ekkert nýtt, segir O´Regan. Talað var á svipaðan hátt um japanska ferðamannahópa sem tóku að birtast í Evrópu og Norður-Ameríku á níunda áratugnum og rússneska ferðamenn þegar þeir gátu ferðast eftir fall Sovétríkjanna.

Þau sem komin eru á miðjan aldur kannast við hvernig talað var um japanska ferðamenn í hópum, sem horfðu á allt i gegnum stórar linsur myndavélanna og glysgjörnu, nýríku og eyðslusömu rússnesku ferðamennina. 

Asískur ferðamannahópur á Markúsartorgi í Feneyjum – MYND: ÓJ

Tal um troðningstúrisma náði hámarki árin 2018 og 19 – áður en Covid-19 breytti öllu. Fram að faraldrinum var fjölgun ferðamanna líkt, eins og áður sagði, við plágu eða aðrar hörmungar. Grípa þyrfti til öflugra aðgerða til að verja viðkvæm samfélög og íbúa þeirra fyrir troðningtúrisma, koma í veg fyrir offjölgun fólks á götum borga og bæja og draga úr áhrifum á húsnæðismarkaði.

Þegar heimsfaraldurinn brast á hófst umræða um það meðal fræðimanna hvort ekki þyrfti að nota annað hugtak en troðningstúrisma um afleiðingar lélegrar stjórnunar ferðamála. Hvorki væri gagnlegt né sanngjarnt að beina allri sök að sjálfum túristunum. Ræða þyrfti framtíð ferðaþjónustu í heild í tengslum við baráttuna gegn loftslagsbreytingum, hvernig fækka megi vistsporum hennar – gera þessa atvinnugrein sjálfbæra. 

Malpensa
Maður með brúsa bíður flugs – MYND: ÓJ

Ein leiðin sem gjarnan er nefnd er að gæðatúrismi komi í stað troðningtúrisma. Raddir sem fluttu þennan boðskap heyrðust á fundi sem ferðamálaráðherra og fleiri stóðu að nýverið í Hörpu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar. Michael J. O´Regan bendir á að það sé alls ekki skýrt hvað átt sé við með gæðatúrisma. Er það túristi sem flýgur um á einkaþotu og stoppar stutt við á hverjum stað? Það er nú aldeilis ekki sjálfbær ferðamennska. Slíkir ferðamenn skilji ekki eftir mikla fjármuni í þeim samfélögum sem þeir heimsækja. Á hinn bóginn geti bakpokaferðalangar verið sannkallaðir gæðatúristar – af því að þeir dvelja lengur á hverjum stað, nota almenningssamgöngur, borði á venjulegum veitingahúsum og greiði fyrir næturgistingu á gistihúsum eða einkaheimilum. O´Regan sagði bakpokaferðalanga góða til að byggja upp ferðaþjónustu hægt og rólega, laga samfélög að gestakomu. Og þótt Instagram og Justin Bieber væri kennt um offjölgun túrista á Íslandi og vandamálin sem henni fylgdi þá hefði fjölgunin stuðlað að efnahagsbata eftir bankahrunið. 

Bakpokaferðalangar – MYND: ÓJ

Mikilvægast í huga fræðimannsins er að stýra ferðaþjónustunni, viðurkenna að túristar geta haft slæm áhrif á áfangastaði þeirra og lífsgæði fólksins sem býr þar. En það verði að spyrja réttu spurninganna og benda í réttar áttir. Verkfærin til að stjórna væru þegar fyrir hendi: skattlagning, takmarkanir á skammtímaleigu, aukin fræðsla til heimafólks um hvernig taka eigi á móti ferðafólki, starfsþróun og aðrar leiðir til að bæta ánægju þeirra sem vinna í ferðaþjónustu. Segja má að Jane Stacey frá OECD hafi talað á þessum nótum á fyrrnefndum fundi í Hörpu. „Við þurfum að meta upp á nýtt hvað sé vel heppnuð ferðaþjónusta,“ sagði hún.

Tjöruhúsið á Ísafirði – MYND: ÓJ

Ferðaþjónustan er efnahagslega ein mikilvægasta starfsgrein heimsins. Tugmilljónir manna afkomu sína undir ferðafólki. Ferðaþjónusta er eina leið milljóna manna til að koma undir sig fótunum. Hún stuðlar líka að meiri skilningi manna á meðal, byggir brýr milli ólíkra menningarheima. Michael J. O´Regan hefur áhyggjur af því að illt umtal um ferðaþjónustuna fyrir heimsfaraldur hafi fælt marga frá starfsgreininni. Það sé ekki síst hlutverk menntastofnana að endurglæða áhuga ungs fólks á greininni og finna leiðir til að auka sjálfbærni, stýra betur ferðamannafjölda og áhrifum á umhverfi greinarinnar. Hann segist vonast til að stjórnmálafólk, leiðtogar í viðskiptalífinu og ýmsir hagaðilar taki höndum saman með fræðasamfélaginu og stuðli að aukinni menntun, sem nýtist ekki bara nemendum sjálfum heldur líka efnahagslífinu, áfangastöðum ferðafólks – og ekki síst íbúum þeirra. Góð byrjun til að takast á við verkefni sé að ræða hvernig eigi að leysa það. 

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …